Uppgjör veiðikonu - 2023 var frábært

Golden Dorado. Fiskur sem flesta sportveiðimenn dreymir um að komast …
Golden Dorado. Fiskur sem flesta sportveiðimenn dreymir um að komast í tæri við. Harpa Hlín hakaði í þetta box 2023. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Tölfræði og minningar í veiði eiga ekki alltaf samleið. Þegar við rifjum upp síðasta ár var það kannski alveg frábært þó að tölfræðin segi að árið hafi heilt yfir verið lélegt á Íslandi. Harpa Hlín Þórðardóttir er lifandi dæmi um þetta. Sporðaköst báðu hana um að taka saman yfirlit yfir árið 2023, veiðilega séð. Hún brást vel við en spurði á móti. „Er síðasta ár alltaf besta veiðiárið?“

Hvað áttu við?

„Jú. Á árum áður, þegar ég veiddi færri daga, fannst mér ég veiða mikið. Núna þegar ég veiði fleiri daga, finnst mér alltaf vera pláss fyrir allavega eina veiðiferð í viðbót. Mér reiknast til að ég hafi veitt um 45 daga á liðnu ári. Stundum bara fyrir eða eftir vinnu en þegar ég fer yfir þetta svona, þá var kannski ekki pláss fyrir fleiri veiðiferðir,“ brosir hún.

Þið fjölskyldan byrjuðu snemma árs og enduðu síðar en flestir. Þetta var langt ár hjá ykkur.

„Já heldur betur og var alveg frábært ár. Fyrsti veiðitúr ársins var eins og oft áður þegar við Stefán og Matthías opnuðum Leirá 1. apríl. Við vorum reyndar að ferma yngsta barnið daginn eftir svo hugurinn var að hluta til hjá marsípantertum og salaskreytingum en ekki allur við ána en ánægjulegt engu að síður að opna veiðitímabilið með flottum sjóbirtingum í frekar góðu veðri.

Nýrunninn lax á vorkvöldi. Hvað er betra en það. Harpa …
Nýrunninn lax á vorkvöldi. Hvað er betra en það. Harpa átti nokkra góða túra í Ytri-Rangá síðasta sumar. Ljósmynd/HHÞ


Í apríl og maí var farið í nokkra ævintýralega sjóbirtingsveiðitúra þar sem meðal annars var vaðið í snjó upp að mitti. Það er ekki auðvelt að hlaupa á eftir sjóbirtingum í djúpum snjó. Mér verður hugsað til Báru vinkonu minnar,“ glottir Harpa en fer ekki nánar út í þá sálma. En ljóst að skemmtilegar minningar koma upp í hugann.

Harpa rekur ásamt eiginmanni sínum, Stefáni Sigurðssyni félagiIcelandoutfitters sem er með á leigu þá litlu en mögnuðu sjóbirtingsá Leirá. Þá er stærsta verkefni þeirra hjóna að reka og annast Ytri–Rangá en þar er framundan þriðja árið þeirra. En Harpa var ekki bara að veiða Íslandi.

Með Báru Einarsdóttur í leit að sjóbirtingi að vori til. …
Með Báru Einarsdóttur í leit að sjóbirtingi að vori til. Á löngu veiðitímabili fara veiðimenn í gegnum allar aðstæður. Ljósmynd/HHÞ

„Nei. Ég er til dæmis heilluð af Skotlandi og við fórum í árlega veiðiferð þangað með geggjuðum hóp í vor. Ég fékk engan lax en veiddi tvö rádýr og svo fórum við í Ballmoral, sumarhöll konungsfjölskyldunnar, þegar Karl kóngur tók við embætti. Skotland hefur sko allt sem veiðimanneskja getur óskað sér nema það eru of fáir laxar þar.

Hápunktar laxveiðitímabilsins er auðvitað að opna Urriðafoss 1. júní með landeigendunum, Halla og Birnu og veiða fallegustu laxa sem hægt er að hugsa sér. Já og veiðitúrarnir í Ytri–Rangá. Það er svo magnað hvað áin breytist snemma og síðsumars. Ég er í tveimur kvennahollum í Ytri þar sem við tökum allar stangirnar og þvílík forréttindi að veiða með svona mörgum konum, það myndast svo mikil samkennd og markmiðið er að allar fái lax og það hefur gengið alveg ótrúlega vel og margir Maríulaxar komið á land.

Leirá á opnunardegi 1. apríl. Stefán með vænan sjóbirting í …
Leirá á opnunardegi 1. apríl. Stefán með vænan sjóbirting í góðu vatni rétt neðan við þjóðveg. Þarna hófst veiðiárið og stóð til áramóta. Ljósmynd/HHÞ

Í september fór ég með elsta syni okkar til Maldíveyja að veiða á hverjum degi frá morgni til kvölds í tíu daga. Vinir okkar fráMegatours buðu okkur að koma með sér. Það var alveg magnað, við fengum endalaust margar tegundir af fiskum og upplifðum allskonar nýjungar en besta við ferðina fyrir mig var að fá að vera með Matthíasi samfellt í tíu daga, án þess hann kæmist neitt í burtu. Við komum heim aftur og þurftum náttúrulega að nýta veiðitímabilið til hins ýtrasta svo farið var í lax og silung í Ytri–Rangá og Leirá áður en tímabilinu lauk á Íslandi.“

Árið 2023 var eitt samfellt veiðiævintýri segir Harpa. Með svo …
Árið 2023 var eitt samfellt veiðiævintýri segir Harpa. Með svo nokkrum hápunktum. Hér er tekist á við fisk í framandi umhverfi. Ljósmynd/HHÞ

Þeir sem fylgjast með Hörpu á samfélagsmiðlum vita að þar með lauk ekki árinu. Þó að veiðitíminn hér heima væri búinn. Þá voru spennandi ævintýri erlendis lokahnykkurinn.

„Já heldur betur. Það bættust við nokkrir spennandi veiðidagar áður en árinu lauk. Við nutum jóla og áramóta í Argentínu og veiddum Golden Dorado, nyrst í landinu, við landamæri Paragvæ. Gistum í Suinda Lodge sem er ótrúlega fallegt veiðihús í miðjum frumskógi, með fyrsta flokks mat og þjónustu. Þaðan flugum við í miðja Argentínu, í Andesfjöllin, sem aðskilja Chile og Argentínu að veiða urriða og regnbogasilung hjá Maríu vinkonu okkar í Encuentro Lodge, sem var magnað. Mæli með þessum stað fyrir fjölskyldur til að læra að veiða á flugu því það er svo ótrúlega mikið af fiski þarna og fjör allan daginn frá morgni til kvölds. Argentína er yndislegt land og ég á vonandi eftir fara þangað aftur.“

Nýtt ár framundan og hvað?

Hún brosir. „Já. Komið nýtt ár og ýmis spennandi ævintýri í vændum. Það erfiðasta við veiðina er að nánast allar veiðiferðir eru þess eðlis að mann langar að fara aftur, með sama hóp á sama tíma að ári. En svo langar mann líka að prófa nýja áfangastaði. Flesta túra hér á landi, er ég búin að bóka aftur 2024 en svo bíða líka ný og spennandi ævintýri seinna á árinu.“

Það er til svo mikið af fiskum í heiminum. Harpa …
Það er til svo mikið af fiskum í heiminum. Harpa bætti mörgum nýjum tegundum á listann sinn á síðasta ári. Þessi heitir pira pita og þetta er stórt eintak. Ljósmynd/HHÞ

Þá aftur að tölfræðinni. Hefði sumarið verið betra hjá þér ef veiðin hefði verið meiri?

„Í minningunni var þetta frábært ár. Auðvitað vill maður alltaf fá fleiri fiska en þegar ég hugsa til baka þá veiddum við bara mjög vel. Minnir mig.“ Hún fer hlæjandi inn í veiðiárið 2024 sem formlega byrjar eftir 78 daga hjá henni hér á Íslandi. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert