Spennandi veiðivika framundan

Urriði á opnunardegi á Þingvöllum. Stærsti fiskurinn sem Cezary fékk …
Urriði á opnunardegi á Þingvöllum. Stærsti fiskurinn sem Cezary fékk í gær mældist 89 sentímetrar. Mikið var af smáum urriða og hann og félagi hans fengu einnig marga á bilinu 60 - 70 sentímetra. Ljósmynd/Cezary

Nýbyrjuð vika er spennandi fyrir veiðifólk. Það lítur út fyrir að vorið sé mætt og veðurspáin næstu daga gerir ráð fyrir sólríkum dögum með tveggja stafa hitatölum og á sama tíma eru fjölmargir veiðistaðir að opna.

Veiðin í þjóðgarðinum á Þingvöllum hófst í gær og þar voru gamalkunnir gestir mættir við fyrsta hanagal. Cezary Fijalkowski er einn traustasti aðdáandi vatnsins og gerði hann góða veiði í gærmorgun á leynistöðunum sínum. „Það var gott veður um morguninn og þá gerðum við góða veiði, en svo versnaði veðrið og þá varð þetta erfiðara,“ sagði Cezary í samtali við Sporðaköst.

Þeir félagar fengu fjölmarga urriða og var sá stærsti 89 sentímetrar. Cezary sagði þó að megnið af fiskinum hefði verið á bilinu sextíu til sjötíu sentímetrar og mikið magn af smáurriða á svæðinu.

Það er greinilegt að kynslóðaskipti eru að verða í urriðanum í Þingvallavatni. Þessir allra stærstu eru sjaldséðari í ár en var fyrir nokkrum árum. Það að mikið magn sé af smáum fiski er hins vegar jákvætt. Hann á bara eftir að stækka. Einhverra hluta vegna er þessu eins farið í sjóbirtingnum og þessir allra stærstu eru fátíðir í vor. Það breytir því ekki að fiskur um sjötíu sentímetrar er glæsilegur silungur, hvort sem hann veiðist í vatni eða í á, á leið til sjávar. Það virðist vera gott framboð af slíkum fiskum og það eru góðu fréttirnar.

Þykkur og fallegur Þingvallavatnsurriði. Það er ný kynslóð á uppleið …
Þykkur og fallegur Þingvallavatnsurriði. Það er ný kynslóð á uppleið í vatninu. Þessir 60 - 70 sentímetra fiskar verða þeir stóru eftir nokkur ár. Ljósmynd/Cezary

Nú er tíminn til að kaupa Veiðikortið sem veitir aðgang að 36 veiðisvæðum víða um land. Sú breyting hefur orðið á að Mjóavatn og Kleifarvatn í Breiðdal eru ekki lengur hluti af Veiðikortinu. Hins vegar kemur Leirvogsvatn í Mosfellsbæ nýtt inn en þar veiðist bæði urriði og bleikja.

Bæklingurinn sem fylgir með Veiðikortinu er afar upplýsandi og gott að renna í gegnum hann, þar sem fjallað er um öll veiðisvæði sem kortið býður upp á og öllum helstu spurningum svarað.

Það eru spennandi viðburðir framundan fyrir áhugafólk um veiði. 

Frá opnunardegi Elliðavatns í fyrra. Margrét Valdimarsdóttir viðburðastjóri hjá Skógrækt …
Frá opnunardegi Elliðavatns í fyrra. Margrét Valdimarsdóttir viðburðastjóri hjá Skógrækt Reykjavíkur dáist að fiskum sem Alfreð Maríusson veiddi á opnunardeginum i fyrra. Ingimundur Bergsson umsjónaraðili Veiðikortsins fylgist ánægður með. ljósmynd/Sporðaköst

Á fimmudag, sem er sumardagurinn fyrsti verður fjör upp við Elliðavatn. Opnunardagur vatnsins og margir eru áhugasamir um þann dag. Fjölmenni mætti þar síðasta ár og nutu fræðslu og svo var líka fín veiði þennan dag. Miðað við veðurspá eru allar líkur að það geti endurtekið sig. Skógræktarfélag Reykjavíkur, Veiðifélag Elliðavatns og Veiðikortið bjóða til veiðigleði milli klukkan 10 og 14, sumardaginn fyrsta. Hressing, fræðsla og veiði. Góð blanda.

Rúsínan í pylsuendanum er svo sýningin Flugur og veiði sem hefst næsta laugardag, þann 27. apríl og stendur í tvo daga. Þar verða fjölmargir áhugaverðir aðilar að kynna vörur, þjónustu, veiði og græjur. Fjölmargir af okkar bestu fluguhnýturum verða á svæðinu og hefur Sigurður Héðinn, sem stendur fyrir sýningunni sagt að þetta verði eitt allsherjar veiðipartý. Miðasölu annast Stubbur og er hægt að kaupa miða á síðunni stubb.is.

Hér er bara tæpt á helstu viðburðum sem eru í boði. Flest veiðifélög eru að hefja sumarstarfið og það er búið að draga frá og setja snjóskófluna niður í geymslu. Svo er bara að vera vakandi fyrir áhugaverðum fundum, námskeiðum og ráðstefnum sem verða á dagskrá víða.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert