Nýliðið sumar er það lélegasta sem menn hafa séð í Noregi með tilliti til laxveiða. Rétt rúmlega 77 þúsund laxar veiddust í norsku ánum og langflestar árnar eru undir tíu ára meðaltalinu þegar kemur að stangveiði. Margar voru langt undir því. Forsvarsmenn í norska stangveiðiheiminum tala sjálfir um blóðrauðar tölur þegar horft er á tölfræðina eftir sumarið.
Á sama tíma gerist það í fyrsta skipti að veiði á hnúðlaxi í fjörðum og á ósasvæðum Noregs var mun meiri en veiði á villtum laxi. Tölurnar yfir hnúðlaxinn eru ógnvekjandi.
Heimilt er að veiða lax í sjó við Noreg, þó að auknar takmarkanir hafi verið settar á þær veiðar hin síðustu ár. Ríflega 112 tonn af villtum laxi voru veidd í net og á stöng í sjó við Noreg í sumar. Þegar kemur að hnúðlaxi var aflinn hins vegar 183 tonn. Til samanburðar veiddust tæp 215 tonn í sjó, af villtum laxi árið 2020.
Síðasta hnúðlaxaár var 2021. Þá nam veiðin tæplega 72 tonnum í sjó, en rauk í sumar upp í 183 tonn. Í Finnmörku sem er nyrsta fylki Noregs voru settar niður gildrur neðarlega í flestar ár til að fanga hnúðlax og úr þessum gildrum voru teknir 244 þúsund hnúðlaxar. Flestar laxveiðiár í fylkinu áttu lélegt sumar og mörgum var hreinlega lokað fyrr en til stóð.
Veiðum á laxi er stjórnað með allt öðrum hætti í Noregi samanborið við Ísland. Veiði á laxi í sjó við Ísland heyrir sögunni til. Í Noregi má hins vegar sjá dæmi sem eru hreint út sagt ótrúleg í ljósi stöðunnar. Gott dæmi um þetta er áin Namsen á samnefndu svæði. Í net og á stöng í sjó úti fyrir Namsen veiddust í sumar 8.159 laxar. Stangveiði á vatnasvæði Namsen nam hins vegar 3.146 löxum. Meðaltalsveiði á vatnasvæðinu síðustu tíu ár er 6.525 laxar. Þannig að veiðin í sumar á stöng er tæp 52% undir meðaltalinu.
En það á við um flestar ár í Noregi að þær eru langt undir meðaltali. Hér eru nokkur dæmi og efstar eru þær þekktustu:
Veiðisvæði Fjöldi laxa í sumar Meðaltal síðasta áratug
Orkla 3.545 4.438
Gaula 3.829 4.499
Alta 2.211 2.746
Sandfjordelva 268 502
Stjödalselva 1.590 2.220
Kongsfjordelva 683 1.125
Ogna 707 1.449
Bjerkreimselva 2.366 3.371
Vestre-Jakobselv 517 2.848
Repparfjord 2.920 2.772
Síðustu tvær árnar eru þó til marks um að ástandið er misjafnt. Vestre-Jakobselv er þannig vart svipur hjá sjón á meðan að Repparfjord skilar betri veiði en meðaltalið. Samtals voru birtar tölur úr hundrað norskum laxveiðiám á heimasíðu Laksefiske.no. Af þeim voru aðeins fjórtán ár sem gáfu betri veiði en meðaltal síðasta áratugar. Aðrar ár, eða 86% voru undir meðaltali og þar af voru 61 meira en tuttugu prósent undir meðaltalinu. Nítján norskar ár í þessari úttekt náðu ekki 50% af meðaltalsveiði síðustu tíu ára.
Þetta er dökkt útlit og Norðmenn hafa vart séð það svartara á þessu sviði. Jákvæðust er þó staðan í fylkjunum Agder og Östlandet. Í þeim fylkjum hafa veiðar í sjó verið aflagðar og samkvæmt fréttum frá Noregi þá er fiskeldi ekki stundað á þeim svæðum sem villti laxinn gengur um og þar af leiðandi minni hætta á að laxalús herji á laxinn. Þessi fylki eru syðst í Noregi.
Veiðisumarið á Íslandi var á svipuðum nótum þegar horft er á tölfræðina. Sumarið 2023 er næst lélegasta veiðisumar frá árinu 1974.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |