Næst lélegasta sumarið í hálfa öld

Feðgar. Björn K. Rúnarsson leigutaki Vatnsdalsár ásamt Andra Frey Björnssyni …
Feðgar. Björn K. Rúnarsson leigutaki Vatnsdalsár ásamt Andra Frey Björnssyni syni sínum með lax úr Vatnsdalsá. Sumarið 2023 er næst lélegasta veiðisumar í hálfa öld.

Laxveiðisumarið 2023 er það næst lélegasta í hálfa öld samkvæmt bráðabirgðatölur frá Hafrannsóknastofnun. Aðeins þurrkasumarið mikla 2019 hefur gefið færri villta laxa í stangveiði.

„Heildarfjöldi stangveiddra laxa sumarið 2023 var um 32.300 fiskar, sem var um 25% minnkun frá 2022 og 22% undir meðalveiði áranna frá 1974. Veiðin 2023 var um 9.000 löxum minni en hún var 2022,“ segir í frétt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunnar.

Stofnunin gerir sérstaklega grein fyrir veiði í ám sem byggja á seiðasleppingum. Þar mátti sjá svipaða stöðu í sumar. „Laxveiði í ám sem byggir á veiði á sleppingum gönguseiða var alls um 6.950 laxar. Það er um 4.000 löxum minna en veiddist 2022 þegar 10.553 laxar veiddust. 

Meðaltalsveiði frá 1974. Punktalínan sýnir meðaltalsveiðina. Sumarið 2023 er rétt …
Meðaltalsveiði frá 1974. Punktalínan sýnir meðaltalsveiðina. Sumarið 2023 er rétt fyrir ofan sumarið 2019, sem er það lélegasta frá 1974. Laxveiði í hafbeitarám er undanskilin og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum veiða og sleppa. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Við samanburð á langtímaþróun á stangveiði þarf að taka tillit til þess að laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og að þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni.“

Veiðisumarið í sumar byrjaði ágætlega víðast hvar og voru menn bjartsýnir fyrstu dagana. En svo fjaraði undan og niðurstaðan er næst lélegasta veiðisumar í hálfa öld. 

„Heildarstangveiði villtra laxa árið 2023 er um 20.500 laxar. Það er um 14,6 % minnkun frá 2022 og næst minnsta stangveiði sem verið hefur. Aðeins árið 2019 var lægra mat á fjölda villtra stangveiddra laxa.

Tölur um veiði á villtum laxi í stangveiði eru teknar saman með því að draga frá seiðasleppingar til hafbeitar og áætlaðan fjölda endurveiddra laxa (veitt og sleppt).“

Stangveiði í íslenskum ám frá 1974 - 2023. Veiðinni er …
Stangveiði í íslenskum ám frá 1974 - 2023. Veiðinni er skipt í landaðan afla (blátt), veitt og sleppt (grænt) og veiði úr sleppingum gönguseiða (rautt). Tölur frá 2023 eru bráðabirgðatölur. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Eins og segir í upphafi fréttarinnar var veiðin í sumar níu þúsund löxum minni en í fyrra. Það er dramatískt fall. Til samanburðar þá var heildarveiði á Norðurlandi eystra og vestra í sumar tæplega tíu þúsund laxar. 

Hafrannsóknastofnun hefur ekki haldbærar skýringar á hvað veldur. Í frétt á heimasíðu Hafró segir. „Fjöldi þeirra laxa sem ganga í ár er annarsvegar háður fjölda seiða sem ganga úr ánum til sjávar og hinsvegar hversu margir lifa sjávardvölina af og skila sér til baka í árnar.

Almennt hefur dánartala laxa í sjó í Norður Atlantshafi farið vaxandi en ástæður þess eru ekki þekktar. Bent hefur verið á þætti eins og loftslagsbreytingar, meðaflaveiði, áhrif fiskeldis og breytingar á búsvæðum í fersku vatni.

Sumarið 2023 einkenndist af lágu vatnsrennsli. Lágrennsli getur haft neikvæð áhrif á afkomu seiða í ánum og síðar á fiskgöngur og veiði.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert