Áttu stefnumót við þá allra stærstu

Draumurinn orðinn að veruleika. Gísli með 31 punda kóngalax í …
Draumurinn orðinn að veruleika. Gísli með 31 punda kóngalax í Chile. Eins og hann segir sjálfur þá skila myndirnar varla hversu stór þessi dýr eru. Ferðin var upp á tíu segir hann. Vikuveiði í frumskógum Chile. Ljósmynd/Gísli Kristinsson

Hópur íslenskra veiðimanna var í gær að ljúka viku veiði í Chile þar sem hópurinn var að eltast við kóngalax, eða King salmon. Það eru stærstu laxfiskar sem hægt er að komast í tæri við. Fish partner skipulagði ferðina og var uppselt í hana. Einungis sex veiðimenn geta dvalið þar í einu.

Gísli Kristinsson var einn þeirra sem fór á vit ævintýranna. Sporðaköst náðu tali af honum eftir að veiði lauk í gærkvöldi. „Þetta er bara magnað ævintýri. Við erum búin að landa níu fiskum og missa, ég veit ekki hvað marga. Þetta er talsvert ólíkur veiðiskapur frá því sem við þekkjum heima. Fiskurinn liggur víðast mjög djúpt og leitar í skugga, þannig að oftast vorum við að veiða mjög djúpt og þungt. Það var þó ekki algilt og á efsta staðnum þar sem besta veiðin var þá var hann á grynnra vatni og var að taka á rekinu.“

Þorsteinn Sæþór Guðmundsson, eða Steini kokkur, með sleggjuna sína. 44 …
Þorsteinn Sæþór Guðmundsson, eða Steini kokkur, með sleggjuna sína. 44 pund mældist þessi. Stærsti fiskur ferðarinnar. Ljósmynd/Gísli Kristinsson

Gísli landaði snemma í ferðinni 31 punda kónglaxi. „Já. Ég var kóngurinn alveg þangað til að Steini kokkur landaði sínum. Það var hrikaleg skepna upp á 44 pund.“ Þarna vitnar Gísli til Þorsteins Sæþórs Guðmundssonar sem landaði stærsta laxinum í ferðinni.

„Það sést alveg á myndunum að þetta eru stórir fiskar en þær ná samt ekki að endurspegla hvað þeir eru rosalegir. Þegar maður sér þessa fiska í háfnum þá er maður eiginlega bara í áfalli. Þetta er eitthvað svo allt annað.“

Hópurinn landaði 44, 38, 37, 36 og 31 punda kóngalöxum. Íslenski hópurinn var þriðji hópurinn sem veiðir svæðið á þessu ári. Tímabilið er stutt á þessum slóðum og lýkur þegar göngur klárast.

Steini kokkur og dr. Gunni með leiðsögumann á milli sín. …
Steini kokkur og dr. Gunni með leiðsögumann á milli sín. Hér er Gunnar Þór Gunnarsson búinn að landa einu af þessum tröllum. Ljósmynd/Gísli Kristinsson

Hann segir þetta töluvert öðruvísi en laxveiðin á Íslandi. „Ég klúðraði fyrstu tökunni algerlega. Maður má alls ekki lyfta stönginni fyrr en hann er búinn að taka fluguna. Hann kjamsar aðeins á henni fyrst og maður fær nokkur högg áður en hann tekur. Ef maður lyftir stönginni of snemma þá nánast undantekningalaust rífur maður út úr þeim. Og það gerði ég með fyrstu tökuna. Leiðsögumaðurinn var ekki hrifinn og sagði að svona tökur yrði maður að nýta. Ég fór næstum því að grenja.

Við fórum aftur yfir þennan stað og maður strippar löturhægt þá fékk ég aðra töku. Búmm og aftur högg og ég beið og beið og þegar hann svo negldi hana þá verður maður að setja í hann. Þessir fiskar eru með svo harðan munn að maður þarf að negla þessu í hann svo að krókurinn festist.

Ég var með tæplega fjórtán feta stöng og ég hélt allan tímann að hún væri að fara að brotna. Hún var bara í keng og ég beið bara eftir smellnum. En svakaleg átök í svona fimmtán mínútur og hann kom í háfinn. Við drápum þennan fisk því að það vantaði lax í eldhúsið. Annars er öllu sleppt. Þeir eru að taka í mesta lagi einn fisk á viku.“

Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner með glæsilegt eintak. Fish …
Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner með glæsilegt eintak. Fish Partner skipulögðu ferðina og þar verður framhald á á næsta ári. Ljósmynd/Gísli Kristinsson

Og hvernig smakkaðist?

„Bara besti lax sem ég hef borðað. Við fengum hann matreiddan á ótal vegu. Reyktan, grafinn, steikur og sushi. Hann var bragðbetri en okkar lax fannst mér. Ekki feitur en afskaplega bragðgóður.“

Var Steini kokkur sammála? Það er nú maður með reynslu.

„Já. Hann var sammála. Besti lax sem hann hefur smakkað.“

Eins og fyrr segir skipulagði Fish Partner ferðina og tekið er fram í kynningu þeirra að ekki sé um magnveiði að ræða. Þarna eru menn að eltast við verðlaunafiska „ Trophy hunting,“ Enda kom það á daginn að margir voru misstir en þeir sem náðust voru nánast allir í yfirstærð. Nema einn. Hann var einhver ræfill og höfðu leiðsögumennirnir ekki séð svona lítinn kóngalax áður. Hann var sjötíu sentímetrar og átján pund. En til að setja þetta í samhengi þá er stærsti kóngalax sem vitað er um að hafi veiðst á stöng rúm 97 pund og veiddist hann í Kenai ánni í Alaska. Til eru dæmi um stærri kóngalaxa og 126 punda fiskur náðist í fiskigildru í Alaska árið 1949.

Gísli og Peter ferðafélagi hans. Í baksýn má sjá báta …
Gísli og Peter ferðafélagi hans. Í baksýn má sjá báta sigla upp ána með aðra veiðimenn. Náttúrufegurðin er í hæsta gæðaflokki. Ljósmynd/Gísli Kristinsson

Umhverfið heillaði Gísla og félaga. Jöklar allt í kring og grænleit áin liðast um frumskóg. Hún tekur miklum og hröðum breytingum með tilliti til veðurs. Rigning, eins og hópurinn fékk einn daginn er fljót að hleypa ánni upp, en á móti kemur að hún er fljót að sjatna. Þau misstu einn dag úr veiði því að þegar áin vex hratt og mikið er varasamt að vera á bátum á henni þar sem trjádrumbar geta flotið niður og rekist á bátana og veiðimenn. „Eftir rigninguna varð áin eins og risa Amasonfljót en var svo daginn eftir komin í eðlilegt rennsli,“ upplýsti Gísli.

Aðbúnaður og matur var mjög góður segir hann og lítið af skordýrum sem margir Íslendingar hræðast meira en gerist og gengur. Eina hættulega dýrið á svæðinu er fjallaljón en þau ár sem starfsemin hefur verið rekin hefur ekki sést eitt slíkt dýr í námunda við búðirnar.

Gísli segist vel geta hugsað sér að fara aftur og í raun talaði hann þannig að hann vildi bóka aðra ferð en á eftir að ræða það heima fyrir.

Austral Kings eins og félagið heitir sem tekur við veiðimönnum á svæðinu er frekar nýtt af nálinni. 2016 var fyrst árið sem veitt var á svæðinu en á heimasíðu fyrirtækisins segir að laxfiskar í Chile séu ekki upprunalegir. Silungi hafi verið sleppt í margar ár og þeir hafi unað hag sínum vel og nú eru víða sjálfbærir stofnar af flottum silungi í ám í landinu.

Kóngalaxinn er vissulega sjálfbær í ánni sem þeir félagar voru að veiða. Hrygnir þar og seiðin ganga til sjávar og koma svo á nýjan leik og endurtaka hringrásina. En upprunalega eru þetta fiskar sem sluppu úr eldi eins og er með alla laxfiska í ám landsins. Kóngalaxinn eða Chinook er stærsta tegundin af svokölluðum Kyrrahafsstofnum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert