Víða opnuðu laxveiðiár í Skotlandi og á Írlandi í gær. 1. febrúar markar upphaf laxveiðinnar á Bretlandseyjum þó svo að nokkrar ár opni enn fyrr eða 15. janúar og stöku ár opnuðu á nýársdag á Írlandi.
Fyrstu laxarnir veiddust í dag. Þeir voru ekki margir en fréttir af þeim sem veiðimenn náðu hafa farið víða. Sporðaköst hafa fengið sendar myndir af nokkrum af þessum nýrenningum og þeir eru virkilega flottir. Þessi hvíti, hvíti litur og ferskleika blær á þeim.
Mikið vatn er í flestum ám í Skotlandi eftir mikla storma og úrkomutíð. Svæðið Islamouth í ánni Tay státaði af fallegum tólf punda laxi í gær. Það var Robert Jamieson sem veiddi þann fyrsta úr veiðistaðnum Longhead. Eins og sjá má á myndinni er Robert hálf kuldalegur þar sem hann stillir sér upp með „springerinn“ eða vorlaxinn eins og þeir kalla þessu fyrstu fiska.
Frést hefur af öðrum laxi úr Tay og veiddist sá á svokölluðu Taymount svæði. Þá var staðfestur lax úr ánni Oich í Skotlandi sem rennur í Loch Ness. Fiskurinn var ekki neitt skrímsli en fallegur um það bil tíu punda lax.
Þessir fyrstu fiskar sem mæta á þessum tíma árs hrygna samt ekki fyrr en með þeim löxum sem koma að sumri og hausti. Þeir eru um tíu mánuði í ánni áður en þeir hrygna.
Raunar eru töluvert síðan að fyrstu laxinn veiddist á Írlandi. Það gerðist á nýársdag en þá veiddi James Kenny nýgenginn lax í ánni Leannan. Hann tók agnhaldslausa flugu og var sleppt að lokinni viðureign. Það þykir mikill heiður að fá fyrsta lax ársins en sjaldgæft er að það gerist á fyrsta degi ársins.
Víða klæddu menn og konur sig upp í gær í tilefni dagsins en mörg þeirra samfélaga sem eru í kringum skosku árnar eiga mikið undir efnahagslega að veiðimenn sæki þær heim þann tíma sem veiði er leyfð í þessum ám.
Hin svokallaða vorveiði um hávetur hefur verið á niðurleið hin síðari ár, eins og veiðitölur frá Skotlandi sýna. Byrjunin núna er dæmi um það. Fiskarnir eru fáir og langt á milli þeirra. En menn vonast alltaf til að næstu dagar verði betri og með sjatnandi vatni í mörgum þessum ám fari hann að taka, ef hann er mættur. Dee og Tweed og fleiri hafa ekki enn getað hampað fyrsta vorlaxinum en það gerist vonandi á allra næstu dögum.
Íslenskir laxveiðimenn þurfa ekki að bíða nema í fjóra mánuði þar til tímabilið hefst hér á landi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |