Margvíslegar björgunaraðgerðir standa nú yfir víða um Vestan og Norðanvert landið og jafnvel víðar þar sem veiðifélög og leigutakar ásamt starfsmönnum á þeirra vegum leita allra leiða til fanga eldislaxa sem gengið hafa í fjölmargar ár. Norska kafarateymið sem nú er að störfum hefur náð góðum árangri. Í morgun skutluðu þeir átta eldislaxa í Laxá í Refasveit og voru síðdegis komnir í Miðfjarðará og voru þar búnir að skutla sjö eldislaxa í Vesturá, síðast þegar Sporðaköst fréttu.
Í gær fóru þeir í Búðardalsá og sáu þar tvo eldislaxa sem þeir náðu ekki. Áin var mikil og eldislaxarnir forðuðu sér í hvítfyssi þar sem kafararnir höfðu nánast ekkert skyggni. Þeir töldu 118 villta laxa í ánni.
Í Flekkudalsá urðu þeir ekki varir við eldislax. En eins og fyrr segir héldu þeir í Laxá í Refasveit í morgun og sáu þar átta eldislaxa sem þeir náðu öllum með skutulbyssunum.
Í Miðfjarðará byrjuðu þeir að skoða Túnhyl í Vesturá. Þar höfðu sést grunsamlegir laxar en kafararnir sáu bara villta laxa. Nokkru neðar í ánni, eða neðan við Kistufoss fóru þeir út í. Þar urðu þeir fljótlega varir við eldislaxa og fældust þeir niður í Myrkhyl sem er nokkru neðar. Þar náðu tveir kafarar þremur löxum eftir dágóðan eltingaleik. Enn neðar náðu þeir svo þremur löxum til viðbótar og var það ærin fyrirhöfn. Þegar Sporðaköst yfirgáfu vettvanginn var enn verið að eltast við laxa sem norsku sérfræðingarnir töldu engan vafa leika á að væru eldislaxar.
Miðfjarðará er mikið vatnasvæði og gæti tekið tíma að leita líklegustu staðina. Einn kafarinn var lasinn í morgun og gátu því bara tveir kafað. Þetta teymi lýkur störfum í lok viku en í beinu framhaldi kemur nýtt teymi til áframhaldandi rekköfunar til að hreinsa upp þá eldislaxa sem finnast.
Víða eru veiðifélög að bregðast við eins og hægt er. Loka laxastigum og reyna að koma auga á eldislaxa sem leynast innan um villta laxinn.
Kafararnir sem nú eru að störfum hafa mikla reynslu af verkefnum sem þessum. Aðspurðir hvort þessir laxar gætu verið að ganga fram eftir hausti og inn í veturinn sögðust þeir ekki geta svarað því. Hins vegar upplýstu þeir að samkvæmt sinni reynslu hegðuðu þessir fiskar sér allavega. Gengu jafnvel upp í árnar þó að langt væri í hrygningu og stór hluti þeirra hegðaði sér ekki eins villti laxinn.
Þetta eru naglar. Skiptu um fatnað úti í haustkuldanum og sögðust geta kafað samfellt í átta klukkustundir ef þess þyrfti. Í Miðfirðinum var eina hjálparefnið sem þeir notuðu barnaolía sem gerir þeim auðveldara að komast í og úr blautbúningnum. Skutulbyssurnar eru öflugar og virka með svipuðu hætti og lásbogar. Teygja er notuð til að skjóta örinni sem er úr stáli. Erfitt getur verið að hitta laxana, sérstaklega þegar er straumur og þeir ókyrrir. En þeir gáfust ekki upp og eltu laxana ítrekað milli hylja þar til þeir náðu þeim.
Viðastaddir rekköfunina voru Þorsteinn Helgason, formaður veiðifélagsins og leigutaki árinnar, Rafn Valur Alfreðsson ásamt starfsmanni Fiskistofu og fleiri aðilum. Fyrirhugað er að halda áfram að leita eldislaxa í Miðfjarðará á morgun.
Guðmundur Haukur Jakobsson, varaformaður Veiðifélags Blöndu og Svartár kom við hjá Hafrannsóknastofnun í morgun og skilaði af sér ríflega þrjátíu löxum sem hafa verið háfaðir í laxastiganum í Blöndu síðustu daga. Ríflega fjörutíu eldislaxar hafa verið háfaðir þar.
Greint var frá því á samfélagsmiðlum í dag að eldislax hefði veiðst í Kálfa, sem rennur í Þjórsá. Það er mikið ferðalag sem sá fiskur hefur lagt á sig og ef hann reynist hluti af sleppingunni frá Arctic Fish er ljóst að engin á er óhult fyrir þessum strokulöxum. Greining á Kálfárlaxinum mun ekki liggja fyrir fyrr en eftir nokkurn tíma.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |