Veiðifólk ætti að taka frá dagana 27. og 28. apríl. Þá daga verður efnt til sýningarinnar Flugur og veiði undir stúkunni á Laugardalsvelli. Aðalhvatamaður og skipuleggjandi er Sigurður Héðinn, Haugurinn eins og hann er jafnan kallaður.
„Já. Ég reikna með því að þarna verði allir. Allir sem tengjast útivist og veiði á einhvern hátt,“ svarar Haugurinn aðspurður um hvort þarna verði allir.
Hann segir hugmyndina hafa kviknað í ördeyðu í október. „Það er lítið að gera í veiðibúðum á þeim tíma og ég var að hugsa með sjálfum mér hvað ég ætti að gera. Fúli karlinn var á annarri öxlinni og sagði mér að hætta þessu bara. Svo var sá káti og bjartsýni á hinni öxlinni og hann sagði bara, fulla ferð. Sá bjartsýni hafði betur,“ hlær Haugurinn.
Nú er þetta komið á koppinn og fjölmargir aðilar í útivist og veiðitengdri starfsemi hafa staðfest áhuga og komu sína. Það er langt síðan að veiðisýning hefur verið haldin af þessari stærðargráðu. Ýmsar útgáfur hafa litið dagsins ljós bæði í Háskólabíói og Íslenska fluguveiðisýningin var haldin á sínum tíma. Það þarf hins vegar að fara hinu megin við aldamótin til að minnast Veiðimessunnar sem Stefán Magnússon skipulagði snemma á tíunda áratug síðustu aldar til að finna eitthvað sambærilegt.
„Ég vona að allir verði þarna. Allir sem tengjast útivist og veiði með einhverjum hætti. Áhuginn sem ég er að upplifa frá fyrirtækjum er mikill. Svo vona ég að þetta verði ein allsherjar samkoma fyrir veiði– og útivistarfólk. Ég valdi þessar dagsetningar með það í huga. Daginn er virkilega farið að lengja og veiðitímabilið er hafið og styttist í laxinn. Passlega langt liðið frá páskum og sumardagurinn fyrsti rétt afstaðinn.“
Fjöldi fyrirtækja hefur þegar gefið jákvætt svar til Haugsins og hann fer bjartsýnn í þetta verkefni. Viðurkennir reyndar að í mörg horn sé að líta, en hann er einyrki með þeim kostum og göllum sem því fylgja. „Ég þarf ekki marga og stóra fundi um ákvarðanatöku. Ég hugsa málið og tek svo ákvörðun. Minnir mig svolítið á þegar ég fór fyrst til sjós fimmtán ára gamall. Þá var ég kallaður upp í brú og skipstjórinn tilkynnti mér að um borð í þessu skipi væru bara tvennar skoðanir. Annars vegar mín skoðun og hins vegar röng skoðun. Ég er enn að hugsa um þetta 45 árum síðar,“ segir Haugurinn hugsi.
Aðstaðan undir stúkunni á Laugardalsvelli er mjög flott í slíkan viðburð að mati Sigurðar Héðins. Nóg af bílastæðum og mikið og gott pláss. Hann hefur sjálfur sótt margar sýningar erlendis og er að reyna að taka það besta úr þeirri upplifun. Aðgangseyri verður stillt í hóf segir hann og fullyrðir að gestir muni ekki svitna yfir því verðlagi þó veiðimenn séu ýmsu vanir þegar kemur að verðlagningu.
Áhugasamir geta nálgast allar frekari upplýsingar hjá Haugnum með því að senda tölvupóst á netangið siggi@haugur.is
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |