Einn veiðistaður í Tungufljóti í Vestur–Skaftafellssýslu hefur gefið hreint út sagt ótrúlega veiði í haust. Í þessum eina veiðistað er búið að bóka 138 sjóbirtinga í október. Það er sama tala og Tungulækur, Eldvatn og aðrir veiðistaðir í Tungufljóti, til samans, hafa gefið í mánuðinum.
Þetta er Búrhylur, einn af efstu veiðistöðunum í Tungufljóti. Þar er eins og þessar tölur benda til mikið magn af fiski. Hins vegar fullyrða veiðimenn sem Sporðaköst hafa rætt við að búið sé að veiða mun fleiri fiska í Búrhyl, en eru þar. Þannig að sumir hafa veiðst oft. Öllum sjóbirtingi er sleppt í Tungufljóti.
Eldvatn í Meðallandi hefur gefið 40 sjóbirtinga í október. Tungulækur 54. Heildartalan í Tungufljóti er 181 í október. Eins og fyrr segir hafa 138 af þeim veiðst í Búrhyl. Það þýðir að aðrir veiðistaðir í Tungufljótinu hafa gefið 43 birtinga. Ef við leggjum saman veiðina í Eldvatni, Tungulæk og aðra veiðistaði í Tungufljóti en Búrhyl fáum við út töluna 137. Einum birtingi minna en Búrhylurinn einn hefur gefið.
Búrhylur er þekktur sem góður haustveiðistaður en nú bregður svo við að dreifing á fiski í Tungufljóti er mun minni en menn eiga að venjast. Því fylgir alltaf gleði að setja í fisk og vissulega hafa verið margir stórir í Búrhyl. En það getur verið erfitt að koma fjórum stöngum fyrir í einum hyl.
Aðrir veiðistaðir í Tungufljóti hafa, ekki verið mjög öflugir og engu líkara er en að fiskurinn bunki sig upp í Búrhylnum. Helst er að Gæfubakki hafi verið að gefa veiði. Aðrir staðir mjög lítið. Hvort að það er vegna þess að allir einbeit sér að Búrhyl er erfitt að segja. En það er fáheyrt að einn veiðistaður gefi svo mikla veiði.
Sjóbirtingsveiðin í haust hefur ekki boðið upp á þann fjölda sem var í fyrra og magn af fiskum 90 sentímetrar og stærri virðist við fljóta yfirferð vera minna. En haustið í fyrra var eitt það magnaðasta sem sést hefur þegar kemur að sjóbirtingum í yfirstærð.
Stærsti birtingurinn í Tungufljóti í haust er 97 sentímetra fiskur sem veiddist í Fitjabakka 30. september. Daginn eftir veiddist svo 95 sentímetra birtingur á sama stað. Þriðji stærsti fiskurinn veiddist í gær í títtnefndum Búrhyl og var hann 94 sentímetrar.
Stærsti einstaki dagurinn í Tungufljóti var í fyrradag en þá voru bókaðir þar 49 birtingar. Af þeim voru 40 veiddir í Búrhyl. Fór þar saman að í hádeginu var holl að ljúka veiði og áttu eftir að bóka fiska og hollið sem tók við eftir hádegi gerði góða veiði og landaði 20 birtingum.
Stærstu haustfiskarnir úr Eldvatni eru 94 sentímetra birtingur sem veiddist í Feðgum 30. september og þann fjórða sama mánaðar kom 92 sentímetra birtingur úr Símastreng.
30. september hefur verið sannkallaður stórfiskadagur í birtingnum fyrir austan. Þannig veiddust þrír birtingar í Tungulæk sem mældust 90 sentímetrar og raunar einn af þeim var 92.
Breiðan er með mikla yfirburði þegar kemur að veiðistöðum í Tungulæk. Af 54 fiskum veiddum í október hafa 50 veiðst á Breiðunni. En eins og margir vita er Breiðan efsti veiðistaður í Tungulæk og lækurinn ekki langur.
Allar tölur sem stuðst er við í þessari frétt eru fengnar úr rafrænum veiðibókum á angling iQ.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |