Enn eykst erfðablöndun í ám í Noregi

Norskir kafarar með eldislaxa sem þeir veiddu í Hrútafjarðará. Norðmenn …
Norskir kafarar með eldislaxa sem þeir veiddu í Hrútafjarðará. Norðmenn notast mikið við kafara til að hreinsa strokulaxa úr laxveiðiánum. Ljósmynd/Hjörleifur Hannesson

Staðfest er mikil erfðablöndun á villtum laxi í þriðjungi laxveiðiáa í Noregi. Á sama tíma er einungis þriðja hver laxveiðiá hrein eða að laxastofninn í henni hefur ekki orðið fyrir erfðablöndun af völdum strokulaxa úr eldi.

Í viðamikilli úttekt sem norska Hafrannsóknastofnunin og Náttúrufræðistofnun Noregs hafa gert á ástandinu kemur ofangreint í ljós. Samtals voru laxar rannsakaðir í 250 ám og er úrtakið þá sem nemur 95% af villtum laxi í Noregi. Niðurstöðurnar eru afgerandi. Ánum, eða laxastofnum í þeim er skipt upp í fjórar skilgreiningar. Grænan lit fá ár þar sem ekki greindist erfðablöndun í villta laxinum. Samtals er þar um að ræða 82 ársvæði eða 32,8% af heildinni. Gulan lit fengu þær ár sem greindust erfðabreytingar en óverulegar. Samtals 70 ár eða 28% í þessum flokki. Appelsínugulur litur er merki um töluverðar erfðabreytingar. Í þennan flokk falla 21 vatnasvæði eða 8,4%. Loks er það rauði liturinn. Meiriháttar erfðabreytingar eru staðfestar. Þennan flokk fylla 77 ár eða 30,8%.

Hér sést staðan í Noregi samkvæmt norsku Hafrannsóknastofnuninni og Náttúrufræðistofnun …
Hér sést staðan í Noregi samkvæmt norsku Hafrannsóknastofnuninni og Náttúrufræðistofnun þar í landi. Þriðja hver laxveiðiá ber merki mikillar erfðamengunar vegna eldislaxa sem hafa blandast villta stofninum. Kort/NINA Noregi

Ár sem bera rauðan eða appelsínugulan lit eru 39% af heildinni. Fyrst þegar þessi rannsókn var framkvæmd, árið 2016 mynduðu þessir tveir flokkar samtals 32%. Aukningin er því sjö prósentustig á sjö árum.

Nokkrar af þekktustu laxveiðiám Norðmanna eru nú komnar í rauðan flokk. Í frétt af skýrslunni er sérstaklega tekið fram að áin Namsen sé nú orðin rauð. Hún geymir einhvern stærsta laxastofn í einstakri á í landinu. Aðrar þekktar ár sem taldar eru til og orðnar eru rauðlitaðar eru, Lærdalselva, Stjördalselva og Repparfjordelva. 

Tekið er fram í skýrslunni að best sé ástandið við austur og suðurströnd Noregs þar sem lítið eða ekkert laxeldi sé stundað í nágrenni ánna.

Vitnað er til þess að erfðamengun hefur verið greind í fleiri löndum. Nefnd eru til sögunnar Ísland, Svíþjóð, Skotland og Kanada. Erfðamengun getur haft áhrif á fjölmörgum sviðum. Kemur fram í skýrslunni að heildaráhrifin séu að lax eigi erfiðara með að aðlagast breytingum í umhverfi sínu. Erfðamengun geti haft áhrif á vaxtarhraða bæði í sjó og í ám og einnig á hvenær laxinn gengur á heimaslóðir.

Sér kort var gert af laxveiðiám sem almenningur hefur aðgang …
Sér kort var gert af laxveiðiám sem almenningur hefur aðgang að og eru ekki að stórum hluta í einkaeigu. Þær eru 54 og hlutfall þeirra sem eru merktar rauðar eru 44%. Staðan hefur versnað árlega. Kort/NINA

Í lok skýrslunnar kemur fram að á meðan að laxeldi í sjó sé stundað í sama magni og með þeim aðferðum sem nú tíðkast sé ljóst að allir laxastofnar muni fyrr eða síðar erfðamengast.

Erfðamengun í íslenskum ám var staðfest í skýrslu sem Hafrannsóknastofnun gaf út í júlí sem leið. Í þeirri skýrslu sagði meðal annars. „Alls greind­ust 133 fyrstu kyn­slóðar blend­ing­ar (af­kvæmi eld­islaxa og villtra laxa) í 17 ám (2,1% sýna, inn­an 18% áa). Eldri blönd­un (önn­ur kyn­slóð eða eldri) greind­ist í 141 seiðum í 26 ám (2,2% sýna, inn­an 29% áa).“ Rétt er að hafa í huga að íslenska skýrslan byggir á upplýsingum og sýnum sem tekin voru á árunum 2014 til 2019. Margt hefur breyst síðan og það umhverfisslys sem varð í haust mun án efa koma fram í rannsóknum á næstu árum.

Ísland er enn mikill eftirbátur Noregs á þessu sviði en ljóst að við stefnum í sömu átt.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert