Nám fyrir þá sem vilja gerast veiðileiðsögumenn veiðimanna á Íslandi hefur fest sig í sessi. Nú er sjötta kennsluárið að renna upp og hefst kennsla í byrjun febrúar. Undanfarin fimm ára hafa 120 veiðileiðsögumenn verið útskrifaðir úr náminu. Allur gangur er svo á hvort menn eða konur takast á hendur þann starfa að leiðsegja veiðimönnum eða nýta sér námið fyrir eigin þarfir. Læri að verða betri veiðimenn.
Landsamband Veiðifélaga í samstarfi við Ferðamálaskóla Íslands bjóða upp á námið fyrir þá sem vilja gerast leiðsögumenn bæði innlendra og erlendra veiðimanna í ám og vötnum landsins.
„Veiðileiðsögunámið er hagnýtt og nýtist í senn starfandi leiðsögumönnum og áhugasömum aðilum sem áhuga hafa á að sinna slíkri leiðsögn. Námið gefur innsýn í grunnatriði og ítarlegri þætti er varða veiðileiðsagnarþjónustu. Sérfróðir leiðsögumenn kenna undirstöðuatriði stangveiða og sérfræðingar miðla fróðleik um fiskana er við sögu koma og vistfræði þeirra,“ segir í fréttatilkynningu frá Ferðamálaskóla Íslands um námið. Reynir Friðriksson er faglegur stjórnandi og sér um skipulagningu.
Það er farið yfir alla hluti sem geta varðað starf leiðsögumannsins. Allt frá framkomu við veiðimenn og yfir í það hvernig rétt sé að bregðast við áföllum og slysum. Veigamesti þátturinn í náminu eru þó leiðsögnin sjálf og þar er farið yfir lífríkið, göngumynstur og ýmislegt fleira. Hér að neðan má sjá helstu punkta er námið sjálft varðar.
Reynir Friðriksson segir áhugann á náminu mikinn og flestir sem komi í skólann komi í gegnum aðra þá sem þegar hafa lokið náminu. „Mér finnst það magnað og góður vitnisburður að flestir okkar nemendur hafa fengið jákvæð meðmæli frá þeim sem þegar hafa lokið skólanum,“ sagði Reynir í samtali við Sporðaköst.
Horft er til þess að tuttugu nemendur komist að hverju sinni en fjöldinn hefur farið allt upp í 28 manns eitt árið.
Leiðbeinendur eru fjölmargir og þar eru mörg þekkt nöfn úr veiðibransanum ásamt fleirum. Meðal þeirra sem miðla af reynslu í vetur eru:
Þröstur Elliðason, fiskeldisfræðingur - Strengir
Kristján Friðriksson, veiðimaður og dálkahöfundur
Reynir Friðriksson, sjávarútvegsfræðingur - veiðileiðsögumaður
Haraldur Eiríksson, Laxá í Kjós
Björn Theodórsson, fiskeldisfræðingur og leiðsögumaður
Kristinn Helgason, Landsbjörg
Sindri Hlíðar, Fish Partner
Sigurður Héðinn, Siggi Haugur
Sigurkarl Stefánsson, fuglafræðingur
Sr. Bragi Skúlason, Landspítalinn
Kennarar geta bæst við og einnig orðið breyting á eftir aðstæðum. En þetta er uppleggið fyrir önnina.
Fyrir áhugasama er bent á netfangið fs@menntun.is
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |