Græja sem nær tökunni undir yfirborði

Gedda sem sænskur veiðimaður landaði. Myndavélin náði tökunni og sum …
Gedda sem sænskur veiðimaður landaði. Myndavélin náði tökunni og sum þessara myndskeiða eru mögnuð. Myndavélin hentar fyrst og fremst fyrir kaststangir ef menn eru að leita eftir því að ná töku. Hins vegar er hægt að nota hana líka sem hefðbundna myndavél. Ljósmynd/Westin

Marga veiðimenn dreymir um að geta séð undir yfirborðið í sínum veiðiskap. Í gegnum árin hafa komið fram margvíslegar hugmyndir og tilraunir til að geta séð hvað fer fram í hylnum sem veiða á hverju sinni. Margir veiðimenn mun eftir laxasjá sem Ingvi Hrafn Jónsson fjölmiðlamaður var vopnaður í Langá. Þar var á ferðinni kassi sem hægt var að setja ofan í hyl og skyggnast undir yfirborðið. Kassinn eða sjáin byggði á speglum sem skiluðu mynd til þess sem horfði og þetta þótti mörgum spennandi tæki. Veiðiþættirnir Sporðaköst sem sýndir voru á Stöð 2 í lok síðustu aldar nutu vinsælda meðal annars vegna þess að þar var í fyrsta skipti hægt að mynda fiska undir yfirborði.

Tæknin sem notuð var við myndatökur í Sporðaköstum var í besta falli frumstæð. Fyrsta útgáfa var stórt fiskabúr sem þung og fyrirferðamikil kvikmyndatökuvél var látin sitja í. Ekki var því hægt að fara djúpt með vélina, eins og gefur að skilja.

Í dag eru til allskonar græjur sem hjálpa mönnum að sjá ofan í vatnið. Sjá fiskana og hvar þeir eru. Drónar mynda í dag eins og fuglsauga og við réttar aðstæður má sjá hvar fiskur liggur og hversu margir þeir eru. Polaroid linsur eru til fyrir þá sem eru sérstaklega áhugasamir um þessa sýn.

Veiðigleraugu sem allir veiðimenn nota eru í fyrsta lagi öryggisatriði til að verja augu. Sérstaklega á það við um fluguveiðimenn. En þau eru líka flest öll með polaroidfilmu sem auðveldar mönnum að sjá fiska í vatni. Hjá flestum er það aðalástæðan fyrir notkun þeirra og öryggið er svo líka mikilvægt.

Framleiðandinn fullyrðið að þetta sé léttasta og minnsta undir yfirborðs …
Framleiðandinn fullyrðið að þetta sé léttasta og minnsta undir yfirborðs myndavélin á markaðnum. Hún er 40 grömm og hægt að koma henni fyrir á línunni. Hún er á stærð við nettan vindil. Ljósmynd/Westin

Það hefur orðið mikil þróun í myndavélum sem geta myndað undir yfirborði. Símar eru í dag notaðir af mörgum til að ná slíku myndefni. Það er samt eitthvað óþægilegt við það að setja þennan dýra og mikilvæga hlut ofan í vatn. Sérstaklega þegar haft er í huga að sölumenn sem spurðir eru hvort síminn sé vatnsheldur, hafa alltaf smá fyrirvara um einmitt það atriði. Algengt svar er: „Já. Hann á að vera það.“

GoPro myndavélar eru frábærar og hafa verið við líði í nokkurn tíma. Vatnsheldar og taka upp úrvalsefni. Hægt er að setja þær á stöng og þannig stækka „vinnusvæðið“ sem þær eru notaðar á. Gallinn varðandi GoPro vélar er að þær eru dýrar. Ekki á færi allra að kaupa sér eina slíka.

Það var því áhugavert að skoða nýjustu afurðina á þessu sviði. Undirritaður var á ferð í Veiðihorninu um daginn til að skoða flugur eða bara fá kaffi eða eitthvað slíkt. Ólafur Vigfússon kom og bauð góðan daginn. Það var einhver óræðinn svipur á honum. „Ég þarf að sýna þér svolítið,“ sagði hann. Það veit á eitthvað sem maður verður að eignast.

Hann dró fram litla tösku og opnaði hann með rennilásnum. Við blasti fullt af dóti. Myndavél sem var á stærð við meðal kúbanska vindil. Ekki þessa stærstu heldur bara svona meðal stærð. „Þessi er bara fjörutíu grömm,“ sagði hann hróðugur. „Þið hefðuð getað notað þessa í gamla daga í Sporðaköstum.“ Mikið rétt.

Allt klárt fyrir kastið. Gæti líka verið áhugavert að mynda …
Allt klárt fyrir kastið. Gæti líka verið áhugavert að mynda með þessari í bryggjuveiði. Hér er jafnvægisugginn kominn á og einnig dýptarstýringin. Ljósmynd/Westin

Westin Escape Cam heitir hún og er afurð danskrar hönnunarvinnu. Vélin er hönnuð fyrir veiðimenn. Það fylgir nánast allt með. Hægt er að skrúfa á hana jafnvægisugga þannig að hún hreyfist minna í vatni. Dýptarstýring úr smiðju Rapala. Hleðslutæki og snúrur. Sérstakur lykill fyrir blauta og lopna putta þegar ná þarf minniskortum úr til að skoða myndir á staðnum. Sérstök rör til að þræða línuna í gegnum til að mynda spúninn eða beituna í þeirri von að ná myndum af tökunni. Kortalesarar fyrir bæði Apple og Android. Vélin sjálf er vatnsheld niður á 200 metra dýpi. 

„Mögnuð græja,“ segi ég við Óla. En hugsa með mér að þetta sé ekki fyrir hinn klassíska veiðimann. Þessar græjur eru svo dýrar. Verð hugsað til GoPro. Rek þá augun í aðra tösku og á henni er verðmiði. 24.995 krónur.

„Já. Við hefðum getað notað svona græju,“ svara ég fullyrðingunni sem sneri að Sporðaköstum í gamla daga.

Þessi myndavél er eins og fyrr segir fjörutíu grömm. Hægt er að kasta henni með kaststöng og draga í rólegheitum yfir svæðið sem áhugi er á að mynda. Margir kannast við myndbönd þar sem myndavél sýnir spún eða beitu í vatni og svo kemur skyndilega fiskur og tekur agnið. Mikið af því myndefni er tekið með svona vél.

Sjálfur velti ég strax fyrir mér hvort ekki megi slöngva þessu út með flugustöng. Sjálfsagt yrði það ekki vinsælt hjá samferðamönnum sem margir eru viðkvæmir fyrir því hvað aðrir eru að gera í laxveiðiánni þeirra.

Það er einhvern veginn þannig að eftir því sem fiskum fækkar fjölgar græjunum. En þarna er allt í einu komin græja sem getur opnað nýjan heim og kostar ekki ferð í bankann til að taka yfirdráttarlán.

Það á ekki að skilja neina leyndardóma eftir, segir ég við Óla. Hann brosir og segir. „Ekkert, Eggert.“ Við hlæjum. Hann samt aðeins meira.

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert