Eldislax 20% af löxum í Hrútafjarðará

Eldislaxarnir sautján sem Helge Skoglund (t.h.) og teymið hans skutluðu …
Eldislaxarnir sautján sem Helge Skoglund (t.h.) og teymið hans skutluðu í veiðistaðnum Stokki í Hrútafjarðará í dag. Samtals náðu þeir 24 eldislöxum og særðu nokkra. Þeir halda áfram í Hrútu á morgun. Ljósmynd/Aðsend

Norsku rekkafararnir skutluðu 24 laxa í Hrútafjarðará í dag. Fleiri voru særðir. Þetta þýðir að samtals hafa 38 eldislaxar veiðst í ánni síðsumars. Stofnstærð laxins í ánni í ár er metin um tvö hundruð fiskar. Kafararnir halda áfram í Hrútafjarðará á morgun þar sem vitað er um fleiri eldislaxa.

Áhættumat vegna eldis í sjókvíum er fjögur prósent af stofnstærð. Þar er miðað við mögulega strokulaxa sem ganga í einstaka á. Í Hrútafjarðará var því marki náð með átta löxum. Þeir eru hins vegar að verða um tuttugu prósent miðað við áætlaða stofnstærð í ár.

Einn af eldislöxunum. Sárin og sveppasýkingin á hausnum á honum …
Einn af eldislöxunum. Sárin og sveppasýkingin á hausnum á honum er eftir lús sem er vaxandi vandamál í sjókvíaeldi. Ljósmynd/Aðsend

Rekkafararnir ráku upp stór augu þegar þeir komu í veiðistaðinn Stokk. Þar náðu þeir sautján eldislöxum og telja sig hafa hreinsað upp eldislaxinn í þeim stað. Vitað er um laxa í veiðistaðnum Surti og verður hann skoðaður á morgun.

Eftir því sem Sporðaköst komast næst er bændum og landeigendum mjög brugðið við þessi tíðindi en ljóst er að ef ekkert hefði verið að gert hefði innblöndun í stofn Hrútafjarðarár orðið gríðarleg. Stutt er í hrygningu hjá laxi í Hrútunni og það kom mönnum óþægilega á óvart að í nokkrum hyljum fannst stakur eldislax með þremur til fjórum villtum löxum.

Þeir fundu líka laxa á stangli innan um villta laxinn. …
Þeir fundu líka laxa á stangli innan um villta laxinn. Síká geymdi líka eldislaxa en hún er hluti af vatnasvæði Hrútafjarðarár. Ljósmynd/Aðsend

Veiði í Hrútafjarðará í sumar var 186 laxar og er það mjög lélegt ár.

Áhættumat vegna eldis í sjókvíum er sprungið þegar horft er til Hrútafjarðarár, Blöndu og Laxá á Refasveit. Í Blöndu hafa drepnir 53 eldislaxar og 17 í Laxá á Refasveit. Ljóst er að ef bjarga á villta íslenska laxastofninum sem er einstakur í heiminum þarf að grípa til aðgerða strax.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.
100 cm Laxá í Aðaldal Björgvin Krauni Viðarsson 9. ágúst 9.8.
101 cm Víðidalsá N/A 30. júlí 30.7.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert