Blanda og Svartá fara í útboð

Blanda fer í útboð. Veiðin hefur verið slök síðustu ár …
Blanda fer í útboð. Veiðin hefur verið slök síðustu ár og sala veiðileyfa hefur verið dræm fyrir komandi sumar. Afar gjöfulir veiðistaðir eru neðst í Blöndu og Breiðan hefur skapað margar minningar hjá veiðimönnum. Ljósmynd/Aðsend

Laxveiðiárnar Blanda og Svartá verða á næstunni auglýstar til leigu frá og með sumrinu 2025. Sem stendur er félagið Starir ehf. með vatnasvæðið á leigu. Núgildandi leigusamningurinn rennur út í haust.

Starir reka árnar í sumar en sala á veiðileyfum hefur reynst erfið og er þar án efa minnkandi laxveiði á svæðinu stærsti áhrifavaldurinn.

Aðalfundur Veiðifélags Blöndu og Svartár var haldinn í menningarstofnuninni Húnaveri 4. apríl. Þar var samþykkt að fela stjórn veiðifélagsins að auglýsa vatnasvæðið til leigu. Guðmundur Rúnar Halldórsson bóndi í Finnstungu er formaður veiðifélagsins og staðfesti hann að stjórn væri farin að undirbúa útboð sem auglýst yrði á næstu vikum.

Veiðimenn á Breiðunni að norðan og sunnanverðu. Neðsta veiðisvæðið í …
Veiðimenn á Breiðunni að norðan og sunnanverðu. Neðsta veiðisvæðið í Blöndu var eftirlæti maðkveiðimanna. Breyting varð á sumarið 2019 en þá var bara leyft að veiða á flugu. Einar Falur Ingólfsson

„Það eru náttúrulega allir meðvitaðir um stöðuna á markaðnum en við ætlum að auglýsa og sjá hvað kemur út úr því. Fyrsti kostur er náttúrulega að leigja ána til eins aðila, eins og verið hefur. Við höfum hins vegar séð að nokkrar ár hafa tekið upp annað fyrirkomulag sem byggir á umboðssölu og við munum skoða alla kosti og ræða við áhugasama,“ upplýsti Guðmundur í samtali við Sporðaköst.

Blanda er jökulá og því minni fyrirsjáanleiki þar um hversu langt veiðitímabilið verður. Þegar miðlunarlón Landsvirkjunar fyllist fer Blanda á yfirfall sem kallað er og verður þá illveiðanlegt þar. Veðurguðir ráða þar einir för og dagsetningar liggja aldrei fyrir.

Þór Agnarsson og Baldur Hermannsson með stórlax úr Brúnarhyl í …
Þór Agnarsson og Baldur Hermannsson með stórlax úr Brúnarhyl í Svartá. Þetta var í september 2021. Miklar sveiflur hafa verið í veiðinni í Svartá í gegnum árin. Ljósmynd/Aðsend

Svartá sem fellur í Blöndu ofarlega í Langadal er hins vegar tær og þar er fullkominn fyrirsjáanleiki.

Veiði í Blöndu hefur sveiflast mjög mikið í gegnum árin. Síðustu ár hafa verið léleg og síðasta sumar eitt það lélegasta frá upphafi. Síðasta góða ár í Blöndu var árið 2017 þegar hún gaf 1.433 laxa. Árið áður var veiðin 2.386 laxar. Síðastliðið sumar gaf Blanda 359 laxa og er það lélegasta veiði sem skráð hefur verið í ánni.

Það hafa áður komið kaflar í Blöndu sem hafa gefið litla veiði. Þannig fór veiðin aldrei nema í sex hundruð laxa og þaðan af minna á árunum 1989 til 1996. Frá 2004 til 2017 skilaði Blanda góðri veiði flest ár. Spurningin núna er hvort léleg veiði árin 2019 til 2023 er niðursveifla eða viðvarandi þróun. 

Það kom mörgum á óvart þegar Lax-á, félag Árna Baldurssonar sagði upp leigusamningi um svæðið í ágúst 2019, þegar eitt ár var eftir af samningnum. Blöndu- og Svartárbændur höfðu snör handtök og sömdu við Starir í framhaldinu og sá samningur rennur út eftir sumarið í ár.

Miklar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi þegar Starir tóku við. Maðkurinn var bannaður og sleppiskylda sett á. Núna er eingöngu veitt á flugu í Blöndu og sakna margir þess tíma þegar gamla fyrirkomulagið var við líði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert