Bjóða nýtt veiðisvæði opið í sex mánuði

Ánægður aldamótapjakkur. Árni Kristinn er hér ungur að árum með …
Ánægður aldamótapjakkur. Árni Kristinn er hér ungur að árum með vænar bleikjur úr Brúará. Þessi mynd er tekin þegar hann var sex ára. Ljósmynd/SK

SVFR hefur kynnt til sögunnar nýtt fjögurra stanga veiðisvæði í Brúará í landi Sels. Þetta er áhugaverður kostur sem opinn er veiðimönnum í sex mánuði á ári og þar er hægt að kasta fyrir allar tegundir ferskvatnsfiska.

Brúará er auðvitað þekktust fyrir flottar bleikjur en Árni Kristinn Skúlason sem á nýjan leik er kominn til starfa hjá félaginu, segir möguleikana þarna mikla. Hann þekkir svæðið býsna vel og hefur veitt þar löngum stundum.

Hrygnan dýrmæta sem sú bandaríska fékk á svartan Toby. Það …
Hrygnan dýrmæta sem sú bandaríska fékk á svartan Toby. Það glittir í jarnstykkið sem lafir út úr laxinum. 87 sentímetra hrygna og allir voru alsælir eftir þessa veiði í landi Sels í Brúará. Ljósmynd/ÁKS

„Já. Ég held að það megi segja að þarna finnast allar tegundir,“ segir Árni Kristinn aðspurður. Hann segist oft hafa fengið lax á svæðinu síðsumars þegar hann leggur sig eftir því að finna hann. Hann segist svo sem ekki vita hversu stór laxastofn Brúarár sé en vissulega sé þar til staðar stofn. Hann rifjar upp sögu af dýrmætum laxi í Brúará. „Ég fór einu sinni í dags leiðsögn á einmitt þetta svæði og aðstoðaði bandarísk feðgin sem langaði að veiða bleikju. Ég vissi að þau voru ekki vön fluguveiði svo ég tók með mér kaststöng og einn svartan 28 grammaToby. Dagurinn gekk ekki vel og þau fengu ekki nema ein bleikju. Ég tók því fram varagræjurnar og sagði dótturinni að kasta á stað þar sem ég vissi að væru ágætar líkur á að lægi lax. Hún kastar og það var bara allt fast. Hún rykkti tvisvar í og togaði og rétti mér svo stöngina. Um leið og ég tók við henni þá fór allt á milljón og hún slóst við þennan fisk í dágóða stund. Ég varð að vaða langt út í, nánast upp í mitti til að sporðtaka fiskinn. Það er ekkert sérlega þægilegt að vaða Brúarána en þetta tókst einhvern veginn og ég sporðtók 87 sentímetra hrygnu sem reyndist maríulaxinn hennar. Þetta var svona hetjumóment hjá mér,“ hlær Árni Kristinn.

Töluvert er um urriða í Brúará, en eins og Árni …
Töluvert er um urriða í Brúará, en eins og Árni Kristinn bendir á þá má finna allar tegundir í ánni. Ljósmynd/ÁKS

Verð á veiðileyfum í landi Sels er hófstillt eða frá krónum fimm þúsund á dag fyrir stöngina. Á sama tíma ákvað Stangó að fækka stöngum úr átta í fjórar, „til að bæta upplifun veiðimanna,“ eins og það er orðað í frétt á facebooksíðu félagsins.

Heimillt er að veiða svæðið með flugu, spún og maðki á þessum fimm kílómetra langa vesturbakka Brúarár í landi Sels.

Vissulega má líka finna urriða í Brúará og Árni Kristinn segir að stöku sjóbirtingur hafi veiðst á árlega. Meira að segja hnúðlaxinn er í færi annað hvert ár.

Árni Kristinn með fallegan birting úr Touristpool í Fossálum í …
Árni Kristinn með fallegan birting úr Touristpool í Fossálum í haust. Hann er aftur kominn heim til Stangó. Ljósmynd/ÁKS

Ef veiðimenn vilja gera meira en dagstúr úr ferð í Brúará veit Árni Kristinn um fína gistingu sem hentar. „Foreldrar mínir reka gistiaðstöðu skammt frá og þar er auðvelt að kaupa sér gistingu ef menn eru í þeim hugleiðingum.“

Árni Kristinn er eins og fyrr segir kominn á nýjan leik til starfa hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur. „Já. Þetta er svolítið eins og að koma heim,“ viðurkennir hann.

Brúará verður í úthlutun fyrir félagsmenn SVFR þegar hún hefst innan örfárra daga.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert