Tár féllu þegar verkið var opinberað

Stóra stundin í Veiðihorninu á föstudag. Vagn Ingólfsson með útskorna …
Stóra stundin í Veiðihorninu á föstudag. Vagn Ingólfsson með útskorna laxinn. Dagný dóttir hans og Embla Ýr Guðbrandsdóttir sem er að verða sjö mánaða fylgdust með og samfögnuðu með pabba og afa. Ljósmynd/Lárus Björnsson

Það var hjartnæm og allt að því dramatísk stund þegar Vagn Ingólfsson opnaði trékassa frá Bandaríkjunum á föstudag. Kassinn var kirfilega merktur og gaf til kynna að innihaldið væri brothætt og viðkvæmt. Opnunin sjálf fór fram í Veiðihorninu í Síðumúla. Það var við hæfi enda má segja að upphafið að málinu öllu hafi einmitt verið þar.

Vagn var með rafmagnsskrúfjárn og finna mátti andrúmsloftið magnast eftir því sem skrúfunum fjölgaði á borðinu og stundin nálgaðist þegar innihaldið yrði opinberað. Kassinn hafði að geyma útskorinn lax sem Vagn hafði unnið að í slétt tvö ár. Hans frumraun á þessu sviði. „Ég vissi alveg að ég myndi brotna þegar ég sæi hann og gæti komið við hann,“ sagði Vagn í samtali við Sporðaköst.

Bergþór Jóhannesson sem aðstoðaði Vagn mikið og til hægri Ólafur …
Bergþór Jóhannesson sem aðstoðaði Vagn mikið og til hægri Ólafur Vigfússon sem skoraði á Vagn að skera út lax í fullri stærð. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafsson

Hugmyndin kviknaði í Veiðihorninu

Ástæðan fyrir því að kassinn var opnaður með viðhöfn í Veiðihorninu er sú að þar kviknaði hugmyndin í júlí 2021. „Óli spurði mig af hverju ég prófaði ekki að skera út lax í fullri stærð. Mér fannst þetta mikil áskorun og hugsaði mig um í nokkra mánuði. Það var svo 20. október 2021 að ég sendi Óla tölvupóst og sagðist ætla að taka þessari áskorun.“

Það voru því slétt tvö ár frá því að Vagn tók áskorun Ólafs Vigfússonar þar til kassinn var kominn inn á gólf í Veiðihorninu. Eftir að Vagn hafði lokið við sjálfan útskurðinn sendi hann laxinn í sprautun og lökkun til Bandaríkjanna en þar tók Danny Harris við honum og lagði lokahönd á verkið.

Vagn klökknaði þegar kassinn var loksins opnaður. Tveggja ára ferli …
Vagn klökknaði þegar kassinn var loksins opnaður. Tveggja ára ferli var þar með lokið. Hann vissi að þetta yrði viðkvæm stund fyrir sig. Ljósmynd/Ólafur Vigfússon

Það fór líka svo að Vagn varð klökkur þegar hann sá laxinn og gat loksins komið við hann í endanlegri útgáfu. „Já. Það komu tár og allt. Ég vissi alveg að þetta yrði viðkvæm stund fyrir mig. Pabbar mega líka gráta.“

Það er auðheyrt á Vagni að hann á eftir að gera fleiri fiska þó að ekkert sé ákveðið í þeim efnum. Hann segir þessa frumraun hafa verið mikið lærdómsferli. Bæði hvað varðar ferlið sem slíkt og ekki síður hvaða tæki og tól henti í þessa vinnu.

Þetta er magnað listaverk og hér eru smáatriðin í bunkum. …
Þetta er magnað listaverk og hér eru smáatriðin í bunkum. Hver einasta hreisturplata var skorin út sérstaklega. Ljósmynd/Vagn Ingólfsson

Hvernig verðleggur maður list?

Hann hefur fengið mikil og góð viðbrögð við verkinu. Hann lagði upp með viðarkubb og ljósmynd. „Viðbrögðin hafa verið mikil og jákvæð. Þegar ég var að opna kassann í Veiðihorninu á föstudag komu tveir sem ég heyrði í og þeir spurðu hvar þessi hefði veiðst. Þá held ég að tilganginum sé náð," brosir Vagn.

Útlagður kostnaður hans vegna verksins er um hálf milljón, áætlar hann. Vinnustundirnar eru varlega áætlaðar sex hundruð.

Útskurðinum lokið. Þá var laxinn sendur til Bandaríkjanna þar sem …
Útskurðinum lokið. Þá var laxinn sendur til Bandaríkjanna þar sem Danny Harris tók upp penslana og sprautuna og lagði lokahönd á verkið. Ljósmynd/Vagn Ingólfsson

Hvað myndi svona fiskur kosta?

„Ég bara get ekki verðlagt hann. Einn félagi minn sagði við mig að maður ætti alls ekki að fara að mæla þetta í vinnustundum og slíku. Ef ég myndi selja hann væri ég að selja list.“

Og hvernig verðleggur maður list?

„Ja. Það er góð spurning.“

Hvað sem verður þá er meistarastykkið komið upp á vegg hjá Vagni. Útskorinn 103 sentímetra nýgenginn lax. Þykkur og silfraður. Eina sem er ákveðið í framhaldinu er að fiskurinn verður til sýnis í vor í Veiðihorninu. Annað á eftir að koma í ljós.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert