Það hefur gengið á ýmsu í opnunarhollinu í Litluá í Kelduhverfi. Níunda árið í röð eru þeir Veiðiríkisbræður ásamt félögum að opna ána. Fyrsti dagur glataðist að stórum hluta. Ófærð gerði það að verkum að þeir komust ekki austur, frá Akureyri fyrr en langt var liðið á dag. Skilyrði voru þá ekki upp á það besta. Átján metrar á sekúndu og snjókoma með því.
Bára Siguróladóttir sér um gistihúsið í Keldunesi þar sem flestir veiðimenn nýta aðstöðu á meðan á veiði stendur. Bára þurfti að fá lánaðan snjóblásara af næsta bæ til að gestir kæmust inn á planið, þrátt fyrir að vera allir vel jeppandi.
„Þetta er búið að vera ótrúlegt veðurlag. Ég hélt um miðjan mars að það væri búið að taka fram úr og maður var ekkert nema bjartsýnin. Ég var búin að taka klakann framan við útidyrahurðina svo þeir kæmust inn á töflunum. En svo kom bara aftur vetur.“ Bára hefur búið að Keldunesi í fimmtíu ár. Í fyrsta sauðburði vorið 1974 voraði vel og það tekið fram úr í mars, eins og Bára kallar það. Hún segir það vor hafa verið hreint út sagt yndislegt. Bóndinn sagði henni að þetta væri alltaf svona í Kelduhverfinu. „Ég skal alveg viðurkenna að ég var komin með efasemdir strax 1979 að það væri rétt. Það ár kom ekkert sumar. Ég veit núna að vorið 1974 var sérstakt og slíkt vor hefur ekki komið aftur í hálfa öld,“ hló Bára.
Það var kalt í Kelduhverfinu í dag. Um hádegi var frostið ellefu gráður og komið stafa logn og sólin var að hnykla vöðvana. Lognið var reyndar það mikið að Sigurður B. Sigurðsson, Siggi í Veiðiríkinu á Akureyri hristi bara höfuðið. „Maður kastar og línan lendir og þetta er bara eins og kasta handsprengju í hylinn. Það er ýmist í ökkla eða eyra.“
Þeir félagar hafa engu að síður landað þegar hér er komið sögu ríflega áttatíu urriðum. Og það eru stórfiskar innan um. „Valli bróðir er búinn að landa einum 83 sentímetra og einum sem var sléttir 80. Alvöru fiskar. Hins vegar er minna af fiski á svæðinu núna en hefur verið. Fyrsta daginn vorum við með 33 fiska. Við byrjuðum að veiða rúmlega tvö og hættum fyrir klukkan átta. Þá var komið sextán stiga frost. Maður náði tveimur köstum og þá þurfti að brjóta úr lykkjum og ekki nóg með það heldur voru hjólin frosin líka.“
Siggi og félagar voru meðvitaðir um spána og eins og hann segir sjálfur gat þetta ekki farið verr en að vera góð sumarbústaðaferð með tíu bestu vinum sínum.
„Valli bróðir braut stöng í ferðinni og ég held að það sé fjórða árið í röð sem hann brýtur stöng í opnun hérna. Hann segir alltaf að hann hafi brotið mína stöng. Það þýðir í raun og veru að ég eigi að hringja og panta varahluti.“ Siggi hlær og greinilegt að Valli er ekki að hlusta á samtalið.
Hollið er að veiða fram á hádegi á morgun. En þrátt fyrir erfið skilyrði og miklar öfgar í veðri þá hefur Siggi áhyggjur af minnkandi veiði á svæðinu. Hann óttast að hitabylgjan sem gekk yfir Norðurland sumarið 2021 hafi valdið skaða. Hann minnist þess að Skjálftavatnið hafi þá mælst 24 gráður og það er áður en heitu uppspretturnar koma út í. „Maður óttast að þetta hafi haft afar slæm áhrif á fiskinn. Ég vil ekki vera neikvæður og það vantar ekki að það er fiskur, en það er minna af honum en hefur verið.“
Flugurnar Murta og Strympa hafa gefið góða veiði. „Valdi Friðgeirs hnýtti hana eftir flugu sem Valla bróðir dreymdi. Hann fékk Valda til að hnýta hana fyrir sig og við höfum notað hana mikið hér og í Eyjafjarðará og hefur alltaf gefið vel. Þetta er fluga sem margir kaupa í búðinni hjá okkur.“
Það sem gerir Litluá ómótstæðilega eru heitu uppspretturnar sem koma út í hana þannig að hana leggur aldrei. Hitastigið á vatninu er tólf til fimmtán gráður giskaði Siggi á. Frostið í morgun var ellefu gráður og það er verulegur hitamunur. „Enda er slegist um staðina þar sem áin er hvað heitust,“ hló Siggi að lokum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |