Tröllin sem ekki veiddust og eftirpartý

Að landa hundraðkalli er mikill áfangi fyrir flesta veiðimenn. En …
Að landa hundraðkalli er mikill áfangi fyrir flesta veiðimenn. En að fá tvo í sama mánuði er alveg magnað. Gunnar Pétursson veiddi þennan 102 sentímetra hæng í Hvítá, við Iðu. Ljósmynd/Gunnar Pétursson

Norsku rekkafararnir eru ekki bara vanir að skutla laxa. Þeir vinna fyrst og fremst við að meta stofnstærðir í norskum ám og hafa mikla reynslu af að telja og meta fiska. Þeir sáu laxa í bæði Víðidalsá og Vatnsdalsá sem þeir sögðu í yfirstærð. Í Þeim mikla stórfiskastað sem Hnausastrengur í Vatnsdalsá er sá þeir fisk sem þeir lýstu með orðinu „monster“ eða skrímsli. Þeir höfðu ítrekað séð stóra fiska og giskuðu auðveldlega á stærð þeirra. En þetta skrímsli hafði komist í tæri við veiðimann í sumar. Hængurinn stórvaxni var nefnilega með flugu í öðru kjaftvikinu. Ekki fylgdi sögunni hvaða fluga það var.

Þegar þessir sömu kafarar höfðu kafað í Kolugljúfur í Víðidalsá, tveir saman komu þeir að máli við fylgdarmenn sína og sögðust hafa séð stærsta lax sem þeir höfðu séð á Íslandi. Fyrri kafarinn sagði fiskinn á bilinu 16 til 18 kíló. Þegar sá síðari kom upp úr sagðist hann hafa séð hæng sem væri um átján kíló. Þessir fiskar eru sem sagt enn til og er líklegt að báðir þessir fiskar sem hér er lýst hafi dvalið þrjú ár í sjó. Kafararnir voru afar glöggir á stærðir og sáu nokkra tíu kílóa fiska í báðum ám, þar að auki.

Sá magnaði veiðistaður Svarthamar í Austurá í Miðfirði gaf tvo …
Sá magnaði veiðistaður Svarthamar í Austurá í Miðfirði gaf tvo fiska í september sem voru báðir 101 sentímeter. Ekki er um sama fiskinn að ræða. Agnar Sigurjónsson hampar hér happdrættinum. Ljósmynd/AS

En ef við gefum okkur að þessir tveir laxar séu í stærðarflokknum XXL þá veiddust nokkrir sem yrðu merktir sem XL. September skilar ávallt nokkrum hundraðköllum og það gerðist líka í sumar. Svissneskur veiðimaður veiddi einn slíkan í lokahollinu í Vatnsdalsá. Það var hængur sem mældist hundrað sentímetrar og var þar á ferðinni lítt reyndur veiðimaður en með hina klassísku Frances í túbu útgáfu. Það sem er þó kannski merkilegast við þennan lax að hann var fyrsti laxinn sem sá svissneski veiðir og því maríulax.

Önnur merkileg saga er hundraðkall númer tvö sem Gunnar Pétursson veiddi í september. Hann landaði 101 sentímetra laxi í Svarthamri í Austurá í Miðfirði, í byrjun september. Við sögðum frá þeim fiski og birtum myndir. Gunnar átti svo annað ævintýri í Hvítá við Iðu nú skömmu fyrir lokun. Þá var hann með rauðan devon og setti í 102 sentímetra hæng. Eins og Gunnar sagði sjálfur í samtali við Sporðaköst. „Magnað að fá tvo svona fiska í sama mánuði.“

Svissneskur veiðimaður sleppir maríulaxi í Hnausastreng í Vatnsdalsá. Þetta var …
Svissneskur veiðimaður sleppir maríulaxi í Hnausastreng í Vatnsdalsá. Þetta var einn af síðustu löxum sumarsins í Vatnsdalsnum. 100 sentímetrar og mældur af þremur veiðimönnum. Ljósmynd/BKR

Það er líka magnað að Svarthamar í Miðfirði gaf annan fisk í þessum stærðarflokki á síðustu dögum veiðitímans. Þann fisk veiddi Agnar Sigurjónsson og stóð hann 101 sentímetra eins og fiskur Gunnars. Við samanburð á fiskunum sést að þetta er ekki sami laxinn.

Þá gaf Eystri-Rangá 101 sentímetra hæng á þýska Snældu þann 27. september. Er það 29. hundraðkallinn sem staðfestur er í sumar á lista Sporðakasta. Nokkrar tilkynningar hafa borist en þar hefur vantað upp á sönnunarbyrði sem Sporðaköst gera kröfu um.

Í fyrra komust þrjátíu fiskar á listann og sumarið 2021 voru þeir 31. Í sumar veiddust fjórir slíkir í Miðfjarðará, þrír í Laxá í Aðaldal og sömuleiðis í Stóru-Laxá, Víðdalsá og Vatnsdalsá. Haffjarðará, Hvítá við Iðu og Grímsá gáfu allar tvo hundraðkalla.

Þessi er glænýr og veiddist í klakveiði í Jöklu. Mikið …
Þessi er glænýr og veiddist í klakveiði í Jöklu. Mikið var af fiski á Hólaflúð og landaði lokahollið yfir fjörutíu löxum. Jökla endaði í 525 löxum sem er gott miðað við aðstæður í sumar. Ljósmynd/Þröstur Elliðason

Magnað eftirpartý í Jöklu

Jökla var úr leik snemma í sumar þegar hún fór á yfirfall með tilheyrandi vatnavöxtum og gruggi. Hún varð óveiðanlega í byrjun ágúst af þessum sökum. Þegar þetta gerðist var veiðin góð í Jöklu og stefndi í gott sumar. Eftir að yfirfallið skall á var veiðin fyrst og fremst í hliðarám og varð mun minni en efni stóðu til hefði Jökla verið veiðanleg.

Þröstur Elliðason, leigutaki fór um mánaðamótin til að freista þess að veiða fisk í klak. Skemmst er frá því að segja að Jökla var komin í mun betra ástand og veiðanleg. Þröstur sagði mikið af laxi vera á Hólaflúð og lentu þeir félagar í hörku veiði. „Þetta var gott eftirpartý. Þegar maður sá allan þennan lax á Hólaflúðinni og sumir býsna nýlegir veltir maður því fyrir sér hvort Jökla hefði ekki gefið metveiði í sumar,“ sagði Þröstur í samtali við Sporðaköst.

Lokahollið gaf rúmlega fjörutíu laxa og lokatala í Jöklu fór því í 525 laxa. Það er góður fjöldi í ljósi þess hversu stutt vertíðin var þar eystra.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert