Miðað við frumniðurstöður í könnun sem SKOTVÍS stóð fyrir meðal veiðimanna er útlit fyrir að veiði á rjúpu í ár hafi verið fimmtán til tuttugu prósent meiri en í fyrra. Er það í fullu samræmi við aukna stærð veiðistofnsins árið áður, að sögn Áka Ármanns Jónssonar, formanns SKOTVÍS.
„Við erum að skoða niðurstöður úr þessari könnun sem stendur enn yfir. Veiðin virðist vera svipuð eftir landshlutum og í fyrra en kannski ívið meiri á NV landi. Sóknardagar eru um fjórir á veiðimann sem hefur verið raunin frá árinu 2005, þegar sölubann á rjúpu tók gildi. Fjöldi leyfilegra veiðidaga hefur hvorki aukið né dregið úr sókn, þrátt fyrir margvíslegar útgáfur af veiðitíma,“ upplýsti Áki um frekari niðurstöður í könnun félagsins.
Það vekur líka athygli að þeir sem nota hunda við veiðar fara að meðaltali einum degi oftar til veiða en veiða mjög svipað og aðrir.
Rjúpnaveiðitímabilið í ár var 25 dagar og hófst 20. október og síðasti veiðidagur var 20. nóvember, eða þriðjudagur í þessari viku. Vel viðraði stærstan hluta veiðitímans en það breytir ekki þeirri staðreynd að meðal veiðimaðurinn gengur til rjúpna fjóra daga á veiðitímabilinu.
Sporðaköst heyrðu frá mörgum veiðimönnum að þeir hefðu séð töluvert meira af fugli en síðustu ár og þá einkum fyrri hluta veiðitímabilsins. Margir voru komnir með nóg fyrir sig og sína þegar tímabilið var hálfnað.
Skotveiðifélag Íslands, SKOTVÍS hefur staðið í stafni í hagsmunabaráttu fyrir veiðimenn síðustu árinu. Í könnuninni sem vitnað er til hér í fréttinni var einnig mæld afstaða veiðimanna til félagsins hvort sem þeir voru félagsmenn eða ekki. Miðað við þau svör sem hafa borist er óhætt að segja að veiðimenn meta þessa hagsmunabaráttu félagsins mikils og stendur meðal einkunn félagsins í 8,7 í könnuninni þegar síðast fréttist. Veiðimenn voru beðnir um að meta frammistöðu félagsins á skalanum 1 til 10.
Rétt er að hvetja veiðimenn til að taka þátt í könnuninni en hægt er að nálgast hana meðal annars á facebooksíðu SKOTVÍS.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |