Rjúpnaskyttur sýni hófsemi við veiðar

Rjúpnaveiði hefst í dag og eru veiðimenn hvattir til að …
Rjúpnaveiði hefst í dag og eru veiðimenn hvattir til að sýna hófsemi. Veiðitímabilið er að þessu sinni 25 dagar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rjúpnaveiði hefst í dag. Samkvæmt tillögum frá Umhverfisstofnun (UST) ákvað ráðherra málaflokksins að heimila 25 daga veiðitímabil þetta árið. Veiði er leyfð föstudaga til þriðjudaga næstu fimm vikurnar. Ekki er heimillt að veiða miðvikudaga og fimmtudaga. Síðasti veiðidagur er því þriðjudagurinn 21. nóvember.

Ekki eru sett tímamörk á veiðidögunum sjálfum eins og gert hefur verið. Sum undanfarin ár hafa veiðar ekki mátt hefjast fyrr en á hádegi. Nú er það ekki við líði og geta menn gengið allan daginn kjósi þeir það.

Nýir tímar eru framundan í veiðistjórnun á rjúpu. Mikil átök hafa verið um þennan fugl sem rík hefð er fyrir að veiddur sé á Íslandi. Um það vitna heimildir í jafnvel sjálfum Íslendingasögunum.

Í fréttatilkynningu sem UST sendi frá sér fyrir þetta veiðitímabil segir meðal annars.

„Tillögur þessar eru lagðar fram að undangengnu ítarlegu og faglegu samráðsferli við Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglavernd og Skotveiðifélag Íslands og eru fyrsta skrefið í umbyltingu veiðistjórnunarkerfis fyrir rjúpnastofninn og byggja þær á aðferðarfræði nýs stofnlíkans. 

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu í vinnslu

Síðastliðið ár hefur farið fram vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu og nýtt stofnlíkan (IPM – integrated population model) fyrir rjúpnastofninn. Í lok árs 2022 gerði Umhverfisstofnun tímabundin samning við Dr. Fred Johnson, bandarískan sérfræðing í líkanagerð og veiðistjórnun við háskólann í Árósum og háskólann í Flórída. Fred hefur áratuga reynslu af gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir fugla- og dýrastofna og er einn af frumkvöðlum í heimi aðlögunarstjórnunar (adaptive management). Hann hefur undanfarna mánuði leitt vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpnastofninn og unnið að nýju og endurbættu stofnlíkani sem byggt er á gildum og veiðistjórnunarmarkmiðum vinnuhóps verkefnisins.

Við gerð tillagnanna lagði Umhverfisstofnun til grundvallar niðurstöður úr nýju stofnstærðarlíkani fyrir rjúpnastofninn og mat á æskilegum fjölda veiðidaga. Líkanið byggir á gagnasafni áranna 2005 - 2023 og miðar að því að veiðar ársins muni ekki hafa þau áhrif að stofninn fari undir meðalstofnstærð sömu ára. Niðurstaðan er að rjúpnastofninn í ár þoli 25 veiðidaga.“

Tímabilið byrjar að þessu sinni fyrr en undanfarin ár. Nú …
Tímabilið byrjar að þessu sinni fyrr en undanfarin ár. Nú má veiða allan daginn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gangi þessi vinna eftir er ljóst að meiri fyrirsjáanleiki verður varðandi veiði á rjúpu og ætti dagafjöldi og fyrirkomulag að liggja fyrir fyrr en hefur verið undanfarin ár.

Sölubann og hófsemi

Áfram er sölubann á rjúpu og veiðimenn eru hvattir til þess að gæta hófsemi við veiðar. Ekki er tiltekið viðmiðunartala á fjölda fugla eins og verið hefur en hófsemi er lykilorðið.

Rétt er að minna veiðimenn á að hafa tiltæka staðfestingu á gildu skotvopnaleyfi og veiðikorti. Vissast er að hafa þessi skilríki meðferðis og bjóða snjallsímar upp á einfaldar lausnir í því.

Veðurspá fyrir helgina er ágæt og viðbúið að margir leggi á fjöll og freisti þess að ná í jólamatinn. Þá er gott að vita að menn séu á svæðum sem heimilt er að veiða á og eða þeir fengið leyfi til að veiða á.

Skotveiðifélag Íslands SKOTVÍS, hvetur veiðimenn til að ganga vel um og skilja ekkert eftir nema sporin sín. Það felur í sér að tína upp skothylki og stunda ekki utanvega akstur. Þeir sem vilja ganga enn lengra geta keypt umhverfisvæn skot sem eyðast í náttúrunni á tveimur til þremur árum. Slík skot fást meðal annars í Veiðihorninu og heita Bioammo. Í þeim er ekkert plast heldur er hólkurinn sjálfur unninn úr efni úr plönturíkinu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert