Veiðitímabil stangveiðimanna hefst á mánudag. Í ár ber fyrsta dag upp á annan í páskum og sjálfsagt verða margir mættir á veiðislóð á páskadag. Veðurspáin er þess eðlis að verkefnið verður krefjandi. Á mánudag er spáð frosti á öllu landinu, allan sólarhringinn. Góðu fréttirnar eru helst þær að næturfrostið er ekki nema mínus fimm gráður og lofthiti fer alveg upp í núll gráður þegar best lætur.
Það vita það allir vorveiðimenn að apríl getur verið kaldur og erfiður. Veður hefur hins vegar aldrei stöðvað fólk í að kasta fyrstu köstin. Tugir veiðimanna verða á Suðurlandi klárir með flugustangir og margvíslegar útfærslur af straumflugum og púpum, strax á mánudag. Glorhungraður sjóbirtingurinn er í fæðuleit og tilbúinn að taka það sem að honum kemur.
Tungufljót, Tungulækur, Eldvatn, Geirlandsá, Vatnamót, Fossálar, Skaftá ásamt fleiri ám opna 1. apríl. Fjölmörg önnur veiðisvæði og víða um land bjóða upp á veiði frá og með mánudegi. Fyrir norðan eru það Litlaá í Kelduhverfi, Eyjafjarðará og Húseyjarkvísl svo einhverjar séu nefndar.
Leirá og Leirvogsá, Hólaá og Ytri–Rangá eru allt ár sem opna á mánudag. Þá eru einnig fjölmörg vötn sem veiðimenn geta byrjað á að skoða. Hraunsfjörðurinn er svæði sem margir bíða spenntir eftir, en stærstu bleikjurnar mæta fyrstar þar. Margir leggja leið sína í Vífilsstaðavatn fyrstu dagana til að anda að sér andrúmsloftinu. Hér er aðeins stiklað á nokkrum veiðisvæðum og veiðimenn ættu að leita sér upplýsinga hjá hinum ýmsu leigutökum og félögum sem bjóða veiðileyfi.
Dýrmætasti búnaður veiðimanna þessa fyrstu daga verða vettlingar, treflar, húfur og fleiri lög af undirfatnaði en eðlilegt gæti talist. Framundan eru spennandi dagar sem munu einkennast af frosti í lykkjum og sultardropum. Langsoltnir veiðimenn setja það þó ekki fyrir sig og eftir því sem næst verður komist er veiðibakterían afar kuldaþolin og fljót að jafna sig eftir smá volk.
Næstu vikur fjölgar svo veiðisvæðum eftir að vorið og jafnvel sumarið nálgast með hækkandi sól og fjölgandi daggráðum.Þannig spáir norska veðursíðan yr.no að strax þann 7. apríl verði ekkert næturfrost í nágrenni Kirkjubæjarklausturs og daggráður þegar best lætur fari upp sex gráður. Vorið mun sigra veturinn, bara ekki alveg strax.
Sporðaköst munu fylgjast vel með opnunum og hér er skorað á veiðimenn að senda okkur myndir af fyrstu fiskunum. Þemað, kuldalegasta myndin er líka eitthvað til að vinna með.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |