Eldislaxar fundust í Eyjafjarðará

Eldislaxinn sem veiddist í Eyjafjarðará í dag. Nokkrir laxar hafa …
Eldislaxinn sem veiddist í Eyjafjarðará í dag. Nokkrir laxar hafa þegar veiðst og sést í Fnjóská. Ásgeir Atli sem veiddi hann sá fjóra til víðbótar í ánni. Ljósmynd/Ásgeir Atli

Bræður ætluðu að gera sér glaðan dag í Eyjafjarðará og kasta fyrir silung í þessari perlu Eyjafjarðar sem er í botni fjarðarins. Fljótlega settu þeir í lax og hann var silfurbjartur og stór. „Það læddist fljótt að mér grunur að þetta væri eldislax. Enda kom það á daginn þegar við lönduðum honum að þetta var eldislax. Við urðum bara mjög leiðir að upplifa þetta. Við sáum fleiri laxa og ég er nokkuð viss um að það voru að minnsta kosti fjórir aðrir í hylnum,“ sagði Ásgeir Atli Ásgeirsson í samtali við Sporðaköst í dag.

Hann hefur starfað sem leiðsögumaður við laxveiðiár og verið mikið viðGrímsá og einnig í Laxá í Dölum. Þar veiddist einmitt eldislax í dag og er það lax númer tvö sem talinn er sleppilax frá Arctic Fish. Samkvæmt sjónarvotti sáust fleiri slíkir og voru þeir stökkvandi innan um fiska í Kristnipolli, sem er einn af þekktustu veiðistöðum Laxár.

Þessi illa farni lax veiddist í Vatnsdalsá í Vatnsfirði á …
Þessi illa farni lax veiddist í Vatnsdalsá í Vatnsfirði á Barðaströnd í dag. Fleiri laxar hafa veiðst þar og sést. Ljósmynd/Aðsend

Eldislax veiddist í Vatnsdalsá í Vatnsfirði í dag og í gær voru tveir háfaðir úr laxastiganum í Blöndu. Í Miðfjarðará hafa sést um tuttugu fiskar sem gætu verið eldislaxar og náðust tveir í gærkvöldi.

Fréttum af þessum sleppifiskum rignir inn. Víða eru veiðifélög að undirbúa aðgerðir til að berjast við þennan vágest. Eins og Sporðaköst hafa greint frá hefur Fiskistofa þegar heimilað að laxastigum verði lokað og að veiðitími verði framlengdur allt fram til 15. nóvember undir umsjón veiðifélaga.

Horft er til aðgerða á borð við að veiða fiskana að næturlagi með sterkum kösturum og einnig að ádráttarnet veði notuð til að fanga þá.

Von er á sérfræðingum frá Noregi sem hafa skannað ár þar í landi og hreinsað þær af eldislaxi eins og kostur er. Búist er við að snorklað verði í fyrstu ánum á Vestfjörðum strax eftir helgi.

Hafinn er björgunarleiðangur á landsvísu til að bjarga villta íslenska laxinum. Margir telja að það sé of lítið og of seint. Næstu dagar og vikur munu færa heim sanninn um það hversu margir fiskar frá Arctic Fish hafa gengið í ferskvatn. Þangað leita þessir fiskar til að hrygna.

Ýmsar kenningar eru á lofti um framhaldið. Talið er að á fjórða þúsund fullvaxnir laxar hafi sloppið úr kvínni hjá Arctic Fish en háværar raddir eru uppi um að þeir kunni að vera umtalsvert fleiri. Eru þetta fyrstu undanfararnir sem nú eru að ganga í árnar og á stóra gusan eftir að koma? Það er ein af spurningunum sem menn velta fyrir sér núna. Tíminn leiðir það í ljós.

Uppfært kl. 21:16

Í kvöld voru háfaðir tveir eldislaxar til viðbótar úr laxastiganum í Blöndu. Einn fiskur sást að auki en hann náðist ekki. Þeir eru sem sagt að ganga Blöndu á hverjum degi þessir strokufiskar frá Arctic Fish.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert