„Mitt í undirbúningnum dó fósturpabbi minn. Það var rosalegt sjokk og ég var bara langt niðri í nokkurn tíma. Treysti mér til dæmis ekki að koma í búðina í viku. Hann var mentorinn minn og kenndi mér svo margt. Hann bjó mig til,“ segir Sigurður Héðinn þegar hann rifjar upp daginn sem Jimmy Sjöland, fósturfaðir hans, dó. Það var í byrjun mánaðarins, eða 1. apríl. Vegna þessa og af virðingu við Jimmy hefur Sigurður Héðinn ákveðið að sýningin Flugur og veiði sem haldin verður um komandi helgi, verði tileinkuð minningu Jimmy.
Röddin brestur nánast hjá Sigga þegar hann talar um kallinn. „Já. Við erum stórir strákar en samt þegar á reynir bara með lítið barnslegt hjarta.“ Hann brosir daufu brosi. „Hann var svo stór hluti af mér og mínu lífi. Við vorum alls ekki alltaf sammála og gekk á ýmsu en það er líka bara flott. Seinni ár borðuðum við alltaf saman á fimmtudögum og þá var á borðum dansk smörrebröd eða vísir að því. Allskonar og frikadellur og nefndu það. Svo þegar hann er farinn, óvænt, þá verða þessar minningar svo stórar.“
Siggi sagði honum af hugmynd sinni um stóra veiðisýningu. Jimmy leist ekkert á það og hafði miklar efasemdir. Svo þegar þetta fór að raðast saman og hann sá að þetta var full alvara og stefndi í flottan viðburð þá varð hann helsti stuðningsmaðurinn og hvatti mig áfram með alls konar tillögum og spurningum og ráðleggingum.
„Ég lærði veiðina með honum og hans félögum. Ólafi Hauki og Nonna Bald. Þeir voru svo íhaldssamir og flottir. Til dæmis fékk pabbi aldrei lax á Sunray. Honum fannst það bara ekki fluga. Þessir kallar voru í Frances. Ég man eftir því einu sinni að ég var með þeim í Norðurá og var eitthvað að snudda í dótinu hjá Óla Hauki. Þar voru endalausir pokar af rauðum Frances. Ég gat ekki annað en brosað þegar ég tók eftir því að pokarnir voru merktir með ártölum. Þarna voru mismunandi árgangar af Frances. Eiginlega allt hálf tommu túbur. Svo kom Óli Haukur. Klippti af Francesinn sem var undir og settist við veiðitöskuna. Hann lagði túbuna á lærið og fór að fara í gegnum stæðuna. Var að leita að betri eða fallegri Frances. Eftir langan tíma lagði hann töskuna frá sér og setti þá gömlu undir aftur.“ Hann hlær dátt.
Þetta tók mikið á þig. Hugsaðirðu um að hætta við?
„Nei. Það kom ekki tilgreina. En ég skal viðurkenna að þetta var mjög erfitt. Hann hefði nú fyrst skammað mig kallinn ef ég hefði hætt við.“
Ertu tilbúinn með sýninguna?
„Nei.“ Við horfumst í augu. Svo fer Siggi að hlæja. „Maður er aldrei tilbúinn. Það er alltaf hægt að gera eitthvað meira eða betur. Þrír básar eru óseldir og ég hef tekið ákvörðun um það að ef þeir seljast ekki þá verður bara rýmra um þá sem verða að sýna. En ég er sáttur með stöðuna og tel að undirbúningur hafi gengið framar vonum.“
Sýningin verður haldin undir stúkunni á Laugardalsvelli og segir Siggi að fyrsti höfuðverkurinn hafi verið að finna staðsetningu sem hentaði. Niðurstaðan hafi verið Laugardalsvöllurinn og hann segist mjög ánægður með þá aðstöðu.
„Það höfðu ekki allir trú á þessu þegar ég var að byrja að kynna hugmyndina fyrir mönnum. Hvað ert þú að vilja upp á dekk? Var svona viðhorfið fyrst í stað. Ég skil það vel. Ég hef aldrei komið að svona hlut áður og maður þarf virkilega að vanda sig. Markaðsfræðin segja að það sé minnsta mál að selja einhverjum eitthvað einu sinni. En ef þú ætlar að gera það oftar þurfa hlutirnir að virka og vera ekki bara í lagi. Þeir þurfa að vera góðir. Ég sé fyrir mér að halda þessa sýningu oftar. Hvort sem það verður eftir eitt, tvö eða þrjú ár. Það kemur bara í ljós.“
Siggi segir að þarna verði nánast allir í veiðibransanum. Verslanir, veiðileyfasalar, erlendir sérfræðingar og fjölmargir fluguhnýtarar. Hann segist hafa farið á fjölmargar sambærilegar eða svipaðar sýningar víða um heim. „Fluguhnýtarar vekja alltaf athygli og ég tel að á sýningunni verði megnið af okkar bestu hnýturum. Mér segir fólk sem stendur fyrir svona sýningum erlendis að hnýtarar séu mikið aðdráttarafl. Ekki minna en verslanir og þeir sem eru að kynna vörur. Það er alltaf hægt að setjast upp í bíl og keyra í næstu veiðibúð. En þú gerir það ekki með hnýtara. Þetta eru mikið til nördar sem eru að föndra hver í sínu horni.“
Hvernig gekk þér að draga þá út úr hellunum?
„Það gekk bara mjög vel og það verður gaman að horfa á handbragð þessara meistara.“
Hann segir mjög þakklátur fyrir alla þá aðstoð sem hann hefur fengið. Fjölmargir af vinum hans hafi lagt gott til og ekki sparað ráðleggingar. „Ég hlusta á þá alla en tek svo bara mark á sumum þeirra.“ Hann hlær svo grátt skeggið hristist. Förum ekki nánar út í þá sálma.
Sigurður Héðinn gengur oftast undir nafninu Haugur. Fluga með því nafni hefur heldur betur slegið í gegn og hann fleiri flugur. Sérstaklega nefnir hann Skugga. „Jimmy kom með það nafn. Hann sagði þetta er bara þín útfærsla af Sunray Shadow og stakk upp á nafninu Skugga. Mér leist strax vel á það. Eins og ég segi hann bjó mig til. Kenndi mér að hnýta. Kom mér inn í leiðsögnina og kenndi mér undirstöðuatriðin í veiðinni. Svona hlutir sitja með manni alla tíð. Hann fór alltof snemma. Hann sagði við mig skömmu áður en hann dó; „Ég hefði átt að hlusta betur á lækninn minn.“ Maður er aldrei búinn undir svona missi.“ Hér er Haugurinn orðinn meir. „En sýningin er tileinkuð honum og hans minningu.“
Sýningin stendur í tvo daga. Opna á laugardag 27. klukkan 10 og verður opið fram til klukkan 18. Á sunnudag er svo opið frá klukkan 10 til 17.
Allar upplýsingar er hægt að nálgast á flugurogveidi.is á netinu og einnig á facebook og öðrum samfélagsmiðlum.
Hægt er að kaupa miða á stubb.is og þar eru í boði dagpassar, helgarpassar og afsláttur í boði fyrir eldri borgara og öryrkja og frítt inn fyrir tólf ára og yngri.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |