„Mér líður eins og krakka í himnaríki“

Vatnakarfinn eða carp eru sterkir fiskar og algengir á bilinu …
Vatnakarfinn eða carp eru sterkir fiskar og algengir á bilinu sjö til fimmtán pund þó að oft veiðist yfir tuttugu punda fiskar. Dagur Árni hampar hér einum verklegum. Ljósmynd/DÁG

Í sumar sem leið var hann leiðsögumaður veiðimanna á Íslandi og þá sérstaklega í Ytri–Rangá. Þegar veiðitímanum lýkur hér færir hann sig yfir í aðra heimsálfu og fer í leiðsögn í Kaliforníu. Þar er ódýrt að veiða og furðu lítið álag á þeim svæðum sem eru opin. „Mér líður stundum eins og krakka í himnaríki hérna,“ segir Dagur Árni Guðmundsson.

Hann er staðsettur á miðströnd Kaliforníu (Central Coast), og er í veiðileiðsögn þar frá október og fram í júní.

Ársleyfi á átta þúsund

„Það má veiða hér allt árið. Veturnir hérna eru svipaðir góðu íslensku sumri, tólf til tuttugu stiga hiti flesta daga. Kalifornía er geggjuð, góðar burritos, góður bjór, geggjuð veiði, gott veður, og fáránlega fallegt umhverfi,“ Dagur Árni er í stuði enda nýbúinn að landa flottum vatnakarfa eða carp eins og þeir kallast og frábær dagur er að baki við þurrfluguveiðar.

Torfa af carp fundin og Dagur er búinn að kasta …
Torfa af carp fundin og Dagur er búinn að kasta þurrflugunni og bíður þolinmóður eftir að einhver þeirra taki fluguna. Ljósmynd/DÁG

Hvað kostar að veiða þar sem þú ert?

„Leyfi fyrir alla Kaliforníu í heilt ár kostar 58 dollara, sem er um átta þúsund íslenskar."

Hvernig gengur þetta fyrir sig?

„Ég er mest að eltast við carp þessa dagana, en hér innan við klukkutíma akstur frá húsinu mínu get ég veitt steelhead, regnbogasilung, striped bass, largemouth bass, smallmouth bass, spotted bass, blue catfish, channel catfish, surf perch, rockfish, lingcod, og fleiri fiska. En núna í janúar, og eiginlega yfir vetratímabilið frá desember út mars, þá er geggjuð þurrfluguveiði á carp, sem snýst um að labba um bakkana í vötnum hérna og leita að fiskum að koma í yfirborðið. Þeir eru að éta allt frá mýflugum yfir í fljúgandi köngulær og gróður sem endar í vatninu. Eftir að þú finnur fiskinn og hvað hann er að éta, þá þarftu að kasta fyrir framan þá, og þeir eru annað hvort á hreyfingu eða liggja alveg kyrrir og fá æti borið í munninn með míkró-straumnum í vatninu, sem breytist eftir vindátt og hversu mikið vatn er að renna í stöðuvatnið.

Oft þarf maður að kasta mjög langt og vera mjög þolinmóður með tökurnar hjá fiskinum, þeir „smakka“ oft á flugunni áður en þeir taka hana, og því er gott að nudda flugunni í mold áður en þú byrjar að veiða. Carp getur fundið lykt og bragð áður en hann ákveður að éta. Svo eru þetta fiskar sem eru með stærstu heila allra ferskvatnsfiska, og þeir ná að tala við hvorn annan, bæði með hljóði sem þeir gefa frá sér þegar þeir verða hræddir, og lykt sem þeir skilja eftir þegar styggð kemur að þeim til að vara aðra fiska við. Þetta er sem sagt mjög krefjandi veiði, en einhver skemmtilegasta veiði sem ég hef stundað.

Dagur segir þessa veiði mjög krefjandi og sé í raun …
Dagur segir þessa veiði mjög krefjandi og sé í raun ekki síðri en veiðin hérna heima. Hann kastar ekki fyrr en hann finnur fiskinn og það kallar stundum á langa göngu og mikla leit. Ljósmynd/DÁG

 Sjónsvið á stærð við tebolla

Það er ótrúlega gaman að sjá þessa fiska, sem eru oftast á bilinu sjö til fimmtán pund, og margir yfir tuttugu pundin, koma upp í yfirborðið. En eiginlega öll fluguveiði á carp er sjón-veiði, því þeir nýta lyktarskynið svo mikið til að finna mat, og það er svo mikið æti fyrir þá allt árið hérna í Kalforníu, að þeir þurfa ekki að elta bráðina. Þannig að maður þarf að sjá þá, og kasta í sjónsviðið þeirra, sem er sirka sjö sentímetra fyrir framan andlitið á þeim og á stærð við tebolla, til að ná athygli þeirra. Þetta er líkara skotveiði en flestri fluguveiði, því maður er mikið að labba og leita að fiski. Hér gildir að kasta ekki fyrr en maður sér fisk.“

Hvaða tími árs er bestur?

„Besti tíminn í carp er oftast mars til júní, en góð veiði getur verið allt árið. Janúar fram í mars er besti tími í þurrflugunni flest árin, en ég hef lent í góðri þurrfluguveiði á carp alla mánuði ársins.

Stöng og taumar í þessa veiði? 

„Mest er ég að nota átta feta fíberglass stöng fyrir línu sex, en allt upp í línuþyngd átta. En stangir fyrir línu sex og sjö eru bestar fyrir að geta höndlað stóra fiska, en leggja línuna samt nógu varlega til að styggja ekki fiskinn.

Þetta er alvöru styrtla og sporður. Enda er fiskurinn kraftmikill …
Þetta er alvöru styrtla og sporður. Enda er fiskurinn kraftmikill og vænir fiskar taka hann oft niður á undirlínu. Ljósmynd/DÁG

Ég nota flotlína og tólf tólf til sextán feta tauma í þurrflugu, annars duga níu til tólf feta taumar í flest. Ég fer alveg niður í átta punda fluorocarbon í taum, en er oftast með tíu punda taum því þeir geta verið mjög taumstyggir, en ef maður notar mono þá flýtur það í yfirborðinu og getur styggt fiskinn, því nota ég frekar fluorocarbon því það sekkur aðeins og styggir síður fiskinn. En ég fer aldrei í fínna en átta punda taum, annars væri bara vesen að landa svona fiskum. Ég slít oft í fiski í töku þegar þeir rjúka af stað. Svo er nauðsynlegt að vera með hjól sem er með góðri bremsu og sem er nógu öflug til að eiga við sterkan fisk eins og carp, og nægilega mjúkt í átaki til að passa upp á tauminn.“

Er þetta allt veiða/sleppa?

„Allt hjá mér er þannig, en það má drepa og borða þá. Mikið af spænsku mælandi fólki hérna gerir það en ég hef ekki smakkað carp. Ekki enn þá. En ég drep og borða ferska fiska úr sjónum oft hérna samt.“

Dæmigerð þurrfluguútgáfa sem Dagur er að sýna þeim. Guli liturinn …
Dæmigerð þurrfluguútgáfa sem Dagur er að sýna þeim. Guli liturinn sést vel og hann segir þetta Foam midge cluster, eitthvað. Líkir eftir mýflugum sem eru fastar saman. Ljósmynd/DÁG

 Fáir að veiða þá á flugu

Hvernig meturðu þetta samanborið við veiði heima?

„Þetta finnst mér alveg jafn skemmtileg ef ekki skemmtilegri veiði heldur en heima. Hér er svo mikil fjölbreytni og þetta er mjög krefjandi og þessir fiskar eru alltaf að koma mér á óvart. Þetta eru fáránlega sterkir fiskar, sérstaklega þegar vatnshiti hitnar í mars fram yfir október. Flestir carp sem maður setur í taka mann niður á undirlínuna og það oft, eða rjúka upp og niður bakkann og inn í runna og tré sem eru í vatninu. Þetta eru rosa bardagar og ótrúlega gaman að sjá tökurnar hjá þessum fiskum. Ég elska þessa fiska og er algjörlega að missa mig yfir hvað það er gaman að finna út úr því hvernig er best að veiða þá.

Fallegt umhverfi, eins og Dagur lýsir. Hann segir kostina við …
Fallegt umhverfi, eins og Dagur lýsir. Hann segir kostina við að veiða í Kaliforníu marga. Ljósmynd/DÁG

Það eru mjög fáir sem veiða carp á flugu, og enn færri sem gera það allt árið. Ég þekki enga sem eru að veiða þá á þurrflugu yfir vetratímann, þannig að mest af þessu eru bara hlutir sem ég hef séð og lært á sjálfur með því að vera við vatnið og veiða og gæda fjóra til fimm daga í viku. Það er oftast enginn annar við vötnin, sem eru risastór og mér líður eins og ég sé krakki í einhverju himnaríki þegar ég er einn að veiða þessu geggjuðu fiska á ótrúlega skemmtilegan hátt og að þurfa leysa þessar gátur um hvernig sé best að finna þá og veiða á bestan hátt á flugu. Carp getur ferðast marga kílómetra á dag, og ég er að labba allt að 32 km á dag til að eltast við þá. Svo fæ ég mér góða burrito á meðan ég tjalda hérna við vötnin og vinn við að sýna fólki þessa geggjuðu fiska í fallegu umhverfi. Gerist ekki betra, carp og burrito.“

Veiddi þann stærsta í Ytri

Búinn að landa þeim stærsta í Ytri-Rangá í sumar sem …
Búinn að landa þeim stærsta í Ytri-Rangá í sumar sem leið. 102 sentímetra hængur og hans stærsti til þessa. Ljósmynd/DÁG

Dagur Árni er magnaður veiðimaður. Hann átti frábært sumar á Íslandi í fyrra og landaði nokkrum fiskum í yfirstærð og leiðsagði viðskiptavinum í slíka fiska. Tveir laxar sem Sporðaköst vita um veiddust í Ytri–Rangá síðasta sumar. Þann stærsta veiddur Dagur Árni sjálfur og var hann 102 sentímetrar. Hinn mældist 101 sentímetri og hann fékk veiðimaður sem Dagur Árni var með í leiðsögn. 102 sentímetra fiskinn fékk hann 7. september og er það fyrsti laxinn hans sem nær í hundraðkallaflokkinn. Sumarið áður fékk hann lax sem mældist 99,4 sentímetrar. Já. Einmitt. Komma fjórir. Sá fiskur tók heimasmíðaða Sunray útgáfu í Sandá í Þjórsárdal.

En á meðan að Dagur Árni Guðmundsson dundar sér í himnaríki þurrfluguveiðimannsins láta flestir íslenskir veiðimenn sé nægja að telja niður dagana. 74 eru þeir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert