900 sóttu um leyfi í Elliðaánum

Eins og venjulega komast færri að en vilja í Elliðaánum. …
Eins og venjulega komast færri að en vilja í Elliðaánum. Hér er veiðimaður búinn að setja í lax í Árbæjarhyl. Einar Falur Ingólfsson

Eitt vinsælasta veiðivatn á Íslandi eru Elliðaárnar. Nú er lokið úthlutun til félagsmanna í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur – SVFR og bárust 900 umsóknir um leyfi í borgarperlunni. Seldir eru hálfir dagar þannig að árnar eru svo gott sem uppseldar og ljóst að ekki verða margir dagpartar til sölu þegar vefsala á veiðileyfum félagsins opnar fljótlega eftir áramót, ef nokkur.

Einn stærsti kosturinn, fyrir marga veiðimenn sem eru í SVFR er einmitt möguleikinn á að komast í veiði í Elliðaánum. Það er nánast ógerningur fyrir utanfélagsmenn að komast yfir leyfi þar.

Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri félagsins segir að umtalsverð aukning sé í umsóknum. Honum telst til að heilt yfir sé aukningin um 15% milli ára. Auðvitað er misjafn áhugi á veiðisvæðum en Elliðaárnar eru allt mjög vinsælar. 78% aukning varð í umsóknum um leyfi í Leirvogsá enda skilaði áin góðri veiði í sumar. Aðeins er veitt á tvær stangir í Leirvogsá og skiluðu þær samtals 303 löxum í bók í sumar. Það lætur nærri að vera 1,7 laxar á stöng á dag. Það er með því besta sem gerðist á landinu í sumar í annars slöku veiðisumri.

Jón Stefán Hannesson þreytir lax í Rennum í Leirvogsá, skammt …
Jón Stefán Hannesson þreytir lax í Rennum í Leirvogsá, skammt fyrir neðan Tröllafoss. Árni Kristinn Skúlason er klár með háfinn. Ljósmynd/Anne Wangler

Reglur félagsins eru með þeim hætti að skuldlausir félagsmenn geta sótt um veiðileyfi og lauk umsóknarfresti 20. desember. Komið hefur til þess að umsóknarfrestur hefur framlengdur en því er ekki að heilsa í ár.

Ingimundur Bergsson segir að hluti af skýringunni á auknum fjölda umsókna sé vegna fjölgunar félagsmanna. Fjölgað hefur umtalsvert í félaginu á undanfarin misseri og telur Ingimundur að skýringin sé að hluta til að inntökugjald hefur verið fellt niður og félagsgjöld lækkuð.

Mun fleiri sóttu um leyfi í Laugardalsá við Ísafjarðardjúp og er það mat Ingimundar að þar kunni að spila inn í sú staðreynd að farið var í seiðasleppingar þar í vor og er það lax sem ætti að skila sér að hluta til næsta sumar.

Fleiri vatnasvæði njóta aukinna vinsælda fyrir komandi sumar og má þar nefna Korpu, vorveiðina í Elliðaánum, Gufudalsá og Haukadalsá.

Ingimundur segir að strax á nýju ári fari skrifstofan í að vinna í úthlutun sem byggist á umsóknum og stefnt er að því að vefsalan opni fljótlega á nýju ári en það er talsvert fyrr en verið hefur.

Selfyssingar bjóða vorveiði

Það eru fleiri komnir á fulla ferð að selja veiðileyfi. Þannig hefur Stangaveiðifélag Selfoss – SVFS opnað fyrir sölu á vorveiðileyfum á sín svæði. Hægt er að nálgast allar upplýsingar á www.leyfi.is. SVFS býður leyfi í Baugstaðaós, þar sem eru tvær stangir, Vola þar sem sömuleiðis eru seldar tvær stangir og Tunga – Bár með tvær stangir. 

Loks má nefna tvö svæði í Ölfusá og eru þrjár stangir í boði á hvoru svæði.

Nú er rétti tíminn til að skoða hvað er í boði og velja sér hentuga daga, vilji menn komast í vorveiði á þessum svæðum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert