Tóti tönn sá fyrsti í Evrópu

María Anna Clausen afhendir Tóta tönn fyrsta eintakið. Sage Spey …
María Anna Clausen afhendir Tóta tönn fyrsta eintakið. Sage Spey R8. Tóti er þegar búinn að prufa hana á Klambratúni en vígir hana í laxi í Kjarrá í vor að öllum líkindum. Ljósmynd/Veiðihornið

Sage kynnti nýja tvíhendu fyrr í mánuðinum. Mikil leynd hefur hvílt yfir hönnuninni og að sama skapi töluverður spenningur. Fyrsti veiðimaðurinn í Evrópu sem handlék þessa stöng var Tóti tönn, Þórarinn Sigþórsson tannlæknir. Segja má að það hafi verið við hæfi enda Tóti sá einstaklingur sem veitt hefur flesta laxa á stöng i heiminum. Sporðaköst vita í það minnsta ekki um neinn sem skákar Tóta á þessu sviði.

Stöngin nýja heitir Sage Spey R8 og er tvíhenda. Hún fór formlega í sölu 16. janúar en Tóti fékk hana í hendurnar nokkrum dögum fyrr.

Varstu spenntur að handleika hana?

„Þú getur rétt ímyndað þér. Ég er þegar búinn að prufa hana. Ég fór með hana út á Klambratún og kastaði aðeins en það er ekkert að marka þetta strax, skilurðu. Maður þarf aðeins að venjast gripnum og ykkar hjörtu þurfa að slá í takt. Það tekur nokkur skipti. Þetta er alveg kostagripur. Það er ekki nokkur vafi á því,“ svaraði Tóti.

Er ekki ofurlítil upphefð í því að vera fyrstur Evrópubúa til að handleika svona grip?

„Jú, jú. Vissulega er það þannig. Og það er ekkert launungarmál að það kitlar aðeins í manni hégómann.“

Og það má alveg Tóti.

„Já. Það má svona af og til. Það má samt ekki vera of mikið af því,“ hlær Tóti en hann fagnar einmitt afmæli á morgun og þá verður hann 86 ára gamall.

En hvar á svo að vígja hana í laxveiði í sumar?

„Mér sýnist að það verði í Kjarrá. Það liggur ekki alveg ljóst fyrir ennþá en ég held að mér bjóðist þrír dagar í henni um mánaðamótin júní júlí. Þá verður hún vígð þar.“

Myndin sem fylgir fréttinni segir meira en mörg orð. Gleðin í andliti Tóta þegar hann tekur við stönginni er mikil og hann viðurkennir að hún sé jafnvel barnsleg.

Stöngin er framhald af R8 línunni frá Sage en í fyrra voru kynntar til sögunnar einhendur sem byggja á því nýrri hönnun á grafíti sem að sögn framleiðenda gerir stangirnar einstakar. Nú er R8 fjölskyldan fullkomnuð með tilkomu tvíhendunnar. Það verður gaman að sjá hvernig Tóta gengur með hana í Kjarrá í sumar. Veiðihornið birti mynd af Maríu Önnu Clausen að afhenda Tóta fyrstu stöngina. Honum var óskað til hamingju og hann hvattur til að láta hana bogna duglega í sumar. Ef einhver getur það þá er það Tóti tönn og þá ekki síst í vorfiski í Kjarrá.

Uppfært kl. 17:53

Sporðaköstum hefur borist ábending frá framleiðendum Sage að Tóti tönn sé ekki bara fyrsti veiðimaðurinn í Evrópu sem fékk afhenta Sage Spey R8 tvíhenduna. Hann er sá fyrsti í heiminum og liggur fyrir staðfesting á því frá framleiðendum. Sporðaköst óska Tóta til hamingju með þetta og einnig afmælið sem er raunar á morgun, 22. janúar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert