Veiðifélagið Fish Partner mun annast sölu veiðileyfa á Arnarvatnsheiði næstu fimm árin. Félagið hefur undirritað samning við Veiðifélag Arnarvatnsheiðar og eru veiðileyfin þegar komin í vefsölu hjá Fish Partner. Þar er einnig hægt að bóka gistingu í þeirri aðstöðu sem í boði er fyrir veiðimenn á svæðinu.
Þær breytingar sem verða helstar eru þær að veiðileyfin hækka um þúsund krónur milli ára. Stangardagurinn fer úr níu þúsund í tíu þúsund krónur. Kristján Páll Rafnsson, framkvæmdastjóri Fish Partner segir að verðið sé ákvörðun veiðifélagsins. „Ég held að sú hækkun sé bara í takt við það sem er að gerast í þjóðfélaginu en kannski væri best að leita með þá spurningu til seðlabankastjóra,“ svarar Kristján Páll og brosir þegar hann er spurður um hvort þetta verði til verðhækkana á veiðileyfum.
Stangafjöldi á svæðinu er ekki takmarkaður enda veiðisvæðið víðfemt og fjöldi vatna, áa og lækja sem er í boði.
Í fréttatilkynningu frá Fish Partner er greint frá fyrirhuguðum breytingum í þá veru að í Refsveinu og Stóralóni má á næsta sumri bara veiða með flugu og sleppa á öllum fiski þar. Kristján Páll var spurður út í ástæður þessara breytinga. Hann segir ástæðuna vera þríþætta. Það hafi yfirleitt verið frábær veiði í Refsveinu fyrstu tvær vikur veiðitímans en svo hafi veiðin dalað mikið eftir það. Hann segir að menn vilji meina að mikið af þessum fiski sé drepið og þar af leiðandi gengið hratt á þann fisk sem heldur sig á svæðinu.
Þá bendir hann á að Refsveina og Stóralón séu hluti af vatnasviði Norðlingafljóts. „Það kerfi er mjög viðkvæmt og þolir alls ekki að fiskur sé tekin úr fljótinu ef að þetta á að halda áfram að vera sú perla sem fljótið er. Við höfum nú séð bæði aukningu á veiddum fisk og stækkun fiska í fljótinu og tel ég að fiskur gangi þarna á milli í kerfinu.“
Fish Partner er með Norðlingafljótið á leigu og þar er eingöngu veitt á flugu og öllum fiski sleppt.
Loks nefnir Kristján Páll þriðju ástæðuna en það er að laða að veiðimenn sem eingöngu vilja veiða á flugu og sækjast eftir veiði þar sem ekki er leyft blandað agn. En eins og fyrr segir snúa þessar breytingar bara að Refsveinu og Stóralóni.
Sú regla hefur verið líði að veiði er bönnuð í ám og lækjum á heiðinni eftir 15. ágúst þar sem fiskur leitar þangað til hrygningar og markamiðið er að vernda þau svæði. Refsveina verður nú undanskilin þeirri reglu þar sem öllum fiski er sleppt. „Svo verður þetta bara að fá að þróast svo hægt verði að meta hvort að þetta sé rétt eða rangt.“
Kristján Páll viðurkennir að ýmsar hugmyndir séu uppi um bættan aðbúnað en tekur fram að þar hafi ekkert verið ákveðið og að þær hugmyndir séu í þróun og telur ekki tímabært að nefna hvað sé til skoðunar.
„Annars verður heiðin áfram sú rómantík sem hún hefur verið, það mun ekki breytast,“ sagði Kristján Páll að lokum.
Í tilkynningu Fish Partner um nýja samninginn eru veiðimenn sem átt hafa fasta daga á heiðinni hvattir til að hafa samband sem fyrst og gefið er upp netfangið info@fishpartner.com fyrir slíkar fyrirspurnir.
Arnarvatnsheiði er eitt rómaðasta silungsveiðisvæði landsins. Vötnin þar er fjölmörg og og lækirnir sömuleiðis. Samkvæmt heimasíðu Veiðifélags Arnarvatnsheiðar tilheyra svæðinu eftirtalin vötn og ár. Refsveina ofan Stóralóns, Arnarvatn litla, Arfavötnin tvö, Ólafsvatn, Veiðitjörn, Leggjabrjótstjarnir, Mordísarvatn, Krummavatn, Jónsvatn, Krókavatn, Núpatjörn, Þorgeirsvatn, Þorvaldsvötn, Hlíðarvatn, Þórhallarlón, Strípalón, Hávaðavötn, Gilsbakkaá, Úlfsvatn, Úlfsvatnsá, Grunnuvötn, Syðra-Kvíslavatn, Gunnarssonavatn, Djúpalón, Álftavötn, Kaldalón og Nautavatn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |