Komudagsetningar laxins næsta sumar

Brynjar Þór Hreggviðsson undirbýr sleppingu á fallegum nýrenningi sem hann …
Brynjar Þór Hreggviðsson undirbýr sleppingu á fallegum nýrenningi sem hann veiddi í Norðurá 28. júní í sumar. Stórstreymt er að kvöldi 23. júní næsta sumar. Ljósmynd/Brynjar Þór

Þó að vöðlurnar séu rétt svo orðnar þurrar eftir síðasta sumar eru margir farnir að spá í veiðileyfakaup fyrir næsta sumar. Eitt af því sem mjög margir veiðimenn horfa til er stórstreymi, í þeirri trú að þegar stórstreymt er gangi mest af laxinum. Vefsíðan FOS.is sem Kristján Friðriksson heldur úti hefur nú birt flóðatöflu fyrir næsta ár þar sem sjá má þessar eftirsóknaverðu dagsetningar. 

Fyrsta stórstreymið sem við horfum til er 8. maí. og mælist það 4.3 metrar sem er munurinn á milli flóðs og fjöru. Fyrstu laxarnir gætu komið í þennan straum en kannski er hann aðeins of snemma á ferðinni. Afskaplega misjafnt er milli heimshluta hversu mikill munurinn er á milli flóðs og fjöru. Hér fer munurinn mest í rúma fjóra metra en mesti munur í heiminum mælist í Fundy flóa í Kanada eða 17 metrar.

Því næst er það 24. maí en það er straumur sem án efa skilar fyrstu löxunum upp í einhverjar ár. Þann dag er munur flóðs og fjöru 3.9 metrar.

Sjöunda júní er næsta stórstreymi og mælist það 4.1 metri. Þarna á samkvæmt öllu tveggja ára laxinn að vera að mæta í Borgarfjörðinn.

Svo er það 23. júní. Sjálfur Jónsmessustraumurinn. Stórstreymi að kveldi í aðdraganda Jónsmessunætur. Þarna á allt að vera komið á fullt á Vesturlandinu og flestar laxveiðiár búnar að opna. Straumurinn mælist sléttir fjórir metrar.

Aðalsteinn Pétursson og Andrés Eyjólfsson leiðsögumenn í Þverá áratugum saman. …
Aðalsteinn Pétursson og Andrés Eyjólfsson leiðsögumenn í Þverá áratugum saman. Hér eru þeir með einn silfraðan þann 9. júní í sumar. Stórstreymt verður þann 7. júní næsta sumar. Ljósmynd/Starir

Fyrra júlí stórstreymið ber upp á þann 7. og er munur flóðs og fjöru þá 3.9 metrar. Smálaxinn á að fara að láta sjá sig víða.

Nú taka við stærstu straumar í mörgum af þekktustu laxveiðiánum. Þann 23. júlí er stórstreymi upp á 4.2 metra. Besti laxveiðitíminn fer í hönd.

Fimmta ágúst er stórstreymt og mælist það 3.9 metrar. Þetta er fyrra ágúst stórstreymið. Það síðara er svo upp á 4.4 metra þann 21. og þá er megnið af laxinum komið.

Straumar í september ber upp á 3. og 19. september. Það er helst að sjóbirtingsveiðimenn spái í þessa strauma.

Svo er rétt að nefna að lokum að stórstreymt er 2. og 19. október og birtum við þær dagsetningar helst með Stóru-Laxá í huga.

Fyrri hluta sumars er talað um að laxinn komi jafnvel meira í aðdraganda stórstreymis eða í fyrirstreymið eins og sumir kalla það. Yfir hásumarið í sjálfan stærsta strauminn og þegar líður á sumar í eftirstreymið. Vísindin á bak við þetta eru ekki mikil en reynsla veiðimanna virðist benda í þessa átt.

Svo kann að vera að rigningargusa eða breytt veður gefi betri veiðidaga en í kringum sjálft stórstreymið. Það er eitthvað sem er erfitt að veðja á fyrir næsta sumar. En stærstu straumarnir liggja fyrir og hægt að taka ákvarðanir út frá því.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert