Enn veiðast regnbogar í Minnivallalæk

Regnbogasilungur er enn í Minnivallalæk. Ómar Smári Óttarsson landaði þessum …
Regnbogasilungur er enn í Minnivallalæk. Ómar Smári Óttarsson landaði þessum úr Stöðvarhyl nú um helgina. Þessi mældist 70 sentímetrar. Ljósmynd/Strengir

Það ráku margir upp stór augu í fyrra þegar töluvert magn af regnbogasilungi veiddist í opnun Minnivallalækjar. Opnunin var 1. apríl og töldu margir að um aprílgabb væri að ræða. Svo var sannarlega ekki og veiddust á þriðja tug regnbogasilunga þar í fyrra.

Skítviðri hefur gert mönnum erfitt fyrir við veiði í Minnivallalæk það sem af er apríl, en síðustu daga hefur aðeins rofað til. Veiðimenn sem voru í læknum um helgina gátu verið við og þeir settu í slatta af fiski og bæði lönduðu og misstu. Tveir regnbogasilungar voru í aflanum þannig að hann er enn í læknum. Þröstur Elliðason, leigutaki staðfesti í samtali við Sporðaköst að tveir regnbogar hefðu veiðst um helgina. „Ég hélt að við hefðum náð að hreinsa þetta upp í fyrra en þarna voru tveir. Ég á nú ekki von á að það sé mikið af honum og hann virðist vera bundinn við Stöðvarhyl,“ upplýsti Þröstur.

Ómar Smári fékk svo þessa sleggju. 75 sentímetra urriði. Þetta …
Ómar Smári fékk svo þessa sleggju. 75 sentímetra urriði. Þetta eru fiskarnir sem Minnivallalækur er þekktur fyrir. Enn stærri urriði misstist í Kúavaði, að sögn Þrastar Elliðasonar leigutaka. Ljósmynd/Strengir

Annar regnbogasilungurinn var sjötíu sentímetra fiskur og barðist eins og ljón. Stærsti urriðinn til þessa mældist 75 sentímetrar og er það fiskur af þeirri gerð sem Minnivallalækurinn er nafntogaður fyrir. Enn stærri fiskur misstist í hylnum Kúavaði og var það einn af þessum sem sögur eru sagðar af.

Apríl hefur verið einstaklega erfiður fyrir veiðar í Minnivallalæk. Norð–austanáttin er þrálát á svæðinu og þegar hitastig nær ekki frostmarki er ekki á vísan að róa í læknum. Því miður hefur vorið ekki boðað komu sína. Veiðimenn sem voru við veiðar í síðustu viku fengu nokkra urriða í kringum fimmtíu sentímetrana en sáu þá stóru. Skýrsla þeirra endaði á orðunum, „Þegar næsti góðviðrisdagur kemur verður heldur betur fjör held ég.“

Það er ekki ólíklegt að svo geti farið. Vandamálið er bara að það er enginn slíkur dagur er sjáanlegur í kortunum. En það er fljótt að breytast.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert