„Mitt fólk er sorgmætt og reitt“

Landssamband veiðifélaga hefur sett inn á kort stöðuna eins og …
Landssamband veiðifélaga hefur sett inn á kort stöðuna eins og hún er núna. Þetta eru staðfestir fiskar en margir þeirra bíða greiningar. Eins og sjá má er staðan alvarlegust á Vestanverðu Norðurlandi þar sem margar af nafntoguðustu laxveiðiánum eru. Ljósmynd/Landssamband veiðifélaga/ÓRG

„Síðastliðinn mánuð hafa yfir 200 norskir kynþroska eldislaxar veiðst í íslenskum laxveiðiánum eftir stórfellt mengunarslys hjá Arctic Fish. Fjöldi fiska sem gengið hefur í árnar skiptir sennilega þúsundum. Þessir fiskar munu taka þátt í hrygningu villta laxins okkar með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á erfðasamsetningu hans. Ljóst er að villti laxinn mun heyra sögunni til innan fárra ára ef þessi þróun verður ekki stöðvuð,“ segir Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga.

Það er ljóst að þó svo að þessi fjöldi hafi verið veiddur er það ekki nema dropi í hafið. Veiðimenn, landeigendur og leigutakar hafa séð mun meira magn í ám en veiðst hefur. Það sem gerir málið enn erfiðara er að þessir fiskar eru en að ganga í árnar og óljóst hversu lengi það getur staðið. 

Hvernig er hljóðið í þínu fólki?

„Það er ekki gott, svo maður noti pent orðalag. Bændur og landeigendur eru bæði sorgmæddir og reiðir yfir því að vera settir í þessa stöðu og leggja nú nótt við dag við að takmarka það tjón sem búið er að valda þeim og villta laxinum. Það er stór hópur fólks að vinna sleitulaust og gera allt sem hægt er. Auðvitað ber okkur skylda til þess en enginn óskaði sér þessa verkefnis og mitt fólk skilur ekki hvernig þetta er látið viðgangast án þess að stjórnmálamenn láti til sín taka eða í það minnsta láti frá sér heyra. Það er bara þögn.“

Eldislaxinn sem slapp frá Arctic Fish er frjór. Hér má …
Eldislaxinn sem slapp frá Arctic Fish er frjór. Hér má sjá hæng og hrygnu sem háfuð voru úr laxastiganum í Blöndu. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Gunnar Örn segir eftir því sem frekari upplýsinga er aflað verði málið alvarlegra. Það er komið í lögreglurannsókn að kröfu MAST og segir Gunnar að fjölmörg atriði virðist hafa farið úrskeiðis á svo mörgum sviðum.

„Ljóst er að menn verða dregnir til ábyrgðar vegna þessara hörmunga, bæði sjókvíaeldisfyrirtækin og stjórnvöld. Því til viðbótar væntir LV þess að stjórnvöld láti forsvarsmenn Arctic Fish sæta refsingu eins og lög gera ráð fyrir. En það er í einu orði sagt ömurlegt að þessir aðilar hafi ekki sinnt ljósastýringu og neðansjávareftirliti.“

Ljósastýring í sjókvíum miðar að því að draga úr kynþroskaferli laxins. Það virðist ekki hafa verið gert með þeim hætti sem rekstrarleyfi Arctic Fish kveður á um. Afleiðingarnar eru þær að laxinn verður kynþroska og lax sem kominn er í þann fasa leitar í ferskvatn. Þar eru íslensku laxveiðiárnar kjörlendi og þar mun hann blandast villta laxinum sem þegar er mættur og farinn að undirbúa hrygningu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert