Sveitarstjórn krefst ófrjósemi

Guðmundur Haukur, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar háfar hér upp einn af …
Guðmundur Haukur, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar háfar hér upp einn af þrjátíu eldislöxum sem náðst hafa í Blöndu. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Sveitarstjórn Húnabyggðar fundaði í dag og ræddi þar meðal annars þá stöðu sem upp er komin í sveitarfélaginu sem fóstrar margar af þekktustu laxveiðiám Íslands. Straumur eldislaxa upp í árnar er staðfestur og óttast sveitarstjórn afleiðingar þess umhverfisslyss sem nú blasir við. Tugir laxa úr sjóeldiskvíum Arctic Fish í nágrenni Patreksfjarðar hafa sloppið úr kvíunum og eru nú í miklu magni úti fyrir Vestanverðu landinu. Þetta er frjór fiskur og hann gengur í árnar til að hrygna. Óttast menn afleiðingar þess og hnignun íslenska laxastofnsins. Sveitarstjórnin samþykkti eftirfarandi bókun á fundi sínum í dag.

„Sveitarstjórn Húnabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri staðreynd að nú séu að veiðast eldislaxar í mörgum ám í sveitarfélaginu og á Norðurlandi vestra. Alls hafa veiðst um 50 eldislaxar í ám á Norðurlandi vestra á síðustu tveimur vikum og í fæstum ám er einhver möguleiki til staðar að fylgjast með mögulegri gengd eldislaxa.

Í Húnabyggð eru fjölmargar laxveiðiár og sumar þeirra með frægustu laxveiðiám landsins. Hér má t.d. nefna Vatnsdalsá, Laxá á Ásum, Fremri Laxá, Blöndu, Svartá, Gljúfurá, Laxá í Refasveit og Laxá í Laxárdal. Í Húnaþingi vestra eru ennfremur Hrútafjarðará, Víðidalsá, Miðfjarðará o.fl. og í Skagabyggð Hallá og Laxá á Skaga. Þá eru ónefndar allar árnar í Skagafirði en allt hafsvæði úti fyrir Norðurlandi vestra er friðað fyrir sjóeldi.

Það er einsýnt að friðun þessa svæðis eru orðin tóm þegar lax frá öðrum landsvæðum getur gengið óhindrað inn á svæðið sleppi þeir úr sjókvíum. Það er ekki ætlun sveitarstjórnar að bera saman ólíka atvinnuvegi og fara þannig að meta hvaða fjárhagslegu hagsmunir eru ofar öðrum. Það er augljóst að atvinnuuppbygging er mjög mikilvæg fyrir landsbyggðina og smærri sveitarfélög. Það getur samt ekki verið þannig að atvinnuuppbygging á einu svæði hafi skaðleg áhrif á atvinnuuppbyggingu á öðru og geti mögulega eyðilagt áratuga uppbyggingu sterks vörumerkis sem villti íslenski laxinn sannarlega er.

Þá eru ótalin þau rök sem ættu að vega þyngst sem snúast um að vernda villt dýralíf í og við landið. Það er algjörlega ólíðandi að slíkir skammtímahagsmunir sem hér er um að ræða ráði för við mögulega eyðileggingu á vistkerfi sem hefur verið í þúsundir ára.

Það er og verður að vera hlutverk yfirvalda að stýra atvinnuuppbyggingu í landinu þannig að sómi sé af og sveitarstjórn Húnabyggðar mótmælir því kröftuglega að ekki séu strangari reglur og skilvirkara utanumhald um sjókvíaeldi. Það eru engin rök fyrir því að gera þetta þetta ekki vel, nema þau að það kosti peninga, sem eru að sjálfsögðu engin rök þegar umtalaðir hagsmunir eru undir.

Eldislaxinn sem slapp frá Arctic Fish er frjór. Hér má …
Eldislaxinn sem slapp frá Arctic Fish er frjór. Hér má sjá hæng og hrygnu sem háfuð voru úr laxastiganum í Blönd. Hrogn og svil er það sem þarf til að búa til næstu kynslóð. Sveitarstjórn krefst þess að einungis ófrjór lax verði notaður í sjókvíaeldi. Ljósmynd/Eggert Skúlason


Sveitarstjórn Húnabyggðar krefst þess að sett verði í lög að eldislax sé ekki frjór og að tryggt sé að laxar geti ekki sloppið. Að öðrum kosti er verið að tefla í hættu villtum laxastofnum Íslands sem og afkomu fjölmargra landeigenda, rekstraraðila og starfsmanna sem starfa við rekstur sjálfbærrar laxfiskaveiði í Húnabyggð og annarsstaðar á landinu. Sveitarstjórn skorar á forsvarsfólk fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum að koma og kynna sér ástand laxveiðiáa á svæðinu.“

Guðmundur Haukur Jakobsson forseti sveitarstjórnar er jafnframt varaformaður Veiðifélags Blöndu og Svartár og hefur hann verið maðurinn sem háfar upp eldislaxana í laxastiganum í Blöndu. Hann þekkir því stöðu mála betur en flestir aðrir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert