Fimm mögur ár eftir fimm góð í laxveiði

Veiðimaðurinn John Dawson með nýrunninn lax úr Miðfjarðará. Meðaltalsveiði í …
Veiðimaðurinn John Dawson með nýrunninn lax úr Miðfjarðará. Meðaltalsveiði í Miðfirðinum er mun lakari síðustu fimm ár en á samanburðartímabilinu 2014 til 2018. Veiðin sem var þá var með hreinum ólíkindum. Ljósmynd/Aðsend

Síðustu fimm ár hafa verið afskaplega döpur í laxveiði á Íslandi. Við tókum okkur til og reiknuðum út meðalveiði í tíu bestu laxveiðiánum síðastliðin fimm ár og bárum þau saman við meðaltal fimm ára þar á undan. Þá sést vel hversu mikil niðursveiflan er. Stóra spurningin er hvort þetta sé tímabil eða upphafið á þróun sem sér ekki fyrir endann á. Munurinn á þessum tveimur tímabilum er sláandi.

Veiðisvæði        Síðustu 5 ár      2014–2018       Lokatölur 2023

Miðfjarðará           1.597               3.709               1.334

Þverá/Kjarrá         1.258               1.999               1.306 

Norðurá               1.085               1.713                1.087

Selá                      1.181              1.056                1.234

Hofsá                     926               1.300                1.088

Grímsá                  709                  987                   719

Langá                    873                 1.596                  709 

Laxá í Aðaldal        475                   915                  685

Laxá á Ásum         712                 1.046                  660

Allar þessar ár, nema Selá í Vopnafirði sýna áþreifanlega hversu miklu verri síðustu fimm ár eru samanborið við fimm árin þar á undan. Miðfjarðará trónir á toppnum í öllum tölum. En þegar fyrri hluti þessa áratugar sem hér er undir er skoðaður sést hversu frábær veiði var í henni fyrri fimm árin. Hver man ekki eftir árinu 2015 þegar hún gaf 6.028 laxa? Hreint út sagt ótrúleg veiði. 6,7 laxar á stöng á dag yfir sumarið að jafnaði. Ásættanlegt og jafnvel gott í dag þykir tveir laxar á stöng á dag. 

Klettsfljót í Þverá. Síðustu fimm ár var meðaltalsveiðin í Þverá/Kjarrá …
Klettsfljót í Þverá. Síðustu fimm ár var meðaltalsveiðin í Þverá/Kjarrá 1.258 laxar á sumri. Fimm árin þar á undan var meðaltalið 1.999 laxar. Ljósmynd/SEI

Þverá/Kjarrá og Norðurá eru með rúmlega sjö hundruð og sex hundruð laxa lélegri veiði árlega á síðari hluta áratugarins. Það er ekkert smáræði.

Svo komum við að Selá. Þar er síðara tímabilið með 125 laxa betra meðaltal en fyrri hluti áratugarins. Þrátt fyrir breyttar veiðireglur sem ekki allir eru sáttir við. Eða skyldi það vera vegna þessara breyttu veiðireglna? Dæmi hver fyrir sig.

Hofsá saknar 374 laxa í meðaltali síðustu fimm ára samanborið við fyrri hluta áratugarins. Hlutfallslega er Grímsá á sama stað í þessum samanburði. 278 löxum undir meðaltali áranna 2014 til 2018.

Staðan er svo enn verri þegar við skoðum Langá. Munurinn á meðaltölum þessara tveggja tímabila er meiri en sem nemur heildarveiði í sumar sem leið. Fyrri fimm árin var meðaltalið í henni 1.596 laxar á sumri. Síðustu fimm ár hefur veiðin hins vegar ekki verið nema 873 laxar að meðaltali. Þarna munar 723 löxum, fyrri hluta áratugarins í vil. Heildarveiðin í Langá í sumar var 709 laxar.

Aðaldalurinn er á svipuðu róli. Munurinn þar er upp á 440 laxa. Var 2014 til 2018 að meðaltali 915 laxar. Meðaltalið núna stendur í 475 löxum. 

Laxá á Ásum ber sömu merki. Hún var í 1.046 löxum á fyrri hluta áratugarins en meðaltal síðustu fimm ára er 712 laxar, eða niðursveifla um 334 laxa.

Erlendur veiðimaður fagnar þegar Denni leiðsögumaður háfar silfurbjartan lax. Selá …
Erlendur veiðimaður fagnar þegar Denni leiðsögumaður háfar silfurbjartan lax. Selá er eina áin á listanum sem er með hærra meðaltal fyrir síðustu fimm ár samanborið við árin 2014 til 2018. Ljósmynd/SRP

Allar tölur sem hér er stuðst við í útreikningum eru fengnar af vef Landssambands veiðifélaga, angling.is. Þar má finna eldra meðaltal við nokkrar af þessum ám. Og var þetta miklu betra hérna áður fyrr? Á því er allur gangur. Þannig er meðaltal áranna 1974 til 2008 í Þverá/Kjarrá 1.959 laxar sem er aðeins undir meðaltali áranna 2014 til 2018 en þegar kemur að síðustu fimm árum munar miklu.

Sama má segja um Grímsá. Meðaltalið fyrir 1974 til 2008 er upp á 1.354 laxa. Meðaltal síðustu fimm ára er 709 laxar.

Í Laxá á Ásum er fjörutíu ára meðaltal þúsund laxar á sumri. Margt hefur breyst þar og stöngum fjölgað. Veiðin 2014 til 2018 er hins vegar á pari við fjörutíu ára meðaltalið.

Samanburðurinn er ekki góður þegar kemur að Laxá í Aðaldal. Meðaltalið þar frá 74 til 2008 er 1.597 laxar.

Enn og aftur er Vopnafjörðurinn á öðru róli en önnur landsvæði. Meðaltalið í Hofsá er mun lægra þegar horft er langt aftur, en síðasta áratug, eða 774 laxar. Selá var á sama tíma með 1.095 laxa í gamla meðaltalinu. En margt hefur breyst þar í áranna rás samanborið við hvernig staðið er að veiðunum í dag.

Öll þessi meðaltöl geyma bæði góð og slök ár. Hins vegar er sláandi hvað síðustu fimm ár hafa verið léleg. En þessi síðustu ár hafa haft í för með sér verulegar hækkanir á veiðileyfum. Við höfum fjallað um hér á síðunni hversu léleg veiðin var í Noregi í sumar og raunar undanfarin ár. Sama má sjá í Skotlandi og víðar. Fyrir þá veiðimenn sem vonast eftir því að verð á veiðileyfum muni lækka og taka mið af veiði þá eru engar líkur á að það muni gerast. Ísland er þrátt fyrir slök síðustu fimm ár einna öruggasta landið að koma til ef þú ætlar að veiða Atlantshafslax. Nú er bara að vona að meðaltal næstu fimm ára fari upp á við en framtíðin er sem betur fer óráðin.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert