Miklar sveiflur í útbreiðslu hnúðlax

Dregið á í ánni Komag sem er nyrst í Noregi. …
Dregið á í ánni Komag sem er nyrst í Noregi. Hún er þekkt sem gjöful laxveiðiá en hnúðlax hefur gengið í hana í miklu magni síðustu oddatöluár. Ljósmynd/Ríkisstjóri í Tromsfylki og Finnmörku

Mikið var af hnúðlaxi í nyrstu ám Noregs í sumar en svo virðist sem dregið hafi úr útbreiðslu sunnar í Noregi, á Bretlandseyjum og annars staðar sunnar við Atlantshaf. Fjölmenn alþjóðleg ráðstefna vísindamanna fór nýverið yfir alla anga málsins.

Þetta var í þriðja skipti sem Umhverfisstofnun Noregs stendur fyrir ráðstefnu um hnúðlax og útbreiðslu hans í Atlantshafi. Mættir voru fimmtíu sérfræðingar á ýmsum sviðum ferskvatns og líffræði. Allt frá sérfræðingum á sviði umhverfismælinga til vísindamanna á sviði sjúkdóma og erfðafræði. Ráðstefnan var haldin í nyrsta hluta Noregs við Svanhovd, við Pasvikána sem markar landamæri Noregs og Rússlands að hluta. En staðsetningin er vel við hæfi þar sem hnúðlaxinn í Atlantshafi er tilkominn vegna Rússa sem fluttu hann inn á sjöunda áratug síðustu aldar. En hnúðlaxinn á náttúrulega heimkynni sín í Kyrrahafi.

Þessu til viðbótar voru enn fleiri sérfræðingar sem voru í beinu streymi þegar kom að afmörkuðum þáttum ráðstefnunnar. Fulltrúi Íslands á þessari samkomu var Guðni Guðbergsson sviðsstjóri Hafrannsóknastofnunar og sá vísindamaður sem rannsakað hefur hnúðlax hér á landi og útbreiðslu hans.

Magnið af hnúðlaxinum í ám nyrst í Noregi hefur verið …
Magnið af hnúðlaxinum í ám nyrst í Noregi hefur verið gríðarlegt og Norðmenn fóru í umfangsmiklar aðgerðir til að stemma stigu við þessum framandi gesti. Það gekk misvel. Ljósmynd/Ríkisstjóri í Tromsfylki og Finnmörku

Meðal þeirra sem miðluðu af vitneskju voru sérfræðingar frá vesturströnd Kanada sem hafa mikla reynslu af rannsóknum á hnúðlaxi í náttúrulegu umhverfi hans í Kyrrahafi.

Áttu von á sprengingu

„Menn áttu von á að sumarið 2023, í framhaldi af aukningunni árin 2015, 17,19 og 21, að þá yrði enn frekari aukning í stofninum og enn ein hnúðlaxasprenging í Atlantshafi. Umfangsmiklar rannsóknir hafa farið fram í Atlantshafi hjá þessum þjóðum og þar á meðal hafa íslensk uppsjávarskip tekið þátt. Sumarið 2020 veiddust þó nokkrir hnúðlaxar í sjó í þessum rannsóknarleiðöngrum. Hins vegar sumarið 2022 fundust færri og menn skyldu ekki alveg hvað það þýddi. Það kom líka í ljós að hnúðlaxinn fannst á mun minna svæði en áður,“ sagði Guðni í samtali við Sporðaköst aðspurður um ráðstefnuna.

Hann segir að víða hafi menn verið búnir að búa sig undir að mikið magn af hnúðlaxi gengi í ár við Atlantshaf sumarið 2023. Þannig hafi umhverfisstofnun Noregs verið búin að setja mikla peninga í undirbúning og sömuleiðis einstök fylki í Noregi. Markmiðið var að hindra uppgöngu hnúðlaxa í laxveiðiárnar og búið var að setja gildrur upp í þó nokkrum ám í norðanverðum Noregi. Þá var líka búið að setja niður gildru í ánni Tana sem er landamæraáin milli Noregs og Finnlands. Tana hefur gríðarstórt vatnasvið og mælist það 64 þúsund ferkílómetrar. Hún er ein af þekktari laxveiðiám í heiminum og dæmi eru um að laxveiði á hennar vatnasvæði hafi farið í 120 tonn á einu sumri, sem Guðni segir að sé meira en sem nemur veiði úr öllum íslenska laxastofninum. Raunar er staðan á stofninum í Tana í dag mjög alvarleg og hefur hún verið lokuð fyrir veiði síðustu þrjú ár vegna þess. Þar fóru menn í að setja upp gríðarmikið mannvirki sem reyndar kom í ljós að virkaði ekki sem skyldi. Markmiðið var að fanga hnúðlaxa sem mögulega voru á leið upp í Tana.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun sótti ráðstefnuna sem Norðmenn buðu …
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun sótti ráðstefnuna sem Norðmenn buðu til. Hann segir margt forvitnilegt hafa komið fram en nýjar spurningar vöknuðu líka. Ljósmynd/Aðsend

Þurftu að urða hnúðlax

Guðni segir að aðgerðir Norðmanna til að fanga hnúðlaxinn hafi verið umfangsmiklar. Kýlanætur og net í sjó og gildrusmíði í mörgum ám. „Þeir veiddu með þessum aðferðum eitthvað á þriðja hundrað þúsund hnúðlaxa en komumst fljótlega að raun um að ekki var auðvelt að markaðssetja svona mikið magn. Verðið á honum er lágt. Þetta mikla framboð leiddi til enn frekari verðlækkunar og vissulega reyndu menn að koma honum í verð. Það gekk aðeins að hluta til og þá var gripið til þess ráðs að urða hnúðlaxinn. En að urða fleiri tonn af lífrænu efni er í fyrsta lagi dýrt og líka heilmikið mál í sjálfu sér.

Niðurstaðan hjá Norðmönnum var líka sú að þetta var svolítið öfugsnúið. Það kom í ljós að áhrifin á sjóbirting og villta laxinn af þessum veiðum og veiðiaðferðum eru talsverð og jafnvel verri og meiri en hnúðlaxinn sjálfur hefði haft ef hann hefði einfaldlega fengið að ganga upp í árnar. Þannig að menn eru að endurskoða þessa hluti fyrir næsta hnúðlaxaár sem er 2025.“

Guðni segir að reynslan sem fékkst við að halda uppi gildrum í Noregi hafi sýnt ólíkar niðurstöður. Í nyrsta hluta Noregs ríki loftslag sem sé meira í ætt við meginlandsloftslag og því sé ágangur lægða sem við Íslendingar þekkjum mæta vel, mun minni en til að mynda í vesturhluta Noregs. Þar sveiflast rennsli áa mun meira. „Menn sögðu að gildrur af þessu tagi gangi alveg í nyrsta hluta Noregs en munu ekki ganga í vesturhlutanum út af lægðagangi og auknu vatnsrennsli í kjölfar rigninga. Það tekur maður með sér hingað. Það að byggja fyrirstöður í ám og koma upp fiskteljurum við okkar aðstæður er meira en að segja það. Stíflan sem við settum í Langadalsá og gerð er úr steinsteypu var mjög löskuð eftir síðasta vetur. Ísinn hafði brotið festingar og meira að segja U–járn sem voru boltuð á steinsteypuna höfðu rifnað af undan ísnum og klakaburði. Kraftarnir eru alveg gríðarlegir og álagið á mannvirkinn mjög mikið að sama skapi.“

Útbreiðslan á þrengra svæði

Þegar menn horfa nú til baka er ljóst að það var mikið af hnúðlaxi í norður Noregi en mun minna þegar kom vestar og sunnar í landinu. Guðni segir að menn hafi verið ofurlítið hissa á því og að sama skapi voru menn á Bretlandseyjum búnir að búa sig undir mikið af hnúðlaxi en þar varð ekki mikið vart við hann í sumar sem leið. Að sama skapi höfðu fiskifræðingar áhyggjur af því að hnúðlaxinn myndi dúkka upp í Eystrasalti og ná uggafestu í ám þar.  Þær áhyggjur reyndust óþarfar og ekki hefur orðið vart við hnúðlax á því svæði enn sem komið er.

„Útbreiðslan var sem sagt mest á þröngu belti í norður Noregi en lítið af honum sunnar. Erfitt er að fá upplýsingar frá vísindamönnum í Rússlandi nú um stundir fram hefur komið í fréttamiðlum í Múrmansk að minna hafi verið af hnúðlaxi í ám á Kólaskaga og við Hvítahaf en var á árinu 2021. Miðað við þessar upplýsingar var minna af hnúðlaxi en Rússarnir bjuggust við. Það er mjög athyglisvert og vissulega eru menn enn að læra á þessa lífveru. Hvernig hún hagar sér og hvernig hún er að nema hér land, af hverju og hver áhrifin eru. Eitt af því sem menn voru að velta fyrir sér er hvort ratvísin hjá hnúðlaxinum sé sambærileg við það sem við þekkjum hjá okkar laxi eða hvort hún sé meira tilviljunarkend. Það er nokkuð ljóst að hann leitar uppruna síns þó að hann sé ekki á pari við Atlantshafslaxinn þegar kemur að ratvísinni.“

Hnúðlax úr Sléttuá í sumar. Þessi veiddist á stöng. Síðan …
Hnúðlax úr Sléttuá í sumar. Þessi veiddist á stöng. Síðan var dregið á hylinn og þá náðust aðrir fimm. Guðni Guðbergsson segir að það eina sem íslenska stjórnvöld hafi gert er setja reglugerð sem heimilar veiðifélögum að draga á hylji. Ljósmynd/Marinó H. Svavarsson

Fleiri þættir hafa verið rannsakaðir og voru til umræðu á ráðstefnunni. „Menn hafa verið að skoða áhrifin í ánum. Það er ljóst að hnúðlaxaseiðin ganga út mjög fljótlega, bara nokkrum vikum eftir að þau klekjast út. Það er í samræmi við það sem við höfum séð hér á landi í okkar athugunum. Seiðin eru að éta aðeins í ánum en ekki mjög mikið. Fæðan er sú sama og okkar seiði eru að éta. Rykmýs– og bitmýslirfur. Þannig að einhver samkeppni gæti verið þarna á milli þeirra og laxaseiðanna okkar. Það hefur þó ekki verið staðfest ennþá.“

Hnúðlaxinn gengur í árnar upp úr miðjum júlí og hrygning fer fram seinni hluta ágúst mánaðar og svo drepst hann allur að henni lokinni. „Þannig að það er ekki skörun við okkar villta lax í hrygningartíma. Hnúðlaxinn er ekki að róta ofan af hrognum villta laxins eins og eldislaxar aftur á móti gætu gert.“

Áburður getur breyst í mengun 

Á ráðstefnunni var farið yfir öll svið í lífsferli hnúðlaxins og þar á meðal afleiðingar af því að hann drepst allur fljótlega eftir af hrygningu er lokið. Guðni segir að menn hafi skoðað þennan þátt og meðal annars gert það með því að setja hræ af hnúðlaxi í netpoka og mæla áburðargildið sem frá þeim kemur og ljóst sé að áburðarefni skolist tiltölulega hratt úr þessum hræjum út í umhverfið. „Þannig bera þeir á og auka lífræna framleiðslu í þeim ám þar sem þeir eru að drepast. Ef hins vegar er orðið gríðarlega mikið af þeim þá getur það leitt til mengunar og ofauðgunar. Ég var spurður hvort við hefðum séð dauða hnúðlaxa hér og vissulega veit maður til þess að veiðimenn hafa séð dauða hnúðlaxa en ekki í miklu magni. En ég var spurður að því hvort væri ekki rétt fyrir okkur að flytja inn grábirni og skallaerni til að éta hræin eins og gerist í náttúrulegu heimkynnum hnúðlaxins. Það er nú kannski ekki alveg það sem maður vill gera,“ brosir Guðni.

Hnúðlax eykur álag á umhverfið

Sjúkdómar sem hnúðlax getur borið með sér og sníkjudýr sem fylgja honum voru einnig til umræðu. Það er staðfest að sjúkdómar og fjölmörg sníkjudýr fylgja honum. „Það er ljóst að hnúðlaxinn er aukið álag á umhverfið. Það sem kom þarna fram og menn eru að horfa til er að hann er að auka útbreiðslu sína í Atlantshafi en er líka að auka útbreiðslu sína og stofnstærð í Kyrrahafi. Hann er nú að finnast sunnar og norðar en áður í Kyrrahafinu og það er meira af honum. Menn eru að geta sér til að hluta af þessu megi rekja til loftslagsbreytinga. Þegar að stofnstærð hnúðlaxins í Kyrrahafi vex svona mikið hefur það neikvæð áhrif á aðra laxastofna í Kyrrahafi. Kanadamenn sem voru á þessari ráðstefnu voru að geta sér þess til að ef hnúðlaxinn fjölgaði sér áfram í Atlantshafi gæti það mögulega farið að hafa áhrif á aðra nytjastofna.“

Guðni segir að Norðmenn hafi bent á að það séu milljónir tonna af uppsjávarfiskum í Atlantshafinu. Loðna, makríll, síld, kolmunni og spærlingur og virtust ekki telja hnúðlaxinn áhyggjuefni í því samhengi. En verði mikla breytingar á stofnstærð í framtíðinni sé það eitthvað sem þarf að hafa augu opin fyrir.

Flestum veiðimönnum á Íslandi finnst þetta hinn mesti ódráttur og …
Flestum veiðimönnum á Íslandi finnst þetta hinn mesti ódráttur og forljótt kvikindi. Útbreiðsla hnúðlax var minni í sumar en vísindamenn óttuðust. Mikið var af honum nyrst í Noregi en minna í Rússlandi og sunnar í Atlantshafi. mbl.is/Kristín Heiða Kristinsdóttir

„Bara 70 vísindamenn“

Hann segir mikilvægt að geta leitað í smiðju vísindamanna sem fylgjast með Kyrrahafinu því þeir séu með bæði reynslu og mikið af gögnum um hegðun hnúðlaxins.

Guðni ræddi við fjölmarga starfsbræður sína á ráðstefnunni og eitt nefnir hann sem hann hafði gaman af. Hann var að spjalla við Evu Torstad sem er reynslumikil á sviði rannsókna á bæði villtum laxi og hnúðlaxi. Í spjalli þeirra kom fram hjá Evu að enn væri margt órannsakað og þá ekki síst hvað varðar sambýli þessara tegunda. Hún benti Guðna á þá staðreynd að því miður væru fái sérfræðingar að rannsaka þetta. Það væru ekki nema sjötíu vísindamenn í Noregi að skoða þessa hluti.

„Mér varð hugsað til okkar aðstæðna þar sem við höfum ekki getað mikið gert á þessu sviði og raun hefur ekkert verið gert nema að setja reglugerð sem heimilar veiðifélögum að nota annars ólöglegar veiðiaðferðir til þess að veiða hnúðlaxa ef menn verða varir við mikið magn af þeim. En annað hefur ekki verið gert. Ég fékk reyndar styrk úr Fiskræktarsjóði en að öðru leit hefur fjárveitingavaldið ekki sett neina peninga eða mannskap í að skoða hnúðlaxinn.“

Hann bendir á að í dag er verið að skoða þessi mál í aukatíma þeirra starfsmanna sem vinna við að rannsaka allt annað sem tengist ferskvatni og lífríki þess. Það þyrfti hins vegar ef vel ætti að vera, starfsfólk sem gæti einbeitt sér að þessum þætti og verið í fullri vinnu við það að rannsaka það sem snýr að umhverfisþáttunum.

Hefur áhyggjur af ferskvatnsauðlindum

Þegar hann er spurður hvort þörf sé á því svarar hann því til að vissulega höfum við fram til þess nýtt okkur það sem til fellur í rannsóknum annarra og þá ekki síst Norðmanna. Það hafi vissulega nýst ágætlega í okkar litla samfélagi. „Á móti kemur eins og við höfum séð að þó hingað hafi komið laxeldismenn frá Noregi sem telja sig vita alla hluti þá eru menn samt að lenda í basli með þann iðnað hér. Þannig að það er ekki þar með sagt að það sem virkar hjá öðrum henti okkur. Við þurfum í það minnsta að staðfæra það. Þegar ákvarðanir eru teknar þá þurfum við líka að hafa eitthvað til að byggja á. Ef við erum ekki að bæta við þekkinguna okkar þá getum við dagað uppi og ég hef áhyggjur af hvernig mál hafa þróast með þær auðlindir sem við eigum hér í fiskistofnum í ám og vötnum. Mér finnst áherslurnar hafa verið að færast í æ ríkara mæli að þessu sé stýrt af peningum og peningaöflin í kringum leigutakana  sem oft eru ráðandi og ríkjandi. Veiðifélögin sjálf kannski ekki að standa sig. Þetta eru mínar áhyggjur núna.“

Það er ekki um auðugan garð að gresja við að ná í fjármagn til hnúðlaxarannsókna á Íslandi eins og Guðni hefur sagt. Starfsmenn á vegum Hafrannsóknastofnunar eru þó að njóta góðs af samstarfi við Norðmenn, Svía og Breta og fá þaðan upplýsingar og aðstoð. Frumrannsóknir á Íslandi eru hins vegar afar litlar.

Þegar rauntímavöktun er til staðar og upplýsingum safnað jafnt og þétt er mun auðveldara að bregðast við breytingum heldur en þegar ráðist er í átaksverkefni í stuttan tíma. „Það að vera með puttana á púlsinum gerir okkur auðveldara að skilja samhengi hlutana, frekar en að þegar menn fara í átaksverkefni í stuttan tíma og snúa sér svo að einhverju öðru þess á milli.“

Ekki allir veiðimenn eru ósáttir við hnúðlaxinn. Þessi danska veiðikona …
Ekki allir veiðimenn eru ósáttir við hnúðlaxinn. Þessi danska veiðikona var alsæl með þessa veiði í Víðidalsá í sumar. Hafði aldrei áður landað hnúðlaxi. Ljósmynd/Sporðaköst

Búast við aukningu en mikil óvissa

En framhaldið Guðni? Hverju eiga menn von á varðandi hnúðlaxinn?

„Það er þannig að stofnar hnúðlax, bæði á jafna árinu og oddatöluárinu eru að stækka. Þó svo að oddatöluárið sé alltaf miklu stærra. Menn horfa til 2025 og búast við áframhaldandi aukningu en reyndar er það svo að þessi breyting í sumar og minnkun á suðlægari slóðum í Atlantshafinu að þar eru stórar spurningar. Hvað veldur því að dregið hefur úr sókn hans til Bretlandseyja og suður með Noregsströnd og til annarra landa sunnar við Atlantshafið? Væntanlega eru það uppeldisskilyrði í sjónum sem eru að hafa áhrif. Þetta getur líka verið tilviljun og að sama skapi getur verið að sumarið 2021 geti hafa verið tilviljunin þar sem allt sprakk út.

Menn voru líka að velta fyrir sér spurningunni hvernig stendur á því að hnúðlaxinn með sinn stutta lífsferil sem spannar tvö ár gengur svona vel að aðlagast aðstæðum í Atlantshafi. Laxinn okkar er með lífsferil sem er fimm til sjö ár og aðlögun hnúðlaxins virðist miklu hraðari. Kynslóð fram af kynslóð gengur mun hraðar fyrir sig hjá hnúðlaxinum með þennan stutta lífsferil heldur en hjá laxinum okkar. Hnúðlaxinn lifir stutt og hratt og kynslóðatíminn er svo stuttur. Þannig að aðlögunin er miklu hraðari hjá honum. Menn telja að það sé full ástæða til að vera á tánum. Hver verða áhrifin? Er eitthvað hægt að gera? Er það eitthvað sem skilar árangri að setja mikla peninga eins og Norðmenn hafa gert að reyna að stöðva þennan mikla framgang. Mín skoðun hefur verið sú að það er eins og að ætla að stoppa rigninguna. Það er örugglega hægt að bregðast við á tilteknum stöðum og við þurfum þá líka að velta fyrir okkur hvort það sé eitthvað sem við þurfum að gera.“

En hver er eftirkeimurinn af þessari ráðstefnu. Hver er staðan varðandi hnúðlaxinn?

„Það er nú fyrst og fremst það hversu stutt við erum komin. Þetta er búið að vera stuttur tími. Það er verið að bisa við að greina þau gögn sem við höfum safnað. En þetta er enn eins og stakir jakar á reki. Þekkingin er ekki búin að ná utan um það sem er í gangi í raun og veru. Bæði hvað varðar breytingu á stofnstærð, erfðafræðibreytingar hjá þessum stofni og áhrif af völdum sjúkdóma og sníkjudýra. Við erum komin stutt á veg hvað það varðar.“

Þetta var þriðja ráðstefnan af þessu tagi og menn voru gallharðir á því að halda slíkan fund aftur 2025, eftir næsta hnúðlaxaár. Eins og fyrr segir er það Umhverfisstofnun Noregs sem stendur fyrir ráðstefnunni og fjármagnar hana.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert