Það er óhætt að segja að Helgi Guðbrandsson brosti hringinn í morgun þegar hann landaði sínum fyrsta laxi í Skotlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem Helgi veiðir lax annars staðar en á Íslandi og hann segist aldrei hafa áður veitt lax svona snemma árs. „Við erum að tala um mars,“ hló Helgi.
Hann hefur stundað að fara til Argentínu og veiða þar stóra sjóbirtinga. „Nú ákváðum við að sleppa Argentínu en fóru í staðinn í Spey, hér í Skotlandi. Þetta er virkilega fallegt vatn sem gaman er að kasta á. Svæðið heitir Easter Elchies og þetta er alveg geggjað svæði.“ upplýsti Helgi.
Þeir fór seint út í morgun enda kalt í veðri og snjóað hafi á fjallatoppa. Með þeim í för er Örn Sigurhansson sem starfað hefur um langt skeið sem leiðsögumaður á svæðinu. Hann þekkir hverja þúfu og aðstæður eins og best gerist.
„Við erum búnir að fá nokkra „keltara“ eins og kemur fyrir á þessum árstíma. En við höfum séð aðeins af fiski á ferðinni og ég áttaði mig strax á að þetta var góður fiskur þegar hann tók. Takan var þung og ég slóst við hann í rúmar tíu mínútur. Auðvitað vildi maður spila hann af öryggi. Fyrsti laxinn og passlegt stress, en Örn háfaði hann af stakri fagmennsku.“
Skotarnir kalla niðurgöngulaxinn kelt og alltaf veiðast nokkrir slíkir framan af veiðitímanum, þar til þeir ganga til sjávar í þeirri viðleitni sinni að byggja sig upp á nýjan leik og þeir sem lifa af ganga aftur í ána síðsumars eða að hausti.
Helgi fékk laxinn á túbu sem ber það breska og viðeigandi nafn Posh Tosh. Á leið sinni að Spey kom hópurinn við í útivistar stórmarkaðnum The House of Bruar. „Við keyptum nokkrar flugur sem okkur leist vel á. Posh Tosh var ein þeirra og hann tók hana á léttum sökkenda.“
Laxinn var vigtaður í háfnum og mældist 15 pund, ensk að sjálfsögðu. Þessi glæsilegi vorlax, eða springer eins hann nefnist af heimamönnum veiddist á veiðistað sem heitir Fiddich. Þar er Örn leiðsögumaður á heimavelli, en hann veiddi fyrstu laxana á svæðinu og líkast til í Spey sjálfri. Það var fyrir réttum mánuði síðan eða 27. febrúar. Þá fékk Örn tvo laxa einmitt íFiddich, allra neðst í staðnum. Annar var þrettán pund og hinn sex.
Áður en Helgi og félagar komu til Easter Elchies var búið að landa tólf löxum á svæðinu. Þannig að nú er staðan þannig að Íslendingar hafa landað þremur af þrettán löxum.
Vaxandi hópur Íslendinga er farinn að stunda vorveiðina í Skotlandi. Fyrstu árnar opna um miðjan febrúar en það er ekki fyrr en komið er fram á þennan tíma að veiðilíkur aukast. Verðlagið í Skotlandi tekur meira mið af væntri veiði en gerist á Íslandi og á flestum stöðum kostar þessi veiði á þessum tíma árs ekki stórar fjárhæðir.
Við spurðum Helga hvort vorið væri komið til Skotlands. „Eins og ég segi. Það var kalt í morgun og snjór í hæstu fjöllum. Grasið er orðið grænt og trén eru við það að springa út. Þannig að þetta mun gerast hratt á næstu dögum þegar hlýnar aðeins.“
Helgi var þar með búinn að gera allt klárt og aftur var Posh Tosh komin undir. Síðasta veiðivaktin stendur yfir og aldrei að vita hvað gerist. Hann er þrautreyndur veiðimaður og staðalbúnaður árlega við Miðfjarðará þar sem hann hefur verið í veiðileiðsögn jafn lengi og elstu menn muna.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |