Breski lávarðurinn Lord Falmouth hefur komið til Íslands til að veiða lax í rúma tvo áratugi. Hann veiddi í fyrrasumar stærsta lax sem veiddist á Íslandi sumarið 2022. Sagan af þessum laxi er mögnuð og stöðugt bætist í hana og hún er í raun ekki full skrifuð enn.
Það var að morgni 22. júlí sem stórlaxinn veiddist í Laxá á Ásum. Aðdragandinn var þó nokkur. Grípum niður í frétt Sporðakasta sem birtist daginn eftir. „Sturla Birgisson staðarhaldari og umsjónarmaður fór með Falmouth lávarð upp í Langhyl. Þeir voru að veiða Skrána og undir var sett Evening dress kvart tommu flottúba og krókur númer fjórtán. Lord Falmouth sem var með Stulla, eða Stu eins og Bretarnir kalla hann staldraði við. „Ég sagði við Stu. Síðasta kast hjá mér var svo lélegt að ég vil skoða tauminn. Það passaði. það voru tveir vindhnútar á honum. Ég sagði við Stu að við þyrftum nýjan taum. Það var líka eins gott,“ sagði lávarðurinn í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.“
Þessi saga er lengri. Þann 11. júní var Stulli í sinni hefðbundnu morgunathugun. Sjá hvað væri að koma af laxi. Þetta var fyrir opnun og alla morgna fór hann og kíkti af brúnni. Þennan morgun sá hann lax skammt neðan við brúna á þjóðvegi eitt. Þetta var lax í yfirstærð.
Fiskurinn sem Lord Falmouth veiddi er hér kominn í öndvegi í veiðihúsinu í Laxá á Ásum. Það var hinn vel þekkti listamaður Roger Brooks sem skar út laxana og handmálaði.
Ljósmynd/SB
Í opnun Ásanna sem var 17. júní sá hann þennan lax, að hann telur, fara upp Mánafoss. Stulli kallaði á eftir honum, „Sé þig seinna.“ Stulli hafði sagt Sporðaköstum frá þessu atviki. Svo fannst þessi fiskur ekki fyrr en rúmum mánuði síðar og það í Langhyl. Höldum áfram að rifja upp frétt Sporðakasta um stórlaxinn. „Við erum komin þar í sögunni að það er kominn nýr taumur undir hjá Falmouth. Kastið tekst með ágætum og Stulli lýsir tökunni svona. „Hann kom upp og ég sá hann. Hann náði henni ekki í fyrstu atrennu en sneri sér strax við og kom hálfur upp úr og negldi fluguna. Um leið og ég sá sporðinn sagði ég við Lordinn. „Þetta er hann.“ Ég hef aldrei séð svona ofsafengna töku í Langhyl og lætin voru rosaleg,“ sagði Stulli í samtali við Sporðaköst.“
Þetta var viðureign sem stóð í hálftíma. Sjálfur sagðist Falmouth hafa verið stressaður. „Ég vissi fljótlega að þetta var mjög stór fiskur. Og þegar frændi minn og vinur komu og ætluðu að fylgjast með viðureigninni öskraði Stu á þá að fara lengra í burtu. Þá fyrst fattaði ég að við voru að slást við einhvern risa. Ég losaði aðeins á bremsunni og notaði þumalputtann á hjólið. Ég var orðinn mjög stressaður. Stu var svo klár með háfinn og náði að háfa hann þó laxinn kæmist varla í háfinn.“
Þeir félagar mældu fiskinn og hann stóð 105 sentímetra sem gerði hann að stærsta laxi veiddum á Íslandi sumarið 2022. Stulli segist hafa vandað sig sérstaklega mikið við mælinguna eftir að hafa lesið frétt á Sporðaköstum í fyrradag um gagnrýni á hundraðkallalistann. „Ég var að fara að sleppa honum en ákvað að mæla hann aftur til öryggis. Þar staðfestist á óyggjandi hátt að hængurinn var 105 sentímetrar.“ Stulli gerði meira en það. Hann sendi mynd af mælingunni svo ekki fer á milli mála að fiskurinn stendur 105 sentímetra.
Stærsti lax sumarsins á Íslandi 2022. Fiskurinn er hreint listaverk og Roger Brooks hefur áratugum saman skorið út fiska og þykir einn sá besti í sinni grein.
Ljósmynd/SB
Lord Falmouth var í skýjunum og kannski rúmlega það þegar Sporðaköst ræddu við hann í síma um þessa upplifun.
„Ég hef aldrei átt svona stórkostlega stund í laxveiði eins og ég upplifði seinnipartinn í dag. Ég hef aldrei veitt svona stórkostlegan fisk áður. Ekkert í líkingu við þennan fisk. Að upplifa þetta hér á norðurhluta Íslands var hreint úr sagt einstök lífsreynsla. Ég hef komið til Íslands í tvo áratugi að veiða lax og njóta þessarar mögnuðu náttúru og þetta er langstærsti lax sem ég hef veitt. Ég hafði fengið stærst átján punda lax en allt bliknar í samanburði við þennan stórkostlega fisk,“ sagði lávarðurinn og átti erfitt með að finna nægilega stór og mörg lýsingarorð.
En þessi lax átti eftir að halda áfram að hafa áhrif á líf lávarðarins. Sturla Birgisson sendi mynd af laxinum til Roger Brooks í Herefordshire á Englandi sem sérhæfir sig í að skera út nákvæmar eftirlíkingar af fiskum, úr viði. Með fylgdu nákvæm mál af hængnum stóra. Raunar voru búnir til tveir fiskar, nákvæmlega eins og báðir eftirlíking af 105 sentímetra höfðingjanum úr Langhyl. Annar fiskurinn kom til Íslands og hefur fengið veglegan sess í veiðihúsinu við Laxá í Ásum fyrir ofan arininn. Hinn fór aldrei frá Englandi. Frændi Falmouths lávarðar keypti hann.
Frændi lávarðarins sendi Falmouth í vetur boð um að koma í síðdegis te, eða dæmigert breskt afternoon tea. Hann mætti grunlaus um að eitthvað annað stæði til en sötra te og borða skonsur. Þegar tedrykkjan var hafin sagðist frændinn vera með hlut sem hann vildi sýna lávarðinum. Þeir færðu sig um set og komu að þar sem viðarkassi stóð á borði. Frændinn bað lávarðinn um að opna kassann. Sá síðarnefndi gerði það og við blasti laxinn sem hann hafði veitt sumarið áður á Íslandi. Hann var drjúga stund að meðtaka það sem blasti við honum. Frændinn sagði honum að laxinn væri hans.
Útskurðarmeistarinn fékk mikið af myndum til að vinna eftir. Hér er Sturla sjálfur með fiskinn og í baksýn er hinn magnaði Langhylur í Laxá á Ásum.
Ljósmynd/SB
Tár brutust fram og nokkur trítluðu af stað í áttina að laxinum. „Aldrei hefur nokkur gert annað eins fyrir mig,“ stundi lávarðurinn upp.
Í sumar kemur Lord Falmouth til Íslands að veiða en hann hefur haft þann háttinn á að hann kemur annað hvert ár. Hann veit ekki að tvíburabróðir laxins sem prýðir nú heimili hans er staðsettur í veiðihúsinu við Laxá á Ásum.
„Það verður gaman að sjá svipinn á kallinum þegar hann sér hann upp á vegg hjá okkur næsta sumar,“ segir Stulli og brosir með sjálfum sér.
Fyrir áhugasama um verk Rogers Brooks má benda á heimasíðuna hans rogerbrookes.com
Seinustu hundraðkallar sumarsins
Lengd á laxi |
Veiðisvæði |
Veiðimaður |
Dagsetning
Dags.
|
102 cm |
Hvítá við Iðu |
Ársæll Þór Bjarnason |
19. september
19.9.
|
101 cm |
Víðidalsá |
Stefán Elí Stefánsson |
4. september
4.9.
|
101 cm |
Laxá í Dölum |
Hafþór Jónsson |
27. ágúst
27.8.
|
102 cm |
Haukadalsá |
Ármann Andri Einarsson |
23. ágúst
23.8.
|
103 cm |
Laxá í Aðaldal |
Birgir Ellert Birgisson |
12. ágúst
12.8.
|
103 cm |
Miðsvæði Laxá í Aðaldal |
Máni Freyr Helgason |
11. ágúst
11.8.
|
101 cm |
Laxá í Aðaldal |
Agnar Jón Ágústsson |
10. ágúst
10.8.
|
Skoða meira