Veiðifélag Skaftártungumanna óskar nú eftir tilboðum í þrjú veiðivötn á afrétti Skaftártungu. Um er að ræða Grænalón, Botnlangalón og Langasjó. Vötnin og vatnasvið þeirra leigjast út hvert fyrir sig.
Í lýsingu á svæðunum segir: Grænalón á Skaftártunguafrétti, útfall lónsins að Dalakvísl og í Dalakvísl að Kirkjufellsósi. Veiðihús stendur við lónið og er miðað við að afnotaréttur af húsinu sé hluti af tilboðinu.
Þá er það Langisjór og útfall úr vatninu. Þar með fylgir veiðiréttur í Fagralóni og öðrum lónum sem liggja samsíða sunnan við Langasjó. Þar er einnig hús til afnota sem stendur við Langasjó.
Loks er það Botnlangalón og Lónakvísl. Þar stendur einnig hús og þarf að taka tillit til þess í tilboðsgerð.
Í auglýsingu frá veiðifélaginu er miðað við að leigan sé til tveggja ára og gert að skilyrði að leigutaki haldi veiðiskýrslur og skili þeim inn til Fiskistofu við lok veiðitíma.
Fyrst og fremst er bleikja í þessum vötnum og voru mörg þeirra orðin ofsetin og unnið hefur verið að grisjun vatnanna í þeirri viðleitni að fækka bleikjunni og um leið að stefna að því að hún verði stærri. Pétur Sigurðsson bóndi á Búlandi sem sæti á í stjórn veiðifélagsins sagði í samtali við Sporðaköst að engin takmörkun væri á stangafjölda og menn mættu raunar gera það sem hentaði. Netaveiði er heimiluð. Hann staðfesti að fyrst og fremst væri um bleikju að ræða en einhverjar sagnir hefði hann heyrt um urriða í Langasjó en þekkti það þó ekki gjörla.
Slóðar að vötnunum segir Pétur að séu í þokkalegu standi. Vissara er þó að fara ekki einbíla eigi menn erindi að fjallabaki.
Húsin sem standa við þessi vötn eru fín til síns brúks. Ágæt eldunar- og svefnaðstaða.
Tilboðum skal skila fyrir 28. mars og þau ber að senda á netfangið veidifelag.skaft@gmail.com.
Hér er tækifæri til að leigja sitt eigið veiðilón og vera kóngur um stund á einhverju fegursta svæði Íslands.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |