Haustveiðin tosar upp lélegt sumar

Jóhann Gunnar Jóhannsson með einn af fiskum vikunnar. Hann fékk …
Jóhann Gunnar Jóhannsson með einn af fiskum vikunnar. Hann fékk þennan hundrað sentímetra lax í Stóru-Laxá í gær. Veiðistaðurinn var Bergsnös. Ljósmynd/Bjarki Már Viðarsson

Eitt og annað forvitnilegt má lesa út úr vikutölum í laxveiðinni sem angling.is, vefur Landssambands veiðifélaga birti í dag. Fyrstu lokatölurnar líta dagsins ljós og misskipt veiði í Rangánum. Þá komust bæði Norðurá og Hofsá yfir þúsund laxa markið.

Ytri–Rangá skilaði góðri veiði í síðustu viku eða 399 löxum. Áin er að nálgast þrjú þúsund laxa á með að ástandið er öllu daprara aðeins austar. Veiðimenn í Eystri–Rangá lönduðu 92 löxum í síðustu viku og áin er að nálgast tvö þúsund laxa en var á sama tíma í fyrra komin yfir þrjú þúsund laxa. Að sögn kunnugra er Eystri búin að vera mjög lituð í hátt í mánuð sem gerir alla veiði erfiða og á köflum ómögulega. Kuldi síðustu daga ætti að breyta þessu og verður áhugavert að sjá hvort ekki verður boðið upp á haustveislu þar.

Borgarfjarðaárnar Þverá/Kjarrá og Norðurá skiluðu báðar yfir hundrað laxa veiði og er ljóst að „Prime time" eða besti tíminn hefur færst til í Kjarrá. September hefur verið frábær þar síðustu ár á meðan að þurrkar hafa sett strik í reikninginn nokkur síðustu ár á hinum skilgreinda besta tíma.

Norðurá fór yfir þúsund laxa með þessari góðu viku og þar spiluðu veðurguðirnir stærsta hlutverkið því áin fór í mikinn vöxt og þeir veiðimenn sem nutu sjatnandi vatns gerðu góða veiði. Norðurá er talandi dæmi um að rigningar nú á haustdögum hafa tosað upp heildartöluna en breyta því þó ekki að sumarið flokkast sem lélegt.

Haffjarðará er búin að loka og þar eru lokatölur aðeins betri en í fyrra sem verður að teljast gott í því árferði sem nú hefur verið boðið upp á.

Þær ár sem sérstaklega hafa beðið eftir rigningu eru, Laxá í Dölum, Stóra–Laxá og Kjósin. Allar hafa þær tekið við sér en líkast til er þetta of lítið, of seint. Það hefur þó hresst veiðimenn eins og í Stóru að þar hafa veiðst þrír hundraðkallar síðustu daga. Einn slíkur er á við marga, að minnsta kosti fyrir þann veiðimenn sem fær slíkan happadrátt. Sporðaköst voru búin að segja frá fyrstu tveimur en þann þriðja veiddi Jóhann Gunnar Jóhannsson í þeim nafntogaða veiðistað Bergsnös. Hann mældist 100 sentímetrar og 50 í ummál. Flugan var kvart tomma Radian túba.

Þessar eru afla­hæstar samkvæmt tölum frá angling.is, sem er síða Landssambands veiðifélaga. Listann má sjá hér að neðan. Í fyrsta dálki er fjöldi laxa veidd­ur og miðast sú tala við 13. september. Í dálki tvö er svo viku­veiðin. Þriðji dálk­ur­inn, inn­an sviga, er fjöldi laxa á sama tíma í fyrra, eða 14. september. Töl­ur í þessum lista yfir tíu afla­hæstu árn­ar eru fengn­ar af vef Lands­sam­bands veiðifé­laga, angling.is og einnig af angling iq app­inu þar sem ra­f­ræn skrán­ing á veiðinni fer fram. Upp­lýs­ing­ar um stöðuna í fleiri ám má nálg­ast á báðum þessum síðum. 

Ytri-Rangá og      2.970        399       (4.233)

vest­urb. Hóls­ár 

Eystri-Rangá       1.966         92       (3.191)

Þverá/​Kjar­rá       1.287         118       (1.414)

Selá í Vopnafirði  1.234          96       (1.117)  

Miðfjarðará          1.199        110       (1.392)

Norðurá              1.067         106        (1.349)

Hofsá                 1.009            50        (1.145)

Haffjarðará          905            --        (870) Lokatala

Laxá í Aðaldal       632            37         (368)

Laxá á Ásum        630            33         (820)

Angling.is birtir vikulega tölur úr öllum laxveiðiánum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert