Spá Hafrannsóknastofnunar varðandi smálax í sumar á Vesturlandi er jákvæðari en verið hefur í langan tíma. Miðað við þær forsendur sem hægt er að ráða í eru góðar líkur á meðalveiði þegar kemur að smálaxi á Vesturlandi. Óhætt er að segja að veiðin, að minnsta kosti síðustu fimm ár hafi verið töluvert undir meðallagi. „Meðalveiði á Vesturlandi er í kringum fjórtán þúsund smálaxar. Við höfum síðustu ár verið þrjátíu til fimmtíu prósent undir því marki,“ segir Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur sem sérhæfir sig í rannsóknum á laxi á vestanverðu landinu.
Í fyrsta skipti í fimm ár voru skilyrði fyrir laxaseiði á fæðuslóð, suður og vestur af landinu með besta móti. Nú liggja nákvæmar niðurstöður fyrir og sýna þær að hitastigið í júlímánuði sem leið (2023) hafi verið ellefu gráður. Það er umtalsvert hærri hiti en mældist á þessum sömu slóðum sumarið 2022, þegar hitastigið náði ekki tíu gráðum. Hækkun um rúma gráðu í sjávarhita milli ára er stórt, og miðað við reynslu síðustu ára þá eru þetta spennandi fréttir.
Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun hefur ásamt samstarfsfólki á Hvanneyri fundið út afar sterka fylgni milli sjávarhita á fæðuslóð laxaseiða í júlí og veiði smálaxa á Vesturlandi árið eftir. Upplýsingar um fæðuslóð seiða í sjónum byggir á rannsóknum Veiðimálastofnunar á mælimerktum laxaseiðum sem sleppt var í Kiðafellsá á sínum tíma en merkin mældu sjávarhita og dýpi þar sem fiskurinn dvaldi í sjónum á klukkutíma fresti, allan lífsferil laxins frá því að seiði gengu til sjávar og þar til laxinn gekk aftur til hrygningar (Sigurður Guðjónsson, Sigurður Már Einarsson, Ingi Rúnar Jónsson og Jóhannes Guðbrandsson, 2015). Þegar grafið sem fylgir fréttinni er skoðað má sjá að fylgnin er afar sterk. Um er að ræða meðalhita sjávar í júlímánuði en ástæðan fyrir því að júlímánuður er valinn segir Sigurður Már vera að þá séu seiðin líkast til komin út á beitarsvæðin. Tölfræði og líkanagerðina var unnin af Dr. Jóhannesi Guðbrandssyni hjá Hafrannsóknastofnun á Hvanneyri.
Punktarnir á línuritinu sýna vel samspilið. Hver punktur stendur fyrir sjávarhita sumarið áður og smálaxaveiði sumarið á eftir. Öll metárin í smálaxaveiði á þessari öld hafa komið eftir að sjávarhiti á fæðuslóð árið áður var um ellefu gráður eða hærri. Þetta eru árin 2005 (20 þúsund smálaxar), 2008 (28 þúsund smálaxar), 2009 (22 þúsund smálaxar), 2010 (22 þúsund smálaxar), 2011 (16 þúsund smálaxar) 2013 (23 þúsund smálaxar) og 2015 (21 þúsund smálaxar.) Svo er þessu öfugt farið vinstra megin á línuritinu.
„Meðalveiði á smálaxi síðustu tvo áratugi er í kringum fjórtán þúsund smálaxar á Vesturlandi, þannig að þessi lægð sem hefur verið síðustu ár hefur verið þrjátíu til fimmtíu prósent undir meðalveiðinni. Nú þegar við höfum sett sjávarhitann í fyrra inn í jöfnuna þá bendir það til um fimmtán þúsund smálaxaveiði næsta sumar. Það er gríðarlega mikil breyting frá fyrri árum. Þetta tölfræðisamband hitastigs sjávar og smálaxaveiði ári síðar bendir til þess að það verði bati næsta sumar,“ upplýsir Sigurður Már.
Hann ítrekar að þetta er sýnd veiði en ekki gefin. Þannig liggja ekki fyrir nægilegar upplýsingar um útgöngu seiða úr ám á Vesturlandi. Fleira getur spilað þarna inn í. Áhrif af þurrkasumrinu mikla 2019, sem tók afar mikinn toll af seiðabúskap á Vesturlandi einkum af sumargömlum og ársgömlum seiðum og víðar um land eru enn til staðar. Þeir seiðaárgangar eru að skila sér um þessar mundir inn í veiðina og skiluðu því minni en framleiðslu en ella. Hversu öflug sú útganga var, liggur ekki fyrir. En það er þó ljóst að það umhverfi sem seiðin komu í var hagfelldara en nokkur fyrri ár.
„Það er mjög sterk fylgni til staðar í þessari jöfnu og hún útskýrir um fimmtíu prósent alls breytileika og það er sterkt fylgnisamband í líffræðilegum rannsóknum. En vissulega eru þarna ár sem áttu að gera betur. Til dæmis 2020, þegar sjávarhiti sumarið 2019 var 11,6 gráður þá var veiðin samt langt undir meðaltali eða um níu þúsund smálaxar. Laxinn var hins vegar fallegur og hafði dafnað mjög vel. Þurrkarnir 2019 leiddu sennilega til verulegra affalla á seiðaútgöngunni það ár og árgangar því minni en í eðlilegu árferði. Það hefur verið skert framleiðsla í þessum ám eftir þessa miklu þurrka 2019.
Ég held að þegar sjávarskilyrðin batna svona mikið þá minnka afföllin svo mikið í sjónum að jafnvel tiltölulega lélegur gönguseiðaárgangur getur skilað ágætri veiði.“
Hann nefnir Elliðaárnar sem dæmi, en þar hafa seiðamerkingar verið stundaðar mjög lengi. Þegar skilyrði í hafinu eru erfið fara heimtur niður í fimm prósent en upp í tuttugu prósent þegar skilyrði eru góð.
Eitt dæmi sem mörgum er í fersku minni var gott gengi í Andakílsá sumarið 2020 eftir seiðasleppingar 2019, í þurrkunum. Áin skilaði 660 löxum á eina tilraunstöng sumarið á eftir. Sigurður Már annaðist þær sleppingar og hann telur að þar hafi komið til að skilyrði í hafinu voru mjög góð þegar seiðin gengu út. (Samkvæmt grafinu 11,6 gráður). Vel var fylgst með seiðatjörn sem fóstraði seiðin þar til þau gengu til sjávar og þar var um stuttan veg að fara. Vatnssveiflur í Andakílnum eru líka takmarkaðar þar sem virkjun og miðlun viðhalda jöfnu rennsli. Þessi seiði komu í miklu magni til baka og var þar á ferðinni vel haldinn smálax. Seiðin úr Andakílnum sluppu við áhrif þurrkanna en nutu sjávaraðstæðna, ólíkt því sem gerðist í náttúrulegu ánum í kring.
Við ræðum hina ískyggilegu stöðu sem Atlantshafslaxinn virðist vera í og Sporðaköst gerðu nýverið frétt um. Hvernig metur Sigurður Már stöðuna?
„Ísland hefur alltaf haft sérstöðu í þessum laxaheimi. Bæði höfum við farið ágætlega með auðlindina okkar og svo er stutt út á frjósöm mið. Það er lengra fyrir laxinn að fara víða annars staðar og hann er að glíma við erfiðari skilyrði. Engu að síður þá er tegundin í vandræðum í öllu Atlantshafi og við höfum verið að glíma við kuldapoll og lægra seltustig. Hlýr selturíkur sjór er besta ávísun á að það komi mikið af laxi.“
Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um seltustigið á fæðuslóðinni en þó eru vísbendingar um að þróun á því sviði hafi líka verið í rétta átt.
En ef við horfum á lax víðar að en af Vesturlandinu, eru þetta góðar fréttir líka fyrir Suðurland og Norðurland vestra?
„Já. Ég held það. Ég veit ekki alveg hvar skilin liggja. Veiðitölur benda til þess. En við vitum að lax á Norðausturlandi og Austfjörðum fer annað, líklega í Noregshafið. Vaxtarmynstrið í hreistri á þeim fiski er öðruvísi heldur en á því hafsvæði sem við erum að ræða. Ég væri mjög spenntur fyrir því að merkja seiði úr Vopnafirðinum til dæmis til að rekja ferð þeirra, eins og við gerðum hér um árið með allt að því handafli þegar við fórum í sleppingarnar í Kiðafellsá. Það er hins vegar ekki auðvelt að fá fjármagn í slík verkefni á Íslandi þar sem fjármagn til rannsókna er af mjög skornum skammti. Maður sér meira að segja að stóru þjóðirnar sem hafa meira umleikis en við hafa veigrað sér við að fara þessa leið. Merkið kostar um fimmtíu þúsund krónur og líkur á að eitt prósent endurheimtist. Norðmenn hafa sett svona merki í klaklax og sleppt honum aftur, en ekki í seiði. Enn sem komið er þá er þetta eina rannsóknin sem hefur staðfest hvert seiði fara og hvert ferlið er. Þessi mælimerki byggja einnig á íslensku hugviti en það er íslenska fyrirtækið Stjörnu Oddi sem á heiðurinn af þessari framleiðslu. Þó ég segi sjálfur frá þá var þetta rannsókn sem skilaði áhugaverðum niðurstöðum sem við byggjum þetta módel á.“
Þó að þú sért ekki að selja veiðileyfi, þá má auðveldlega álykta að það sé innistæða fyrir góðum bata í smálaxinum í sumar?
„Það er innistæða hvað hitafarið varðar. Svo er það hinn breytileikinn sem er eftir. Styrkur seiðanna og magn þeirra í útgöngunni. Hafi það verið mjög lélegt getur það haldið á móti. Ég yrði ofsalega ánægður ef smálaxaveiði á Vesturlandi næði þrettán til fjórtán þúsund löxum. Það yrði mikill bati.“
Sigurður er varfærinn í orðavali, enda margir orðnir hvekktir á mörgum lélegum veiðisumrum síðasta áratuginn. Rétt er hins vegar að minna á að spá Sigurðar var afar hófstillt fyrir sumarið 2023 og gekk það eftir. En eins og einn leigutaki sagði í samtali við Sporðaköst þá þarf svo margt að ganga upp til að við fáum gott laxveiðisumar. En hitastigið sem seiðin fóru í síðasta sumar bauð upp á góð skilyrði og þar til annað kemur í ljós er fínt að vita að ein af stóru breytunum er laxinum í hag. Það er langt síðan að það gerðist síðast.
Heimild:
Sigurður Guðjónsson, Sigurður Már Einarsson, Ingi Rúnar Jónsson og Jóhannes Guðbrandsson 2015. Marine feeding areas and vertical movements of Atlantic salmon (Salmo salar) as inferred from recoveries of data .storage tags Can. J. Fish. Aquat. Sci. 72: 1–1
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |