Þú ert skítkaldur úti í fjögurra gráðu heitu vatni í roki og lofthiti er ein gráða. Þú ert löngu hættur að finna fyrir tánum á þér. Varirnar eru bláar af kulda og fingurnir stirðir og hlíða ekki öllu sem þeim er ætlað að gera. Skyndilega ber vindurinn með sér ilmandi lykt af pítsu. Þú ert staddur í sjóbirtingsánni Eldvatni í Meðallandi. Langt frá öllum pítsastöðum. Veiðifélaginn Sigþór Steinn Ólafsson kallar svo hátt og skírt undan vindi. „Það er pítsa. Hún er klár.“ Þú átt í erfiðleikum með að komast í land því allir liðir eru stirðir í kuldanum. Á bakkanum stendur Sigþór með stóran stálspaða og á honum er fullkomin pítsa. „Gjörðu svo vel. Vildirðu ekki geitaost á þína?“
Þetta upplifði Bjarni Freyr Rúnarsson veiðifélagi Sigþórs í norðanbálinu við Eldvatn síðustu daga. „Guð minn góður. Hvað þetta var ljúft. Ég var annar maður á nokkrum bitum. Þetta kallar maður metnað,“ sagði Bjarni Freyr við Sigþór eftir að hafa sporðrennt tveimur sneiðum.
Sigþór er búinn að vera við sjóbirtingsveiðar síðustu daga í Eldvatninu. Þegar hann var að pakka fyrir túrinn og hafði skoðað spána ákvað hann að skella pítsaofninum gasdrifna í skottið á jeppanum. Ofninn er fyrirferðamikill en þegar komið var austur í Eldvatn var ofninum komið fyrir við veiðistaðinn Villa. Hann hefur staðið þar síðustu daga og yljað mönnum og konum bæði á sál og líkama. Veiðistaðurinn Villi hefur verið fjölsóttur af veiðifélögum eftir að spurðist út hvað væri í gangi og sumir höfðu fundið keim af pítsalykt við ána. Menn ýta þó slíkum hugrenningum fljót frá sér þegar þeir er staddir fjarri þéttbýli.
„Við köllum þetta Villapítsu,“ hlær Sigþór. Hann segist hafa verið duglegur með ofninn þó að vísu hafi sunnudagurinn með sínum tuttugu metra á sekúndu roki ekki boðið upp á viðráðanlegar aðstæður.
Það var gefið í við ofninn í gær þegar frekari aðföng bárust austur með nýjum veiðimönnum og þar var geitaostur efst á lista og einnig hráskinka.
„Það er ekki alltaf mokveiði í boði og þá er gott að eiga góða stund með vinum og félögum og segja sögur,“ útskýrir Sigþór varðandi hugmyndina að taka ofninn með í túrinn.
Kristín, kærasta Sigþórs er með í för. Hún landaði flottum birtingi á Mangatanga og mældist hann 82 sentímetrar. Næst lá leiðin í Villa og þar útbjó Sigþór pítsu. Svo að öllum staðreyndum sé til haga haldið þá var hugsunin að nýta sem best heitasta tíma dagsins og þurfa ekki að fara í hús til að elda og stytta gluggann sem gaf mestan möguleika á fiski. Þar hjálpaði pítsaofninn.
Sigþór heldur úti Hylnum sem er vinsælt hlaðvarp um veiði, er þaulvanur veiðimaður og hefur stundað veiðileiðsögn um árabil. Hann hefur þarna hækkað rána svo um munar þegar kemur að því að næra sig við bakkann. Næst þegar þú sest niður með köldu samlokuna þína og ískalt appelsín á köldum vordegi þá er líklegt að þér verði hugsað til Sigþórs og pítsaofnsins.
Eldvatnið er nú komið í tæplega sjötíu sjóbirtinga frá opnun. Það er ágætis byrjun miðað við aðstæður. Gjöfulasti staðurinn er Eyjarof með 22 bókaða fiska. Villi er kominn inn á listann í fimmta sæti með sex bókaða og þar af voru fjórir í gær. Geitaosturinn spurðist fljótt út og veiðimenn kepptust við að kíkja í Villa og Villapítsu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |