Vilja láta loka laxastigum og framlengja veiðitíma

Einkennin eru augljós. Uggar og sporðar eru tættir og rifnir. …
Einkennin eru augljós. Uggar og sporðar eru tættir og rifnir. Fiskurinn er af stærðargráðunni 80 sentímetrar og mun nýlegri að sjá en aðrir laxar í ánni. Ljósmynd/Aðsend

Fiskistofa hvetur veiðifélög til að loka laxastigum og framlengja veiðitímabil til 15. nóvember. Hvorutveggja er liðir í björgunaraðgerðum vegna þess umhverfisslyss sem er staðfest þar sem þúsundir frjórra eldislaxa sluppu úr sjókvíum við Patreksfjörð. Laxarnir eru í eigu Arctic Fish og eru af norskum uppruna. Um er að ræða sex til sjö kílóa fiska.

Eftir fundahöld með Hafrannsóknastofnun, og Landssambandi veiðifélaga hefur Fiskistofa beint þeim tilmælum til veiðifélaga að þau loki laxastigum og jafnframt að stangveiðitímabil verði framlengt til 15. nóvember í þeirri viðleitni að finna og ná eldislöxunum áður en þeir hrygna.

Feðgarnir Guðmundur Haukur Jakobsson og Jakob Þór Guðmundsson með eldislaxa …
Feðgarnir Guðmundur Haukur Jakobsson og Jakob Þór Guðmundsson með eldislaxa úr laxastiganum í Blöndu. Samtals er búið að ná þar þrjátíu slíkum löxum. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Fundað síðustu daga

Frekari aðgerðir eru nefndar til sögunnar í bréfi frá Fiskistofu til veiðifélaga og leigutaka. Aðgerðir sem vinna þarf í samráði við Fiskistofu eru ádráttarveiði með netum. Leit með ljósum og rekköfun. Í frétt á heimasíðu Landssambands veiðifélaga er greint frá þessu og talað um samræmdar björgunaraðgerðir. Þar segir;

„Fulltrúar Landssambands veiðifélaga hafa fundað með Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun síðustu daga til að skipuleggja og samræma björgunaraðgerðir. Niðurstaða þeirrar vinnu er að Fiskistofa mun í fyrsta lagi veita veiðifélögum almennar heimildir til aukinnar veiði og í öðru lagi leggja til sértækar veiðiaðgerðir í samráði við Fiskistofu.

  1. Almennar heimildir sem ganga þegar í gildi og Fiskistofa hvetur til að verði nýttar:
    1. Lokun laxastiga.
    2. Lenging stangveiðitímabils til 15. nóvember.
  1. Veiðiaðgerðir í samráði við Fiskistofu:
    1. Ádráttarveiði.
    2. Leit með ljósum.
    3. Rekköfun.“

Sporðaköst hafa flutt fjölda frétta af eldislöxunum sem nú streyma upp í laxveiðiár. Landssamband veiðifélaga hefur tekið saman stöðuna og segir á heimasíðu þeirra;

„Fjöldi veiddra laxa, skv. talningu Landssambandsins, er kominn í 106 laxa á svæðinu frá Laxá í Dölum í vestri að Fnjóská í austri. Mun fleiri eldislaxar hafa þó sést í ám og teljurum. Landssamband veiðifélaga ítrekar mikilvægi þess að fá upplýsingar um alla eldislaxa sem veiðast (eða sjást) og að þeim sé skilað til Hafrannsóknastofnunar til greiningar.“

Nú þegar er einhver veiðifélög farin að skipuleggja björgunaraðgerðir og er Sporðaköstum kunnugt um að flokkur manna mun fara um Vesturá í Miðfirði í kvöld til freista þess að ná eldislaxatorfu sem sást neðarlega í ánni. Laxastiganum í Kambsfossi í Austurá hefur þegar verið lokað og hann er vaktaður daglega til að greiða fyrir göngu viltra laxa og að reyna að ná til eldisvillinga.

Verður að gerast núna

„Þetta verður að gerast núna. Við höfum einhverjar þrjár til fjórar vikur áður en óafturkræft slys hefur átt sér stað,“ sagði Rafn Valur Alfreðsson leigutaki Miðfjarðarár í samtali við Sporðaköst, síðdegis.

Laxastiganum í Blöndu var lokað fyrir tíu dögum og þar hafa verið háfaðir þrjátíu eldisvillingar sem annars hefur horfið á vatnasvæðinu.

Önnur veiðifélög sem Sporðaköst ræddu við í dag eru að skipuleggja aðgerðir og meta hvernig þær geta skilað sem bestum árangri í þessum viðamikla björgunarleiðangri sem nú er hafinn.

Það sem er ekki síður merkilegt við þessa stöðu er að nú er í fyrsta skipti viðurkennt af opinberum aðilum að umhverfisslys hafi átt sér stað í tengslum við sjókvíaeldi. Fiskistofa vitnar í lög um lax og silungsveiði frá 2006 þegar stofnunin heimilar þessar aðgerðir. Í sautjándu grein þeirra laga er heimiluð stangveiði allt til 15. nóvember er villtum laxi er sleppt.

Þær aðgerðir sem nefndar eru hér að ofan að vinna þurfi í samráði við Fiskistofu, ádráttur, leit með ljósum og rekköfun verða greiddar af Fiskistofu segir í bréfi sem stofnunin sendi til veiðifélaga. Þó þarf að koma til að Fiskistofa mæli fyrir um aðgerðirnar og hafi eftirlit með þeim.

Hvað varðar rekköfun þá mun Fiskistofa hafa milligöngu um að fá til landsins sérfræðinga frá Noregi sem eru sérhæfðir í rekköfun, eða snorkli til að leita að eldislöxum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert