Í skoðanakönnun sem Maskína vann fyrir Skotveiðifélag Íslands – SKOTVÍS segjast ríflega 56% þeirra sem afstöðu tóku vera, mjög eða fremur jákvæð gagnvart því að sjálfbærar veiðar á fuglum og spendýrum séu stundaðar á Íslandi. Í meðallagi segja 25%, eða ríflega 80% sem eru jákvæð eða hlutlaus. Neikvæð voru 19%. Ríflega þúsund svör fengust.
Miðað við umræðu um veiðar í fjölmiðlum kemur á óvart hversu afgerandi niðurstaðan er. Hér er kannski á ferðinni birtingarmynd um hinn þögla meirihluta sem oft er vitnað til á Íslandi.
Áki Ármann Jónsson er formaður SKOTVÍS. Hver eru hans viðbrögð við þessu?
„Útkoman kom okkur þægilega á óvart hvað þetta var afgerandi. Umræðan um veiðar undanfarið hefur snúist á neikvæðan hátt um hvalveiðar og líkleg smitáhrif af henni yfir á almennar skotveiðar. Umræðan um rjúpnaveiðar hefur einnig verið á miklum villigötum undanfarin ár þó við höfum gert okkar besta til að leiða hana á rétta leið, byggt á gögnum úr talningum og upplýsingum úr Veiðikortakerfinu. En nú hillir undir það að sett verði á kerfi til rjúpnaveiða sem nýtir þessi gögn á vísindalegan hátt. Það var enn ein rósin í hnappagat skotveiðimanna þegar Fred A. Johnson sérfræðingur sagði að þetta væru bestu gögn sem hann hefði unnið með á 30 ára ferli sínum. Ráðherra mun kynna vinnu hans á aðalfundinum okkar annað kvöld."
Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar í mörgum löndum Evrópu og er afgerandi stuðningur við sjálfbærar veiðar á fuglum og dýrum í öllum löndum þar sem niðurstöður hafa verið birtar. Í frétt frá SKOTVÍS vegna þessa segir:
„Undanfarin ár hefur hart verið sótt að þeim sem stunda skotveiðar, og kannski birst landsmönnum skýrast að hausti þegar umræða um rjúpnaveiðar hefst. Umræðan hefur verið á svipaðan hátt víða um Evrópu og því þótti FACE, Evrópusamtökum Skotveiðifélaga, áhugavert að kanna hug almennings til sjálfbærra veiða um alla Evrópu. Í því skyni fékk Skotveiðifélag Íslands könnunarfyrirtækið Maskínu til að kanna hug landsmanna til veiða á fuglum og landspendýrum.
Spurt var: „Hversu jákvæð(ur/tt) eða neikvæð(ur/tt) ertu gagnvart því að sjálfbærar veiðar á fuglum og spendýrum séu stundaðar á Íslandi?“ Niðurstöður könnunarinnar voru nokkuð afgerandi, en 81% prósent aðspurðra völdu mjög, fremur eða í meðallagi í afstöðu til spurningarinnar. Þar af voru 56,3% mjög eða fremur jákvæð. Einungis 19% voru frekar eða mjög neikvæð. Niðurstöður þessarar könnunar eru nokkuð á pari við aðrar kannanir sem hafa verið gerðar víðsvegar um Evrópu, fer lægst í 70% en hæst í Svíþjóð og Danmörku eða yfir 90%.
Í Svíþjóð hafa stjórnvöld líka til margra ára gert samstarfssamning við Skotveiðifélag Svíþjóðar um ýmsan rekstur, t.d. aðstoð við aflífun á dýrum eftir árekstra við bifreiðar, stjórnun elgsveiða, fræðslu til almenning um veiðar og útilífsskóla. Þannig hafa stjórnvöld nýtt sér þá staðreynd að veiðimenn eru sérfræðingar og staðsettir út um alla Svíþjóð. Óþarfi að kalla til opinbera aðila sem kosta mikið og þurfa að fara um langan veg.“
SKOTVÍS hafa staðið vörð um hagsmuni skotveiðimanna á Íslandi og hafa verið í miklum alþjóðlegum samskiptum við sambærileg félög í öðrum löndum. Umræðan hefur öll verið svipuð.
„FACE, Evrópusamtök skotveiðimanna, hafa á síðastliðnum árum orðið vör við mikla undiröldu í Brussel og ESB gegn skotveiðum. Á liðnum árum hafa líka verið sett lög og reglugerðir sem eru vægast sagt úr takti við raunveruleikann. Í ljósi þess ákváðu samtökin að leggja sömu spurningu um alla Evrópu fyrir almenning að svara. Niðurstöðurnar hafa komið þægilega á óvart, mjög mikill meirihluti er fylgjandi eða hlutlaus gagnvart skotveiðum. Hæst í okkar nágrannalöndum þar sem samtökin gegna veigamiklu hlutverki í náttúrumenntun. Að Ísland skuli skora lægra er kannski vísbending um að tengsl almennings við náttúruna séu að rofna hraðar hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. SKOTVÍS hefur líka ekki fengið að gegna sama hlutverki hér og systursamtök þeirra gera í sínum löndum, þ.e. að sjá um fræðslu til veiðimanna og annarra hópa, ásamt öðrum hlutverkum,“ upplýsir Áki.
Hann segir dæmum fjölga þar sem bændur og veiðimenn eru hreinlega komnir með upp í kok af þeirri firringu sem víða virðist eiga sér stað. Hann nefnir dæmi.
„Nýlega fengu spænskir bændur og veiðimenn alveg nóg af yfirgangi borgarastéttarinnar og sex milljónir fóru í mótmælagöngu inn í Madrid. Voru þetta stærstu mótmæli í sögu Spánar. Það er óhætt að segja að það hafi opnað augu margra í Evrópu um þennan þögla meirihluta.“
Aðalfundur SKOTVÍS er haldinn á morgun og þar mun Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra málaflokksins kynna vinnu við nýja stjórnar– og verndaráætlun rjúpu ásamt því að líta yfir farinn veg hvað er í farvatninu fyrir skotveiðimenn, segir í kynningu á aðalfundinum sem hefst klukkan 20 annað kvöld.
Athugsemd var gerð af hálfu Maskínu við framsetningu og túlkun á gögnunum. Þar var bent á að ekki væri rétt að túlka svör „Í meðallagi“ sem í meðallagi jákvæð frekar en í meðallagi neikvæð. Þetta leiddi til þess að upphaflegri fyrirsögn fréttarinnar var breytt.
Það breytir því ekki að niðurstaðan er afgerandi og kemur á óvart miðað við þá umræðu sem hefur verið um skotveiðar síðustu misseri.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |