„Fyrir mér er þetta lífsstíll“

Pétur í Melabúðinni er mikill hundaáhugamaður og stundar rjúpnaveiði einungis …
Pétur í Melabúðinni er mikill hundaáhugamaður og stundar rjúpnaveiði einungis með hundum. Hér eru með honum Rampen’s Nína og Veiðimela Orri sem báðir eru snögghærðir vorstehhundar. Ræktunarnöfnin eru gjarnan sett á undan nafni hundsins. Ljósmynd/Pétur Alan Guðmundsson

„Þetta er orðinn lífsstíll hjá mér og um leið mikil skuldbinding sem maður verður að vera tilbúinn í,“ svarar Pétur Alan Guðmundsson þegar hann er spurður, af hverju að veiða með hundum? Hann bætir svo við. „Af hverju ekki? Af hverju að veiða með flugu? Þetta er fyrst og fremst lífsstíll.“ Pétur í Melabúðinni eins og hann er gjarnan kallaður á í dag tvo veiðihunda og hlut í tveimur öðrum. Hundarnir sem hann heldur sjálfur og notar fyrst og fremst til rjúpnaveiða eru snögghærðir Vorsteh. „Mér finnst þetta frábær tegund og hentar vel. Þeir eru geðgóðir, viljugir, hraðir á landi og á sundi,  fljótir að þorna, þar sem þeir eru snögghærðir og snjór eða drulla festist ekki í feldinum.“

Pétur nefnir til sögunnar að veiðitímabilið hér sé stutt en útivistin tengd veiðihundinum er svo margföld. Þjálfun á hundunum er tímafrek og í felur í leið í sér mikla útiveru. „Maður fær þjálfun allt árið og er því í góðu standi þegar veiðitímabilið byrjar. Við æfum alls konar veiðitækni og það þarf að tryggja að hundurinn sé í standi. Þetta eru ekki dýr sem þú tekur út úr skáp þegar veiðitíminn er að byrja. Hundurinn þarf að vera í þjálfun. Ég þekki því miður dæmi af því að fólk fer til veiða fyrstu dagana og þófarnir á hundinum eru ekki tilbúnir fyrir það landslag sem veitt er í. Þar sem skiptist á grjót, möl og allt annað sem fyrirfinnst í náttúrunni. Þá rifna þófarnir upp og hundurinn er jafnvel úr leik allan veiðitímann.“

Veiðiprófin sem margir veiðihundar fara í kalla líka á mikla þjálfun og tryggir sú æfing um leið að hundurinn verður sá veiðifélagi sem stefnt er að.

Pétur segist hafa byrjað frekar seint að stunda skotveiðina. Var fyrst eingöngu í laxveiðinni en fór nokkru síðar að stunda skotveiði. „Á tímabili var maður í magnveiði eins og margir af minni kynslóð og ég man alltaf eftir því í eitt skipti þá var ég fyrir austan að skjóta og var kominn með hundrað rjúpur á einum degi. Mér varð litið yfir hauginn og á félaga minn og sagði. Nei þetta gerum við ekki oftar. Þetta er ekki gaman. Þarna endurskoðaði ég mína veiði og í framhaldinu fékk ég mér fyrsta hundinn.

Það er mögnuð upplifun þegar maður fer með hundi sem er vel þjálfaður og veiðir með þér. Veiðir út til hliðanna og veiðir landið sem þú ert staddur á hverju sinni. Hundurinn finnur fuglinn og tekur stand á hann og er rólegur þar til maður kemur að. Hann fylgir jafnvel fuglinum ef hann hleypur af stað. Hundurinn bíður eftir manni og oft nær maður að láta hundinn reisa fuglinn, en ekki alltaf og hann getur jafnvel flogið upp þegar maður nálgast. En miklu skiptir að hundurinn sé rólegur þannig að maður nái að skjóta. Hundurinn sækir svo fuglinn og færir manni hann. Þetta fyrir mér er það sem þetta snýst um og gefur mér ótrúlega mikið þegar þetta gengur upp.“

Rampen’s Nína kemur hróðug með rjúpu til eiganda síns. Nína …
Rampen’s Nína kemur hróðug með rjúpu til eiganda síns. Nína er snögghærður vorsteh. Ljósmynd/Pétur Alan Guðmundsson

Pétur hefur í tvo áratugi skotið rjúpu eingöngu með 20 gauge tvíhleypu, hlið við hlið. Gengur með hana opna og heldur á henni, og er ekki með ól á henni. „Hérna áður fyrr, þegar símarnir voru ekki með svona góða myndavél, þá var ég gjarnan með stóru myndavélina á mér líka. Tók mynd af fuglinum og hundi á standi og svo var það veiðin.“ Hann er mjög góður ljósmyndari og margar af þeim myndum sem hann hefur birt til dæmis á facebook eru hrein listaverk, bæði fuglamyndir og ekki síður af hundum að vinna. Hann segist í dag vera latari að taka með sér stóru myndavélina en ljósmyndunin gefi honum líka mikið.

En hversu mikil vinna er það að þjálfa veiðihund þannig að hann verði góður veiðifélagi?

„Það er mikil og samfelld vinna allan ársins hring. Við förum upp á heiði í nágrenni Reykjavíkur þegar það er hægt. Það er til dæmis æðislegur tími þegar byrjar að vora, að fara með hundinn og þjálfa hann á heiðinni. Það þarf að byrja snemma og strax á meðan þeir eru hvolpar. Kenna þeim hlýðni og grunntækni. Svo kemur að sókn seinna meir. Þetta er mikil vinna en mér finnst hún skemmtileg og ég geri það oft að vakna eldsnemma og fara fyrir vinnu upp á heiði, sérstaklega þegar maður veit hvar fuglar eru. Ég er þá bæði að hreyfa mig og leika mér.“ Hann segir að æfingaprógrammið taki auðvitað mið af aðstæðum og náttúrunni sjálfri. Þannig sé ekki farið með hunda á heiðina eða í nágrenni varplands þegar fuglinn er byrjaður á hreiðurgerð, til að trufla ekki varpið. Þá taka við aðrar æfingar svo sem í vatni og við aðstæður þar sem ekki er hætta á að varp sé.

Við þjálfum mikið fyrir veiðiprófin hjá Hundaræktarfélaginu eða HRFÍ og það tekur tíma en leggur góðan grunn að sjálfri veiðinni þegar hún byrjar. Fyrir okkur í dag er nóvember mikill uppskerutími eftir alla vinnuna sem búið er að leggja í þetta.“

Veiðimela Karri á góðri stund. Pétur sem gjarnan er kenndur …
Veiðimela Karri á góðri stund. Pétur sem gjarnan er kenndur við Melabúðina er ekki síður liðtækur ljósmyndari og segist fá mikið út úr ljósmyndun til jafns við veiðina. Ljósmynd/Pétur Alan Guðmundsson


Hann bendir á að persónuleiki hunda geti verið mjög ólíkir. Það megi ekki gefa sér að allir hundar, þó að þeir séu sterklega byggðir séu einhverjir naglar sem ekkert stöðvi. „Persónuleikinn kemur vel fram við góða þjálfun og sumir veiðihundar eru afskaplega mjúkir í eðli sínu. Þetta þurfa menn að læra og ekki gefa sér að þeir séu allir eins.“

Nú er sumum veiðimönnum jafnvel í nöp við hundaveiðimenn. Hefurðu orðið var við það?

„Já. Já. Ég held að það byggi fyrst og fremst á vanþekkingu. Ég hef heyrt menn tala um ryksugur og fleira í þeim dúr og það þýði ekkert að veiða nálægt mönnum með hunda. Við förum jafnvel á eftir öðrum veiðimönnum. Þá hafa fuglar flogið undan þeim eða ef er snjór yfir öllu hafa þeir ekki séð fuglinn. Hundurinn finnur fuglinn en þarf að nota vindinn. Ef hundur hleypur undan vindi eða í hliðarvindi og hleypur fram á rjúpu þá er það tapaður fugl. Hundlausir menn hefðu jafnvel getað labbað upp að þessum fugli og náð honum. Þannig að þetta er allskonar.“

Uppáhalds aðstæður sem Pétur veiðir í eru heiðalönd þar sem snjór er yfir öllu. Þá nýtist hundurinn vel og tekur stand á fugla sem hann finnur. „Við veiðum frekar flatt land á meðan að margir veiðimenn sækja í fjöllin, þar sem eru líkur á stærri hópum. Við erum sjaldnast að veiða úr hópum. Erum að lenda í einum til þremur fuglum, að jafnaði. Þetta eru oft karrar sem verða eftir á sínum óðulum meðan hænurnar fara með ungahópana til fjalla þegar fer að snjóa. Það er miklu betra en að skjóta kvenfuglana sem eru í bland í hópunum enda kemur fjölgunin frá þeim.“

Að veiða með tveimur hundum segir Pétur að sé krefjandi og kalli á góða þjálfun, en um leið afskaplega skemmtilegt. „Ef að þeir eru tveir úti og annar tekur stand og hinn kemur að þá þarf sá sem kemur að, að heiðra eða virða stand þess fyrri. Þannig að hann fari ekki fram fyrir þann sem er í standi og það leiði til þess að fuglinn fljúgi á endanum. Þetta er ekki auðvelt en þegar þetta gengur upp er það stórkostlegt.“

Fólk sem er að spá í að fá sér standandi fuglahund, eins og þú ert með. Hvað þarf það að hafa í huga?

„Þetta er mikil skuldbinding. Maður kemur ekki hundi í pössun hvert sem er. Það þarf að hafa vini eða fjölskyldu sem getur hlaupið undir bagga ef þörf er á. Maður þarf þá líka að vera sjálfur tilbúinn til að hjálpa öðrum við svipaðar aðstæður. Auðvitað er líka hægt að setja þá á hundahótel en ekki öllum hugnast það.

Það þarf strax að byrja grunnþjálfunina og ná grunnhlýðni og þess háttar og það er með alla hunda. Þjálfun upp á heiði eftir leitarmunstri og öðru. Svo eru til bækur og á netinu eru líka víða upplýsingar og svo er gott að hitta bara félaga og menn sem eru í sömu sporum og geta gefið góð ráð.“ 

Algengir fuglahundar á Íslandi:

Snögghærður Vorsteh • Strýhærður Vorsteh • Enskur Pointer • Enskur Seti • Írskur Seti • Gordon Seti •Vizsla • Weimaraner • Breton • Korthals Griffon • Triton Pointer • Pudelpointer • Bracco Italiano

Þessi grein birtist áður í blaðinu Veiði XII sem Veiðihornið gefur út. Þetta er tólfta árið sem Veiðihornið gefur út blaðið og er það eitt veglegasta veiðiblað sem kemur út á Íslandi. Blaðið kom út í byrjun júní.

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert