Bjóða kvennaholl á afmælisári

Góð mæting var á opnu kvöldi hjá Kvennanefnd SVFR sem …
Góð mæting var á opnu kvöldi hjá Kvennanefnd SVFR sem var haldið í tilefni af tíu ára afmæli. Þar voru kynntir veiðikostir fyrir næsta sumar. Ljósmynd/Helga Gísladóttir

Kvennadeild Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni hafa verið sett í sölu tvö kvennaholl á vegum félagsins. Annað er í Langá næsta sumar og einnig er boðið upp á kvennaholl á urriðasvæðinu í Laxárdal. Bæði Langá og Laxárdalur eru leigð af SVFR.

Leiðsögumenn sem þekkja vel til Laxárdalsins og leyndarmál urriðans sem …
Leiðsögumenn sem þekkja vel til Laxárdalsins og leyndarmál urriðans sem þar býr, ávörpuðu samkunduna. Þeir verða á staðnum í sumar. Ljósmynd/Helga Gísladóttir

Allar stangir verða seldar konum og segir Helga Gísladóttir sem er í stjórn kvennadeildarinnar að salan hafi gengið vel en einungis örfá pláss eru laus. „Það er hefðbundið að það sé mikil ásókn í dagana í Langá en við renndum blint í sjóinn með Laxárdalinn. Það er ánægjulegt hversu sú sala hefur gengið vel og aðeins nokkrar stangir eftir,“ sagði Helga í samtali við Sporðaköst. Öflugir leiðsögumenn verða til aðstoðar í Laxárdalnum. Þeir Caddisbræður og Óli urriði verða á bakkanum og miðla af reynslu sinni sem er mikil.

Kvennadeildin var stofnuð fyrir áratug síðan, í nóvember 2013. Fyrsti formlegi fundur deildarinnar var hins vegar í febrúar 2014 og því hefur deildin ákveðið að 2024 verður afmælisárið. Óhætt er að segja að SVFR er öflugt þegar kemur að konum í veiði. Ragnheiður Thorsteinsson er formaður félagsins og vegur kvennadeildarinnar hefur vaxið töluvert á þeim áratug sem hún hefur starfað.

Sæunn Björk Þorkelsdóttir er formaður Kvennanefndar Stangaveiðifélags Reykjavíkur.
Sæunn Björk Þorkelsdóttir er formaður Kvennanefndar Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Ljósmynd/Helga Gísladóttir

Síðastliðinn fimmtudag var kynningarkvöld á fyrirhuguð kvennaferðum. Þar mættu leiðsögumenn og aðrir þeir sem standa í forsvari fyrir ferðunum og kynntu dagskrá afmælisársins á því sviði er snýr að veiðinni. Aðrir liðir og sérstök hátíðisdagskrá utan veiðitíma verða kynntir sérstaklega og síðar.

Helga Gísladóttir er raunar ekki bara tengd þessum veiðiferðum sem getið er hér að ofan. Árlega fer hún fyrir hópi kvenna í Veiðivötn þar sem þær taka um tuttugu stangir og hefur eftirspurnin vaxið ár frá ári.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert