Veiðiárið 2023 var ekki upp á marga fiska. Umhverfisslys, hnúðlax og léleg veiði í bland við verðhækkanir eru eftirmæli ársins. Grágæs má ekki lengur selja en villigæs hefur að sama skapi fjölgað verulega. Við ætlum að rifja hér upp nokkra atburði veiðiársins sem er nú minningin ein. Við leituðum einnig í smiðju reyndra veiðimanna til að velja nokkur atriði sem upp úr stóðu.
Vorveiðin var hefðbundin. Kuldaköst svo fraus í æðum blóð en inn á milli mokveiddist niðurgöngusjóbirtingur. 1. apríl er dagsetningin sem breytir líðan flestra veiðimanna. Þeir fara ekki endilega að veiða en tímabilið er byrjað. Sjóbirtingsárnar fyrir austan ásamt nokkrum fleirum breiða út faðminn á þessum tíma og taka á móti veiðimönnum í spreng. Tungufljót, Tungulækur, Eldvatn, Vatnamót og Geirlandsá eru stóru nöfnin á þessum tíma. Einn fiskur í yfirstærð veiddist í vor og stóð hann hundrað sentímetra. Veiddur í Tungulæk, 9. apríl á Black Ghost í Vatnamótum. Veiðimaður var Hafþór Hallsson.
Litla Leirá er einnig að gefa góða veiði fyrstu dagana. Vorveiði er mjög víða í boði í apríl og fjölgar möguleikunum eftir því sem vor leysir vetur af hólmi. Eyjafjarðará, Mýrarkvísl og fleiri vorstaðir fyrir norðan ásamt hinni volgu og rómuðu Litluá í Kelduhverfi. Ytri–Rangá býður upp á sjóbirtingsveiði þannig að strax í apríl er margt í boði. Veiðin í vor sem leið var heilt yfir ágæt. Hún hefur verið betri en líka slakari.
Svo kom að laxveiðinni. Bjartsýni sveif yfir vötnum og veiðimönnum. Veiðin sumarið 2022 hafi verið aðeins betri en árin tvö á undan. En svo kom að því að árnar opnuðu. Einn af þeim sem var bjartsýnn var Haraldur Eiríksson, leigutaki í Kjósinni. Hann spáði góðri veiði í júní. Það gekk eftir. Víða byrjaði veiðin vel og menn töldu jafnvel um tíma að innistæða hefði loksins verið fyrir bjartsýninni. En annað kom á daginn. Stórfelldir þurrkar settu strik í reikninginn. Þó var það ekki það versta. Það kom einfaldlega ekki nógu mikið af laxi. Veiðin var slök og samkvæmt bráðabirgðatölum Hafrannsóknastofnunar var sumarið 2023 það næst lélegasta frá árinu 1974 í fiskum talið. Það var helst ljós í myrkrinu í Vopnafirði en NA–landið skilaði ágætri veiði. Aðrir landshlutar voru töluvert undir meðaltali og sömuleiðis landið í heild.
Haustveiðin í sjóbirtingi var þokkaleg. Alls ekki jafn góð og í fyrra og þó svo að mikið veiddist af vænum sjóbirtingi var minna um þessa allra stærstu.
Árið var ekki síður viðburðaríkt hjá skotveiðimönnum. Áhyggjufullir embættis– og stjórnmálamenn settu sölubann á grágæs því fækkað hefur í stofninum samkvæmt talningum sem fara að mestu fram á Bretlandseyjum og víðar. Veiðimenn hafa upp til hópa virt þetta en athyglisvert er að meira er nú um að seld sé svokölluð villigæs og er þar án efa verið að selja heiðagæs sem er löglegt. Skiptar skoðanir voru um sölubann en það varð niðurstaðan.
Þar sem vísindamenn koma saman til að telja fugla fækkar í viðkomandi stofni. Nú er vaxandi þrýstingur um að alfriða lunda þó að margar eyjar úti fyrir Norðurlandi hafi verið svartar af lunda í sumar.
Blessuð rjúpan nýtur ástar og umhyggju margra. Einkum vísindamanna og fólks sem ekki stundar rjúpnaveiði. Rjúpnatímabilið var ákveðið 25 dagar í ár og var tíminn færður aðeins fram. Veiðimenn veiddu vel upp til hópa og var tónninn sá að meira hefði verið af fugli en undanfarin ár. Nú er unnið að nýju veiðistjórnunarlíkani sem byggir á sjálfbærni og væntanlega dregur þá úr deilum um þennan jólafugl Íslendinga.
Veiðimaður ársins: Hér komu afskaplega margir til greina. Til dæmis hann Sturri, eða Sturlaugur Hrafn Ólafsson sem landaði 102 sentímetra laxi á silungasvæðinu í Vatnsdalsá. Stórlaxinn tók fluguna Dentist leach og var fjórði laxinn sem hinn fjórtán ára gamli veiðimaður landaði um ævina.
Gunnar Pétursson kemur líka til greina. Landaði tveimur hundraðköllum á tæpum tveimur vikum í sitt hvorri ánni. 100 sentímetra fiski í Miðfjarðará og bætti svo um betur í Hvítá við Iðu þegar hann landaði 101 sentímetra laxi.
En við veljum Katrínu Tönju Davíðsdóttur crossfitdrottningu að þessu sinni, veiðimann ársins. Hún setti í og landaði 105 sentímetra hæng, einmitt í Hvítá við Iðu. Hún sagði í samtali við Sporðaköst; „Þetta var bara eins og höfrungur. Ég hef aldrei séð svona fisk áður. Ég fór bara að hlæja og sagði, afi þetta er bara ótrúlegt. Þetta er minning sem endist mér að eilífu og það að við afi skyldum hafa gert þetta saman er svo dýrmætt.“ Katrín Tanja sleppti ekki laxinum og fór það fyrir brjóstið á ýmsum. Í þeim hópi var blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson sem skrifar á vísir.is og þótti honum of lofsamlega fjallað um málið af því að laxinum var ekki sleppt.
Fiskur ársins: Þeir eru tveir. Annars vegar sá merki atburður þegar Grímur Arnarson setti í og landaði 118 sentímetra laxi á Tannastöðum við ármót Sogsins og Hvítár. Sigurður Grétarsson félagi Gríms varð við hjálparbeiðni þess síðarnefnda og kom til aðstoðar og staðfesti mælingu á stórlaxinum. Veiðistaðurinn sem geymdi þennan tröllvaxna hæng heitir Hali og það var Black Ghost einkrækja sem pirraði stórlaxinn. Laxinn veiddist 22. ágúst og er einn sá stærsti sem veiðst hefur á Íslandi þessa öld, ef ekki sá stærsti. Grímur sagði í samtali við Sporðaköst vegna þessa að hann væri handviss um að stórlaxinn væri ættaður úr Hvítá en ekki Soginu.
Seinni fiskurinn sem við veljum sem fisk ársins er í raun samnefnari eldislaxa sem streymdu upp í laxveiðiár landsins, allt frá Fnjóská í austri til Hítarár í vestri. Það gerðist sama daginn að eldislaxar veiddust í Vatnsdalsá og Miðfjarðará. Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki Miðfjarðarár sagðist í samtali við Sporðaköst vera „Ógeðslega reiður.“ Hann var reyndar ekki einn um það og mikil og hörð umræða varð vegna þessa enda kom síðar á daginn að um hreint umhverfisslys var að ræða og sætti það lögreglurannsókn um skamma hríð en var svo hætt stuttu síðar. Ekki hefur komist til skila hvers vegna lögreglan fyrir vestan felldi málið niður. Talið er að á fjórða þúsund kynþroska eldislaxar hafi sloppið úr kvíum Arctic Fish í Patreksfirði. Hátt í fimm hundruð veiddust með ýmsum aðferðum.
Rafn Valur var ómyrkur í máli á þessum degi. „Þetta er eitthvað svo ótrúlega geggjað. Maður er hér með stórkostlega laxveiðiá í bómull og gerir allt sem maður getur til að ganga vel um hana og lífríkið í henni. Svo eru bara hreinræktaðir terroristar við hliðina á manni og þeim er skítsama. Ofan á þessa stöðu kemur svo getuleysi íslenskra stjórnmálamann. Þeir eru tilbúnir að eyða milljónatugum í girðingar til að forðast að riðuveiki smitist milli landshluta. En þegar kemur að villta laxastofninum á Íslandi þá er fólki bara skítsama og stjórnmálamenn eru þar fremstir í flokki.“
Veiði ársins: Hér var alveg freistandi að setja eldislaxaveiðina í laxastiganum í Blöndu, þar sem Guðmundur Haukur Jakobsson háfaði ríflega fimmtíu eldislaxa. En við ætlum að vera á jákvæðum nótum. Veiði ársins er án nokkurs vafa októberveiðin í Stóru–Laxá. Finnur Harðarson leigutaki hvatti veiðimenn til að koma og leita að eldislaxi og borga bara fyrir gistingu í húsi. Finnur telur haustgöngur í Stóru vera vanmetnar. Var veitt í Hreppunum lengur en áður hefur þekkst í íslenskri laxveiðiá. Ekki fannst eldislax við þessa umfangsmiklu leit.
Ummæli ársins: Hér kemur líka margt til greina en dómnefnd var sammála um að Rafn Valur Alfreðsson ætti ummæli ársins og það í tengslum við eldislaxana. Þau eru þessi: „Mér finnst skrítið að þetta sé að gerast á vakt Vinstri grænna. Þau virðast bara vera græn á tyllidögum."
Tíðindi ársins: Án efa hitatölur á fæðuslóð laxaseiða í sjó SV af landinu. Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur og samstarfsfólk hans hefur komist að því að hitatölur í júlí á fæðuslóðinni segja mikla sögu varðandi afkomu laxaseiðanna fyrir næsta sumar. Tölurnar voru betri en undanfarin ár og horfur því góðar fyrir næsta sumar. Úrtöluraddir og efasemdarfólk telur þetta til þess eins fallið að hækka verð á veiðileyfum. Sigurður Már þvertekur fyrir að hann sé að selja veiðileyfi.
Fluga ársins: Auðvitað ættu hér að vera Sunray Shadow og Frances. Þær gefa mestu veiðina enda kastað lang mest. Við veljum hins vegar Black Ghost. Gaf bæði stærsta lax sumarsins og stærsta sjóbirtinginn. Ekkert sem toppar það.
Vonbrigði ársins: Varmá var lokað vegna mengunar. Hreinsistöðin í Hveragerði annar ekki lengur sífellt stækkandi íbúabyggð. Hér áður fyrr kölluðu gárungarnir Varmá, Þarmá. Vonandi verður tekið á þessu máli sem fyrst en ljóst er að endurnýjun hreinsistöðvar kostar verulegar fjárhæðir.
Gestur ársins: Það eru norsku kafararnir sem Fiskistofa réð til að fanga eldislaxa í laxveiðiám víða um land. Gert var grín að þeim víðs vegar. Þeir reyndust hins vegar hin besta sending og skutluðu þeir tugi laxa í mörgum ám með öflugum teygjubyssum.
Græja ársins: Nýja agnarsmáa og fislétta undir yfirborðsmyndavélin frá Westin. Líka á verði sem flestir geta ráðið við. Hægt að setja á línuna og mynda tökur og eltingar. Fyrst og fremst fyrir kaststangir.
Sporðaköst þakka samfylgdina á árinu sem er að líða. Framundan er hækkandi sól og smátt og smátt fer daginn að lengja. Biðin er ekki nema þrír mánuðir og þá má aftur fara að veiða. Gleðilegt nýtt veiðiár!
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |