Það er ekki dónalegt að setja í 170 punda og 160 sentímetra oddnef þegar tveir dagar eru til jóla. Dúi Landmark upplýsingafulltrúi í Matvælaráðuneytinu landaði einmitt einum slíkum í gær í Indlandshafi. Oddnefur er íslenska heitið yfir Blue Marlin. Sporðaköst hafa sérlegan áhuga á veiði þeirra lánsömu Íslendinga sem eru að setja í hann erlendis. Við náðum tali af Dúa á eyjunni Máritíus sem er í Indlandshafi. Hann var að vonum kátur og tilbúinn að ræða aðventuveiðina.
„Við fórum út um sjöleytið að morgni. Veðrið var ekkert sérstakt en það kom ekki að sök þar sem við vorum á stími út á Indlandshaf. Ekkert var að hafa fyrstu klukkustundirnar og vorum við eiginlega orðin úrkula vonar og farin að gera ráð fyrir að koma með öngulinn í rassinum í land,“ sagði Dúi þegar hann byrjaði á ferðasögunni.
Báturinn sem þau voru á heitir Horizon, eða sjóndeildarhringur. Eins og sjá má á myndunum sem Dúi deildi með okkur eru græjurnar allar hinar öflugustu enda getur oddnefurinn orðið gríðarstór og sterkur eftur því.
Þolinmæði þrautir vinnur allar og þar kom að það var bitið á. Agnið sem notað var segir Dúi hafa verið skrautlegan pilk um þrjátíu sentímetra langur og var hann dreginn á eftir bátnum.
„Það kom bara kippur og línan spólaðist út á ógnarhraða. Allir í bátnum hlupu til enda þarf fumlaus vinnubrögð fagmanna þegar svona fiskur bítur á. Þeir voru þrír með okkur í bátnum. Ég greip stöngina og fékk aðstoð við að klæðast vesti svo hægt væri að óla mig niður.“
Spennan var þarna í algleymingi og adrenalínið flæddi.
„Viðureignin var hörð, þetta er erfiðisvinna en tók samt bara ríflega tuttugu mínútur En það þurfti þrjá til að koma honum í bátinn. Þetta er langstærsti fiskur sem ég hef veitt um ævina og í raun alveg ný reynsla þegar kemur að veiði. Hann vigtaði 170 pund og mældist 160 sentímetrar. Áhöfnin fékk fiskinn sem hún selur á fiskmarkaði enda ekki hægt um vik að taka hann með í handfarangri til Parísar þangað sem leið liggur næst.“ Dúi brosir.
En hvernig kom þetta til og er þetta dýrt?
„Svona veiði er hægt að komast í víða, þar á meðal í Indlandshafinu. Við fundum þennan aðila bara á netinu og höfðum samband með nokkurra daga fyrirvara. Verðið er ekki yfirgengilega hátt, við greiddum sem svarar degi í laxveiði í miðlungsá á Íslandi.“
Dúi deildi myndum af veiðinni á facebook og skrifaði. „Mikil hamingja, mikil átök, jólaskapið allsráðandi.“
Sporðaköst óska Dúa til hamingju með stórfiskinn og hvetja aðra veiðimenn í ævintýraferðum að deila upplifuninni með okkur hinum sem eru búin að hengja upp vöðlurnar og þær eru þurrar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |