Haugurinn eða Sigurður Héðinn er að kynna öfluga vetrardagskrá fyrir veiðimenn. Hann ætlar að bjóða upp á Nördakvöld, Gerum betur fyrirlestra, sem snúa að því að hámarka kunnáttu veiðimanna og loks eru það hnýtingarkvöldin þar sem gestahnýtarar verða úr hópi þeirra bestu. Reiða Öndin, Bjarni Róbert, Hilli Hans, Hrafn Ágústsson Caddisbróðir og sjálfur Haugurinn, svo einhverjir séu nefndir munu hnýta sínar flugur og miðla af reynslu við hnýtingu á þeim.
„Nei. Það er of mikið. Þetta er hugsað sem afmörkuð kvöld sem fólk kaupir sig inn á,“ svarar Haugurinn þegar hann er spurður hvort þetta sé ekki hreinlega orðinn Veiðiskóli Haugsins.
En vetrardagskráin hefst miðvikudaginn 17. janúar með fyrsta Gerum betur kvöldinu og daginn eftir verður svo fyrsta Nördakvöldið. Hann segist stefna að því að hafa þessi kvöld tvisvar til þrisvar í mánuði í vetur en auðvitað fer það aðeins eftir áhuga og þátttakendum
„Nördakvöldin koma til með að vera fjölbreytt eins og endranær. Verða bæði hnýttar laxa- og silungaflugur og verða gestgjafarnir þekktir hnýtara eins og áður hefur verið. Pláss er fyrir 6 þátttakendur og kostar sætið tíu þúsund fyrir kvöldið. Innifalið er að Haugur Workshop sér um allt efni sem til þarf og þátttakendur þurfa aðeins að koma með hnýtingagræjurnar sínar.“ Haugurinn segist finna vaxandi áhuga á fluguhnýtingum og hefur hann fundið fyrir því síðustu ár. Hann segir þetta koma í bylgjum eins og annað.
„Fluguhnýtingar efla núvitund. Þú gleymir öllu og sekkur inn í verkefnið. Svo er bara frábært að veiða fisk á flugu sem maður hefur hnýtt sjálfur.“
Gerum betur kvöldin eru bóklegt námskeiði í veiði og segir Haugurinn markmiðið að gera þátttakendur hæfa við að taka betri ákvarðanir í veiðinni og verða betri í tækninni að veiða. „Farið verður í helstu undirstöðuatriðin í laxveiðinni. Námskeiðið byggist á áratugareynslu í leiðsögn og veiðimennsku hjá mér og miðla ég af reynslu minni til þátttakenda. Hámarksfjöldi á námskeiðið hverju sinni eru átta manns.“
Nördakvöldin taka mið af gestgjafanum hverju sinni. Sjálfur segist Sigurður hnýta sínar flugur. Skugga, Hauginn og fleiri og kennir fólki handbrögðin við þær. Sama gildir um aðra hnýtara sem leiða kvöldin að þeir kenna það sem þeir eru að fást við hverju sinni eða hafa hannað.
Nú erum við að alltaf að hnýta nýjar flugur. Af hverju ekki þessar gömlu klassísku?
„Það eru bara ákveðnar flugur af gömlu flugunum sem eru notaðar í dag. Til dæmis Blue Charm, Hairy Mary, Frances og Sheep flugurnar og fleiri. En sumar er bara svo erfitt að hnýta eins og til dæmis Green Highlander á krók fjórtán.“
Hvaða tíu flugur þarf maður að hnýta til að vera klár í laxveiðina í sumar?
„Sunray afbrigði, einhver keilu afbrigði og svo er það Haugur, Von, Green But, Silver Sheep, Hitch túbur. Ýmis afbrigði koma líka til greina til dæmis Blue But og allar útgáfur af Collie Dog. Með þetta held ég að fólk sé klárt í flestar aðstæður og ár.“
Fyrir áhugasama er kannski bara einfaldast að hafa samband á netfangið siggi@haugur.is til að bóka sæti eða forvitnast enn frekar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |