Afar áhugaverðar upplýsingar hafa komið fram í verkefni Fish Partner og Laxfiska, þar sem merktir hafa verið 184 sjóbirtingar á Skaftársvæðinu í Vestur–Skaftafellssýslu. Verkefnið hefur staðið í tæp tvö ár. Nú er veiðitíminn að bresta á aftur og þá er mikilvægt að veiðimenn á þessum slóðum hafi augun opin fyrir því að skrá og tilkynna um merkta sjóbirtinga.
„Árið 2022 byrjaði ég að vinna þetta skemmtilega verkefni með honum Jóhannesi Sturlaugssyni hjá Laxfiskum, þetta er og hefur verið mjög spennandi. Ég er viss um að með tíð og tíma munum við sjá ýmislegt sem ekki var vitað og á eftir að koma í ljós.
Fiskarnir eru af öllum stærðum og hefur verið gaman að sjá og fylgjast með hegðun þeirra og vexti. Við erum búnir að merkja 184 birtinga á Skaftársvæðinu síðan 12 apríl 2022,“ upplýsir Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner í samtali við Sporðaköst.
Hver merktur fiskur sem veiðist aftur hefur merkilega sögu að segja. Kristján er þegar kominn með nokkrar í sarpinn.
Hér er 1377 myndaður, en Kristján Páll veiddi þessa hrygnu og merkti hana í lok veiðitíma 2022. Hann veiddi hana svo aftur í fyrra vor.
Ljósmynd/Kristján Páll
„Einn fiskur er mér sérstaklega minnistæður. Það er hrygnan 1377. Hana veiddi ég í lok tímabils 2022 í Fossálum. Hún barðist vel og lengi og mældist 60 sentímetrar. Vorið eftir, þann 14. apríl var ég á veiðum neðarlega í Geirlandsá og viti menn ég veiddi sömu hrygnuna og þá 60.5 sentímetrar. Þessi fiskur hafði gengið niður úr Fossálum í Vatnamótin og upp Geirlandsá. Þetta afsannar margar kenningar um að sjóbirtingurinn gangi bara í sína á og til baka. Svo má vel vera að þessi fiskur hafi gengið niður áður en hún hrygndi og á endanum hrygnt í Geirlandsá. Það er mörgum spurningum ósvarað þegar að kemur að þessum magnaða fiski enda hafa ekki verið gerðar neinar almennilegar rannsóknir á svæðinu fyrr en nú.“
Kristján á fleiri sögur af þeim upplýsingum sem endurveiði þessara merkisbera bera með sér.
„1371 Veiddist 3. september 2022 í Vatnamótum. Þá mældist hann 43 sentímetrar. Rúmu ári síðar, eða þann 25. september veiddist hann aftur í Vatnamótum og var þá 58 sentímetrar. Hann hafði vaxið um 15 sentímetra á rúmu ári.
673 veiddist fyrst í Hörgárós 15. apríl, 2022, þá 65 sentímetrar. Næst veiddist hann í Vatnamótum 1. maí 2023 og þá 69 sentímetrar.“
Kristján segir að af 184 sjóbirtingum sem hafa verið merktir hafi margir verið endurveiddir en þó enginn oftar en tvisvar sinnum, enn sem komið er. Í hans huga er þetta staðfesting á hversu vel veiða og sleppa fyrirkomulag á sjóbirtingi virkar vel.
„Fyrir mér sannar þetta að veiða og sleppa virkar og fiskurinn drepst ekki eftir að hann er veiddur eins og margir halda fram.
Ég ætla ekki að fara nánar út í þessi vísindi að svo stöddu en eftir komandi tímabil mun ég vonandi verða með ferskar, skemmtilegar og fróðlegar fréttir um þessa mögnuðu fiska.
Svona líta þau út merkin. Mikilvægt er fá númer merkis, veiðistað og mælingu á fiskinum. Þá eru myndir vel þegnar, segir Kristján Páll.
Ljósmynd/Kristján Páll
Í lokin vill ég hvetja alla þá sem eru verða á veiðum á Skaftársvæðinu nú í vor að hafa augun opin fyrir merkjum. Ef merktur fiskur veiðist þá endilega mæla lengd taka númerið á merkinu og ekki er verra að fá mynd af fisknum með.“
Eftir sextán daga mæta fyrstu veiðimennirnir austur og kasta fyrir sjóbirting. Að þessu sinni ber 1. apríl upp á annan í páskum. Ef einhver verður svo heppinn að veiða merktan sjóbirting, þá er mikilvægt að senda þær upplýsingar sem Kristján er að biðja um á netfangið hans eða hjá Jóhannes í Laxfiskum.
Seinustu hundraðkallar sumarsins
Lengd á laxi |
Veiðisvæði |
Veiðimaður |
Dagsetning
Dags.
|
102 cm |
Hvítá við Iðu |
Ársæll Þór Bjarnason |
19. september
19.9.
|
101 cm |
Víðidalsá |
Stefán Elí Stefánsson |
4. september
4.9.
|
101 cm |
Laxá í Dölum |
Hafþór Jónsson |
27. ágúst
27.8.
|
102 cm |
Haukadalsá |
Ármann Andri Einarsson |
23. ágúst
23.8.
|
103 cm |
Laxá í Aðaldal |
Birgir Ellert Birgisson |
12. ágúst
12.8.
|
103 cm |
Miðsvæði Laxá í Aðaldal |
Máni Freyr Helgason |
11. ágúst
11.8.
|
101 cm |
Laxá í Aðaldal |
Agnar Jón Ágústsson |
10. ágúst
10.8.
|
Skoða meira