Það er byrjað að örla á vorboðunum. Byssusýning Veiðisafnsins á Stokkseyri er einn þeirra fyrstu. Þessi árlega sýning hefur skipað sér fastan sess í hugum veiðiáhugafólks. Að þessu sinni fer sýningin fram dagana 23. og 24. mars. Sem sagt um komandi helgi.
Að þessu sinni er sýningin í samvinnu við verslunina HLAÐ - Reykjavík og PRS skotíþróttasamtök Íslands laugardaginn 23. og sunnudaginn 24. mars 2024 frá kl. 11–18 í húsakynnum Veiðisafnsins, Eyrarbraut 49 Stokkseyri.
Hlaðsmenn verða á staðnum og sýna úrval skotvopna sem og búnað til skotveiða ásamt sjónaukum og aukabúnaði til sýnis og sölu.
Einnig verður skothermir á staðnum og ætti það að vera sérlega áhugavert verkfæri fyrir áhugafólk um byssur og veiðar.
Í fréttatilkynningu sem Veiðisafnið sendi frá sér vegna sýningarinnar segir:
„Félagsmenn PRS verða á staðnum og sýna keppnisriffla sína og aukabúnað sem notaður er til íþróttaiðkunarinnar og er hér kjörið tækifæri til að tala við þá um græjurnar og og fræðast um íþróttina. PRS stendur fyrir Precision Rifle Series og er mótasería þar sem keppt er með nákvæmnisrifflum og skotið á stálskotmörk á lengri færum. Keppt er bæði með miðkveiktum kalíberum í íslensku PRS mótaseríunni og randkveiktum 22lr. rifflum í PR22 mótaseríunni.
Einnig verða til sýnis skotvopn og munir frá Sigurði Ásgeirssyni, Einari frá Þverá, Sveini Einarssynifrv.veiðistjóra, Sigmari B. Haukssyni og Drífu-haglabyssur frá Jóni Björnssyni heitnum frá Dalvík ásamt úrvali skotvopna svo sem haglabyssur, rifflar, skammbyssur, herrifflar ásamt ýmsu tengdu skotveiðum frá Veiðisafninu.“
Páll Reynisson stofnaði safnið á sínum tíma og hefur lagt ómælda vinnu í að gera það að einu áhugaverðasta safni landsins. Hann er sjálfur þaulvanur skotveiðimaður og hefur ferðast um allan heim til veiða.
Veiðisafnið býður upp á skemmtilega upplifun með flottum sýningarsölum sem hýsa fágæta og áhugaverða gripi. Byssusýningin verður opin laugardaginn 23. og sunnudaginn 24. mars frá klukkan 11 – 18, báða daga í húsakynnum Veiðisafnsins, Eyrarbraut 49 Stokkseyri.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |