„Það var eiginlega bara mok í dag“

Matthías stundar vorveiðina af krafti bæði sunnan og norðan heiða. …
Matthías stundar vorveiðina af krafti bæði sunnan og norðan heiða. Þessi tók í Eyjafjarðará í gær einhvers staðar á milli veiðistaða. Flestir af bestu stöðunum eru enn undir ís. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Þrátt fyrir vetrarríki í Eyjafirði gerðu veiðimenn mokveiði í Eyjafjarðará í gær. „Við fórum bara snemma í hús gærkvöldi, við vorum búnir að veiða svo vel,“ upplýsti Matthías Stefánsson þegar Sporðaköst höfðu samband við hann í gærkvöldi.

Þeir voru fjórir á ferð og höfðu landað fimmtíu fallegum fiskum í lok dags í gær. Þá voru þeir búnir að veiða í einn og hálfan dag. Seinni partur á þriðjudag dag skilað níu fiskum og 41 var færður til bókar í gær.

Friðfinnur Sigurðsson þreytir stóran birting. Það er enn vetur í …
Friðfinnur Sigurðsson þreytir stóran birting. Það er enn vetur í Eyjafirði þó að minni ís sé nú á ánni en í fyrsta túr þeirra félaga. Ljósmynd/Matthías Stefánsson

„Það var eiginlega bara mok í dag,“ sagði Matthías í samtali í gærkvöldi. Þeir veiða áfram í dag. Matthías er með pabba sínum, Stefáni Sigurðssyni og Friðfinni bróður hans. Fjórði maður er Sverrir Rúnarsson leiðsögumaður.

Sverrir Rúnarsson með flottan og þykkan birting. Þeir eru áberandi …
Sverrir Rúnarsson með flottan og þykkan birting. Þeir eru áberandi vel haldnir fiskarnir sem þeir fjórmenningar voru að veiða. Ljósmynd/Matthías Stefánsson

Uppistaðan í aflanum var sjóbirtingur sem tók straumflugur en stöku staðbundinn urriði slæddist með. Þeir fjórmenningar voru að veiða svæði eitt og tvö. „Allir bestu veiðistaðirnir eru undir ís en við náðum að finna staði þar sem leyndust fiskar. Þetta voru flottir fiskar og þó nokkrir á bilinu sjötíu til áttatíu sentímetrar. Svo er alveg ótrúlegt hvað þeir eru þykkir hérna sjóbirtingarnir og verða ekki svona mjóslegnir eins og fyrir sunnan, þegar er um að ræða fisk sem er búinn að hrygna. Kannski spilar inn í hvað vatnið er kalt, ég bara veit það ekki. En maður tekur eftir því þegar þessi fiskur gengur á haustin þá eru þeir hreinlega hnöttóttir. Alveg svakaleg þykkir,“ sagði Matthías.

Fimmtíu fiskar á einum og hálfum degi á fjórar stangir. …
Fimmtíu fiskar á einum og hálfum degi á fjórar stangir. Það er frábær veiði og ekki síst miðað við aðstæður. Friðfinnur Sigurðsson leyfir sér að brosa með enn einn birtinginn. Ljósmynd/Matthías Stefánsson

Hann hefur veitt Eyjafjarðarána áður á þessum tíma árs. Hann segir aðstæður núna miklu erfiðari en til að mynda í fyrra. Enn er mikill ís á ánni og erfiðara að komast leiðar sinnar, hvað þá að veiða.

Veiðidella er ólæknandi. Það er helst að aldur dragi úr …
Veiðidella er ólæknandi. Það er helst að aldur dragi úr einkennum en það er ekki öruggt. Stefán Sigurðsson gleðst yfir rennilegum sjóbirtingi. Ljósmynd/Matthías Stefánsson

Matthías segist hafa komið undirbúinn fyrir kalda daga, þegar hann er spurður hversu kalt þeim hafi verið í gær. „Svo hitaði sólin okkur líka, þannig að þetta var allt í lagi.“ Þetta er ekki fyrsti túrinn hans í Eyjafjarðará í apríl. Þeir feðgar voru á ferðinni fyrr í apríl en Matthías segir að þá hafi verið nánast ómögulegt að veiða sökum þess hversu stór hluti árinnar hafi verið undir ís.

Einhverjir kunna að spyrja hvað sé eiginlega að þessum mönnum að leggja á sig þessa vosbúð. Svarið við því er einfalt. Þeir eru með veiðidellu.

Þær eru erfiðar aðstæðurnar sem blasa við veiðimönnum í Eyjafjarðará. …
Þær eru erfiðar aðstæðurnar sem blasa við veiðimönnum í Eyjafjarðará. En þeir félagar hafa sigrast á þeim og veitt vel. Ljósmynd/Matthías Stefánsson

Eftir að Sigþór Steinn Ólafsson mætti með pítsaofninn í Eldvatn og bakaði flatbökur á bakkanum er sjálfsagt að forvitnast um nesti hjá Matthíasi og félögum. „Við vorum með hangikjötssamlokur frá Kristjánsbakaríi. Þær voru mjög góðar. Við erum meira að einbeita okkur að veiðinni. Við reyndar fengum okkur pítsu á Sprettinum í fyrrakvöld.“

Flestir fiskarnir tóku straumflugur og sá stærsti til þessa hjá hópnum mældist 82 sentímetrar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka