COP28 – Staða laxins mikið áhyggjuefni

Fullorðinn hausthængur úr Aðaldal, sem veiddist í sumar. Vaxandi áhyggjur …
Fullorðinn hausthængur úr Aðaldal, sem veiddist í sumar. Vaxandi áhyggjur eru meðal sérfræðinga um framtíð Atlantshafslaxinn. Þessi merka skepna var meðal annars til umræðu á COP28. Ljósmynd/Arnar Rósenkranz

Áhyggjur af stöðu Atlantshafslaxins komu skýrt fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP28 sem nýlega lauk í Dúbaí. IUCN sérfræðinganefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna lagði í fyrsta skipti mat á stöðu hinna ýmsu stofna ferskvatnsfiska á jörðinni. Fram til þessa hefur laxinn okkar verið flokkaður sem „óþarft að hafa áhyggjur“ stofn. Nú kveður hins vegar við nýjan og mun alvarlegri tón. Atlantshafslaxinn eða Salmo Salar á latínu er nú kominn í flokk sem kallast á ensku „Near Threatened“ eða stendur frammi fyrir ógn, ef við þýðum það lauslega.

Sérfræðinganefndin bendir á að nýlega hafi komið fram upplýsingar sem sýni að heildarstofninn hafi minnkað um 23 prósent á árunum 2006 til 2020. Svo segir í áliti nefndarinnar. Nú er svo komið að heimkynni Atlantshafslaxins eru einungis lítið brot af öllum þeim ám sem stofninn gekk í fyrir einni öld. Búsvæðið spannaði þá alla norðanverða Evrópu og Norður–Ameríku. Margvíslegar hættur steðja nú að laxinum og hans lifnaðarháttum bæði í fersku vatni og í sjó. Laxinn fer um langan veg, úr ánni þar sem hann klekst út og til sjávar á fæðuslóð og snýr svo fullvaxta á nýjan leik á upphafsstað til að koma næstu kynslóð til skila.

COP28 er 28. loftslagráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Þar á bæ var …
COP28 er 28. loftslagráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Þar á bæ var í fyrsta skipti lagt mat á stöðu stofna ferskvatnsfiska. Atlantshafslaxinn hefur frá 2006 átt verulega undir högg að sækja. AFP

Það er mat sérfræðinganefndarinnar að loftslagsbreytingar hafi áhrif á öllum stigum þessa einstæða lífshlaups laxins. Breyttar aðstæður dragi úr hæfni laxaseiðanna og stuðli að því að tegundir í samkeppni við laxaseiði og tegundir sem lifa á þeim, höggvi stærri skörð í þeirra raðir.

Stíflur eða aðrir farartálmar sem hindra laxinn í að komast á kjörsvæði spili víða stórt hlutverk. Sama eigi við um mengun, landbúnað og skógarhögg sem víða auki afföll seiða.

Þá er bent á erfðamengun þar sem eldislax blandist saman við villta laxinn og fullyrt að það ógni mörgum staðbundnum stofnum. Jafnframt er bent á að þessi blöndun geti dregið úr möguleikum villta laxins til að takast á við breytingar í umhverfi af völdum loftslagsbreytinga. Nefndin segir að aukning laxalúsar í tengslum við sjókvíaeldi geti haft alvarleg áhrif á lax og aukið dánartíðni.

Undanfarin fimm ár hér á Íslandi hafa verið léleg þegar …
Undanfarin fimm ár hér á Íslandi hafa verið léleg þegar kemur að laxveiði. Vonandi er það bara sveifla sem er tímabundin en ekki upphafið að þróun sem heldur áfram. Einar Falur Ingólfsson

Loks er horft til stöðugt vaxandi hættu sem stafar af hinni framandi tegund hnúðlaxi. Hann er nú að nema land víðsvegar um norðanverða Evrópu og er víða orðinn mjög ágengur og plássfrekur.

En eins og fyrr segir þá er þetta í fyrsta skipti sem sérfræðinganefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna metur stöðu stofna fiska sem lifa í fersku vatni. Kathy Hughes sem er varaformaður nefndarinnar sagði þegar þetta var kynnt á COP28 að ferskvatnsstofnar teldu rúman helming allra þekktra tegunda fiska á jörðinni og það þrátt fyrir að ferskvatnsbúsvæði væru ekki nema eitt prósent af því svæði sem er undir vatni eða sjó á jörðinni. Hún sagði ótrúlega mikilvægt að þessi vatnasvæði væru heilbrigð, vel stjórnað og tryggt að gæði vatnsins væru eins góð og kostur væri. Milljarðar fólks treysti á að þessi vistkerfi séu heilbrigð og koma verði í veg fyrir frekari fækkun tegunda en þegar er orðið.

Þær hættur sem bent er á hér að ofan varðandi Atlantshafslaxinn er margar kunnar Íslendingum. Hnúðlax, sjókvíar og það sem þeim fylgir. Strokulax og laxalús. Sérfræðinganefndin hefur sérstakar áhyggjur af hnignun stofnsins sem fyrir hundrað árum var í töluverðu magni í öllum helstu vatnakerfum Evrópu og Norður–Ameríku. Myndin sem blasir við í helstu laxveiðilöndum í Norður Evrópu er ekki beysin og var sumarið í sumar eitt þá lélegasta sem Ísland hefur séð. Enn verri staða var uppi í norskum laxveiðiám og Skotland og England eru ekki svipur hjá sjón í þessu samhengi.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert